Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:07:48 (5531)

1997-04-21 16:07:48# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði nú ekki ætlað að elta ólar við sumpart ágætt innlegg hv. þm. Árna Johnsens en ég get ekki látið hjá líða vegna ákveðinnar vanþekkingar sem fram kom í máli hans og þeirrar framsetningar sem þar var að finna. Þar kvað við hinn gamalkunna og þreytta tón margra hér inni að reyna að stilla upp sem andstæðum pólum þéttbýli og dreifbýli, þ.e. fólki hér á suðvesturhorninu og fólki úti á landi. Hér reyndi hv. þm. að gera það með þeim hætti að gefa til kynna að útgerð og fiskvinnslu til að mynda í mínum heimabæ, Hafnarfirði, mætti líta léttvægum augum og væri veigalétt í atvinnulífi viðkomandi staðar. Þetta er auðvitað slík firra að engu tali tekur og ég trúi því ekki að hv. þm. viti ekki betur. Hann hefði raunar ekki þurft annað en að skoða fylgigögn með þessari hafnaáætlun til þess að komast að raun um það. Þar er einmitt sérstaklega tiltekið í lista yfir afkomu hafnanna hvað fiskurinn gegnir miklu og stóru hlutverki í afkomu þeirra. Í Hafnarfirði eru tekjur vegna sjávarafla u.þ.b. fimmtungur af heildartekjum hafnarinnar. Þannig að auðvitað finnst fyrir því þegar ekki aflast og þegar fiskur kemur ekki á land, bæði í tekjum hafnarinnar og í atvinnulífi viðkomandi staðar. Það er eftirtektarvert að í hinum stóra útgerðarbæ Vestmannaeyjum eru tekjurnar vegna fisksins u.þ.b. fjórðungur eða ríflega það þannig að þar hallast nú ekki á.

En ég sagði áðan vegna Vestmannaeyja, að ég nefndi það bara sem eina af fjölmörgum höfnum sem eru býsna vel reknar og hafa sem betur fer skilað góðri afkomu. Og það voru ekki mín orð að það ætti að refsa þeim höfnum fyrir það heldur þvert á móti ættu þær í einhverju að njóta þess.