Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 15:39:51 (5527)

1997-04-21 15:39:51# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:39]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það hefur ekki gengið þrautalaust fyrir hæstv. samgrh. að koma fram hafnaáætlun sem sést best á því að þrátt fyrir að ráðherrann hafi setið nærfellt sex ár samfleytt í stóli samgrh. hefur hafnaáætlun aldrei verið samþykkt. Má minna á athugasemdir Ríkisendurskoðunar af því tilefni.

Þrautasaga ráðherrans er rakin í grg. með þáltill. og rétt að rekja hana í örfáum orðum þannig að þingheimi sé ljóst hversu langur aðdragandi er að þessu þingmáli, sem ætti að vera reglulegt verkefni þingsins á tveggja ára fresti rétt eins og flugmálaáætlun og vegáætlun. Í mars 1993, fyrir rúmum fjórum árum, var lögð fram till. til þál. að nýrri hafnaáætlun. Hún var ekki útrædd þá og síðan, hygg ég að megi segja, hefur ekki verið lögð fram önnur áætlun fyrr en núna fjórum árum seinna þrátt fyrir nokkrar atrennur. Byrjað var að endurskoða þessa gömlu þáltill., þó hún hafi aldrei verið útrædd, strax í janúar 1994 og tók svo langan tíma að það varð eiginlega að endurskoða endurskoðuðu útgáfuna áður en hin endurskoðaða útgáfa var lögð fram í formi þáltill. sem við erum að ræða núna og dugðu þó ekki til þær breytingar því enn var till. breytt áður en þskj. kom hingað fram til Alþingis.

Ég vil segja um þetta þingmál að nokkrir hnökrar eru á því sem rétt er að minna á. Sá fyrsti er að fjármagnið sem ætlað er í þennan málaflokk er svo knappt að það dugir engan veginn til að mæta þeim þörfum sem uppi eru og almennt er samstaða um að ríkið eigi að taka þátt í að kosta á þessu sviði. Þannig kemur fram að á þessu ári er ekki áætlað til framkvæmda nema um 340 millj. kr. þrátt fyrir að fjárveitingin sé hærri, mismunurinn rennur til að greiða eldri framkvæmdir --- skuld vegna þeirra, þannig að til nýrra framkvæmda eru einungis liðlega 300 millj. kr. Þegar maður les þessa þáltill. þá er ljóst að ekki er betri tíð í vændum því að í öll þessi fjögur ár sem áætlunin á að ná til er það fjármagn mjög skorið niður sem menn hafa til ráðstöfunar til nýrra framkvæmda. Það er vegna þess að verið er að borga niður hala upp á 750 millj. kr. sem myndast hefur á undanförnum árum fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á síðustu árum hefur skorið niður fjármagn til framkvæmda í samgöngumálum í hverjum einasta málaflokki, ár eftir ár, hvort sem menn tala um flugmálaáætlun, vegáætlun eða hafnaáætlun. Því miður verður ekki breyting á þeirri pólitísku stefnu stjórnarflokkanna að menn verja allt of litlu fé til málaflokksins miðað við þarfir.

Ég tek undir það viðhorf hjá hæstv. ráðherra, sem fram kom undir lok framsöguerindis hans, að rétt væri að athuga að dreifa styrkjum ríkisins eftir tekjum hafnanna. Ég minni á að nú þegar eru nokkrar hafnir algerlega undanskildar ríkisstyrk vegna góðrar afkomu. Það eru hafnir sem eru við innnes, einkum í Reykjavík, sem talið er að hafi það miklar tekjur af umsetningu sinni, að ekki sé rétt að leggja fé af tekjustofnum ríkissjóðs til mannvirkjagerðar í þeim höfnum vegna þess að þær hafnir séu það vel stæðar að þær geti borgað framkvæmdir sínar af eigin tekjustofnum. Þetta er ekkert óeðlilegt viðhorf en þetta viðhorf á auðvitað að vera út í gegnum alla hafnaáætlunina. Það á ekki að hætta þegar búið er að henda út nokkrum höfnum. Ég minni á að á einum tíma í þessu ferli, sem ég minntist lauslega á áðan, var gert ráð fyrir mismunandi ríkisframlagi til hafnarframkvæmda eftir fjárhagsstöðu og tekjumöguleikum hafna.

[15:45]

Ráðherra hefur kosið að leggja þessa hafnaáætlun þannig fram að taka þessar tillögur út úr upphaflegri þáltill. En það voru nokkrar hafnir á landinu sem talið var að stæðu það vel að þær gætu borgað stærri hlut af nauðsynlegum framkvæmdum hjá sér af þeim tekjum sem þær hafa. Og ég tel það eðlilegt viðhorf að menn dreifi takmörkuðu ríkisfé eftir þörfum og getu hafnanna. Annað væri óeðlilegt viðhorf. Ef menn hafna því að hafa mismunandi ríkisframlag eftir getu hafnanna þá geta menn ekki haft rök til að taka út úr hafnaáætlun ákveðnar hafnir með þeim rökum að þær séu það efnahagslega sterkar. Þannig að það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum.

Ég vil gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það að taka ákvörðun um mjög stóra framkvæmd, setja hana inn í þessa áætlun án þess að auka það fjármagn sem til framkvæmda er. Þar á ég við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í janúar sl. um Grindavíkurhöfn. Þar er um mjög stóra framkvæmd að ræða sem eftir því sem kynnt var í fjárln. á þessum vetri gæti numið 700 millj. kr. Og þegar ríkisstjórnin tekur að sér að skuldbinda ríkissjóð til kostnaðarþátttöku í þessu mikla verkefni, sem út af fyrir sig er ekki gerð athugasemd við að þurfi að ráðast í þá, er fráleitt annað en að ríkisstjórnin hækki fjárveitingar til þessa málaflokks en láti það ekki bitna á öðrum höfnum landsins að hún tekur á sínum vettvangi ákvörðun um að taka eina framkvæmd fram fyrir aðra. Ég tel þetta mjög ámælisverða framgöngu af hálfu ríkisstjórnarinnar og til þess eins fallna, eins og reyndar kom fram í máli hæstv. ráðherra, að draga úr framlögum hjá öðrum höfnum landsins. Ég hlýt að spyrja hæstv. samgrh. hvað aðrar hafnir landsins hafa til saka unnið að þurfa að búa við skert framlög á næstu fjórum árum vegna þess að ríkisstjórnin ákveður að taka eina framkvæmd fram yfir aðrar.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, harma þá stöðu sem hafnir á Vestfjörðum eru komnar í með þessari þáltill. En það er ljóst að nú munu hafnir á Vestfjörðum, sem er sá landshluti sem hvað ríkast er háður sjósókn og hafnargerð, búa við framlög á næstu árum sem eru niður undir það að vera 1/4 af því sem var (Forseti hringir.) fyrir nokkrum árum áður en hæstv. samgrh. settist í stólinn. Og það er varla að maður geti unnt honum þess að óska honum til hamingju með afrekið að skera niður framlög til Vestfjarðahafna um 3/4 í sinni tíð.