Hafnaáætlun 1997--2000

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 16:39:29 (5541)

1997-04-21 16:39:29# 121. lþ. 108.2 fundur 483. mál: #A hafnaáætlun 1997-2000# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:39]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég var kominn þar í fyrri ræðu minni að gera aðeins grein fyrir fjárveitingum til hafna á Vestfjörðum. Ég vil halda áfram þar sem frá var horfið og ljúka því sem ég hafði hugsað mér að drepa á í því efni.

Ég vildi þó fyrst aðeins leiðrétta það sem ég sagði þar um samanlagðar fjárveitingar til Vestfjarðahafna, að þær hefðu dregist saman miðað við þessa áætlun um 3/4 frá því sem áður var. Það var fullmikið sagt og vildi ég hafa það sem sannara reynist að samdrátturinn er um helmingur. Þær eru samkvæmt þessari áætlun um helmingurinn af því sem þær hafa að jafnaði verið nokkur ár þar á undan og þó sum árin meiri. Þannig að það er rétt að það komi skýrt fram sem sannast er í þessu efni samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá Siglingastofnun.

Það er engu að síður ákaflega alvarlegt mál í því kjördæmi sem byggir afkomu sína mjög mikið á sjósókn --- þar eru margar hafnir sem eins og aðrar hafnir þurfa auðvitað stöðugra endurbóta við og viðhalds á mannvirkjum --- að framkvæmdafé skuli skorið niður svo mikið sem raun ber vitni og það í svo langan tíma samfleytt eins og lagt er til með þessari þáltill. Ég verð að segja að á öðrum tíma hafa fjárveitingar til hafna á Vestfjörðum ekki verið svo hraksmánarlega litlar eins og á því tímabili sem við fjöllum hér um og svo síðustu tvö, þrjú árin þar á undan.

Ég vildi aðeins gera grein fyrir því hvernig þessi niðurskurður kemur niður á einstakar hafnir samkvæmt þessari hafnaáætlun hæstv. samgrh. og stjórnarflokkanna. En ég vek athygli á því að þingmenn beggja stjórnarflokkanna hafa lagt blessun sína yfir þessa áætlun og eru greinilega a.m.k. tilbúnir til þess að samþykkja hana eins og hún er lögð fram. Það hefur ekkert annað komið fram en að ætla má að svo sé að af hálfu þingmanna stjórnarliðsins sé ekki uppi mikill hugur um að breyta nokkru í þessari áætlun. (Gripið fram í: Málið fer í þingnefnd.) Málið fer í þingnefnd, er hér bent á og vissulega er það svo en menn verða að gera grein fyrir viðhorfum sínum. Betra er að menn geri það við umræðu en menn geta geymt það og gert það við þingnefnd. Og við skulum bíða og vona og sjá hvort stjórnarliðar hressist í þingnefndinni þegar þeir fá málið til sín þangað.

Ég vek athygli á því, og þykir ábyggilega mörgum landsbyggðarmanninum fróðlegt að heyra það, að framlögum til hafna í kjördæmi eins og Vestfjörðum er svo háttað að aðeins í þremur höfnum á næsta ári er gert ráð fyrir fjárveitingum til nýframkvæmda. Það er á Bíldudal, á Ísafirði og í Bolungarvík. Annars staðar er ekki tillaga í þessari áætlun um fjármagn til nýframkvæmda. Og á árunum tveimur þar á eftir, 1999 og 2000, eru fjárveitingar áætlaðar til fimm hafna sýnist mér. Í fyrsta lagi til Tálknafjarðar. Ég vek athygli á því að þessi tvö ár, 1999 og 2000, er ekki ein einasta króna á þessari áætlun til hafna í hinu nýstofnaða sveitarfélagi Vesturbyggð sem m.a. var stofnað til fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar, með sérstakri hvatningu frá ríkisstjórninni þar sem fólk var hvatt til þessarar aðgerðar vegna þess að hún mundi bæta hag þess svo mikið. Og við höfum hér tillöguna, þ.e. að á þessum tveimur árum, 1999 og 2000, er ekki ein einasta króna til hafna í þessu sveitarfélagi og eru þó þrjár hafnir í því. Það er gert ráð fyrir myndarlegu framlagi til hafnanna á Flateyri og á Ísafirði. Auk þess er lítils háttar framlag í Súðavík og á Hólmavík. En á þessu tveggja ára tímabili eru engar framkvæmdir í átta höfnum kjördæmisins: Reykhólahöfn, öllur þremur höfnunum í Vesturbyggð, Þingeyri, Bolungarvík, Drangsnesi og Norðurfirði. Enginn þessara hafna fær fjármagn í áætluninni á umræddum tveimur árum, 1999 og 2000.

[16:45]

Verra er ástandið þegar horft er fram á árið 1998, þá eru ellefu hafnir í kjördæminu sem fá ekkert framlag frá ríkinu. Er það nema von að menn velti því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt að leysa ríkið undan þeirri kvöð að útdeila peningum til hafna landsins? Ætli það sé ekki bara betra að færa þetta heim í hérað, taka það úr höndunum á stjórnarliðinu og láta heimamenn um að útdeila þeim peningum? Menn skilja kannski betur þörfina heima í héraði en hjá ríkisvaldinu hér syðra þar sem það er samanþjappað á höndum fáeinna manna. Ég tel að það sé fyllilega íhugunarefni að menn beiti sér fyrir þeirri breytingu að framlög til hafnamála verði færð frá ríkisvaldinu heim í hérað.

Virðulegi forseti. Framlög til hafnamála í einstökum landshlutum hefur aðeins borið á góma og menn hafa verið að metast um það. Ég er ekki í hópi þeirra sem telja að það sé skynsamlegur eða frjósamur málflutningur að menn standi í slíku skaki. En nauðsynlegt er að upplýsa um staðreyndir þegar verið er að halda fram hlut eins þannig að menn vaði þá ekki í villu og svíma um hvernig málin hafa þróast á síðustu árum. Ég vek athygli nefndarmanna á því að Siglingastofnun hefur tekið saman að minni beiðni framlög til hafnamála síðustu 22 árin. Það liggur fyrir í skýrslu sem hefur verið útbýtt í samgn. og þeir sem þar sitja eiga að geta kynnt sér það efni og komist að raun um það, eins og ég og aðrir. Hér er um býsna fróðlegt talnaefni að ræða sem ástæða er til að lesa vandlega yfir.

Herra forseti. Ég vil ekki víkja að fleiri atriðum í þessu máli en ég hef þegar gert, en vænti þess að hv. samgn. muni taka þetta mál til meðferðar og gera það að betra þingmáli en það er í þessum búningi.