Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 15:37:15 (5526)

1997-04-21 15:37:15# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:37]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæðulaust að endurtaka að það eru allir sammála þessari forgangsröðun verkefna í Reykjaneskjördæmi. Um það er ekki verið að deila. Það sem ég er hins vegar að árétta og hæstv. ráðherra skilur en neitar að viðurkenna er að tilteknar hafnir skuli settar nánast út úr áætluninni. Ekki að þær séu skertar eða fái lág framlög heldur eru þær bókstaflega settar til hliðar, innan sviga. Það er auðvitað óásættanlegt með hliðsjón af jafnræðisreglunni. Það var einmitt það mál sem ég var að víkja að varðandi aðstöðu fyrir skipaviðgerðir norðan heiða. Ég hef aldrei verið í hópi þeirra sem gagnrýndu ráðherrann sérstaklega fyrir það að leggja því máli lið. Það voru ekki mín orð. Ég sagði hins vegar það eitt að ráðherra hlýtur að standa klár á því að ráðist hann í slíkar endurbætur vegna slíkra mála norðan heiða, þá gefur það auga leið að samkeppnisaðilar í sömu grein, á grundvelli jafnræðisreglunnar, koma auðvitað í kjölfarið og óska þess hins sama og það er einmitt það sem ráðherrann á mjög sennilega von á suður í Hafnarfirði, þar sem einstaklingar eru með sambærilegan rekstur og Slippstöðin á Akureyri. Hvernig ætlar hann að bregðast því? Það er lykilatriði þessa máls. Menn þurfa að vera ábyrgir gjörða sinna og afleiðingarnar geta verið með ýmsum hætti. Það skal ekki standa á mér að styðja og styrkja ráðherrann í því að veita fé til samkeppnisaðila þannig að þessari samkeppni sé nú ekki haggað á þeim vettvangi, eins og ráðherranum er allt í einu svo umhugað um þegar kemur að höfuðborgarsvæðinu og ber því við að Hafnarfjarðarhöfn sé á sama grundvelli og Reykjavíkurhöfn --- þessi stóri risi sem hér er. Við samgöngunefndarmenn ásamt sjávarútvegsnefndarmönnum voru í heimsókn þar og það fór ekkert á milli mála að hér er um öfluga höfn að ræða, sem við fögnum heils hugar, en þeir eru auðvitað alveg sér á báti og eru ekki í samkeppni við eina né neina. Hér er um að ræða safnhöfn sem safnar upp vörum allt í kringum landið. Þannig að þetta er auðvitað fjarri (Forseti hringir.) öllu lagi og ég heyri það nú á hæstv. ráðherra að hann verður til með að laga og lappa upp á þetta eins og þörf er á.