Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 20:31:37 (5555)

1997-04-21 20:31:37# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[20:31]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Nú þegar eftir lifa um það bil þrjár vikur þings, hugsanlega fjórar, er ljóst að allstór og mikil verkefni eru fram undan hér á hinu háa Alþingi. Mörg stór mál eru til vinnslu í nefndum og reyndar allnokkur mál sem liggja hér fyrir og ekki hefur verið mælt fyrir enn.

Þau mál sem eru á dagskrá fundar í dag eru býsna stór, þ.e. frv. um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, frv. um Fjárfestingarbankann og Nýsköpunarsjóð. Þetta eru allt saman býsna stór mál sem snerta skipulag fjármagnsmarkaðarins hér á landi, hvernig því skuli háttað og ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera þar á ákveðnar breytingar sem við sem tilheyrum núverandi stjórnarandstöðu erum ekki alls kostar ánægð með. Ég vil taka það fram strax í upphafi míns máls að ég get tekið undir mest af þeirri gagnrýni sem fram kemur í nefndarálitum fulltrúa jafnaðarmanna annars vegar og Alþb. hins vegar. Ég er áheyrnarfulltrúi í hv. efh.- og viðskn. og skila þar af leiðandi ekki nefndaráliti. En það er ansi margt sem vert er að huga að í þessu samhengi og því hvað verið er að gera með þessum breytingum. Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að það er ekki allt of auðvelt að átta sig á því hvaða afleiðingar þessar breytingar muni hafa á fjármagnsmarkaðinn. Það fer mjög mikið eftir því hvernig á spilunum verður haldið.

Þegar ég var að undirbúa mig undir þessa ræðu fór ég að hugleiða þau einkavæðingarmál sem hafa verið mjög á dagskrá allt frá því að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. tók við völdum vorið 1991, en þá má segja að hafist hafi algjörlega nýtt tímabil varðandi slík mál hér á landi þó að aðeins hafi örlað á því fyrir þann tíma að ríkisvaldið og reyndar kannski sveitarfélögin ekki síður hafi farið að losa sig út úr ýmiss konar rekstri sem fyrst og fremst átti sér sögulegar forsendur allt aftur til kreppuáranna eða jafnvel til heimsstyrjaldarinnar fyrri þegar mönnum fannst nauðsynlegt að ríkisvaldið hefði frumkvæði að ýmiss konar rekstri, innflutningi og stjórn á atvinnulífinu.

Síðan gekk kreppan í garð sem kallaði á afskipti ríkisins til þess sérstaklega að reyna að koma í veg fyrir að fyrirtæki yrðu gjaldþrota og einnig til þess að halda uppi atvinnu í landinu eftir því sem mögulegt var. Frá þeim tíma hafa ríkisafskipti og eign ríkisins í fyrirtækjum verið býsna algeng og mikið um hana, en það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem menn hafa farið að setja verulegt spurningarmerki við þann rekstur.

Það sem hefur mjög skort á að mínum dómi er að menn hafi sest niður og skilgreint hvert hlutverk ríkisvaldsins sé. Hvar á ríkisvaldið að koma að? Hvert er hlutverk þess í þágu almannahags? Hvar á að draga línuna? Kannski má segja að á undanförnum árum hafi ekki verið deilt um það hvar ríkið ætti að koma að málum, heldur fyrst og fremst hvernig staðið hefur verið að því að breyta fyrirtækjum ríkisins í hlutafélög. Hvernig hefur verið staðið að því að selja hlut ríkisins í þessum sömu félögum? Þarf ég ekki annað en vísa til þeirra miklu deilna sem áttu sér stað á sínum tíma um Síldarverksmiðjur ríkisins.

Það er svolítið merkilegt að velta því fyrir sér eða draga það inn í umræðuna að á síðasta kjörtímabili gerðu þáv. og núv. hæstv. fjmrh. mikið af því að hrósa einkavæðingu ríkisins og batt við hana miklar vonir og hún átti að skapa miklar tekjur. En það gerðist ár eftir ár að þær tekjuvonir brugðust. Nú bregður hins vegar svo við á þessu kjörtímabili að ekki er orð að finna um tekjur af einkavæðingu í frumvörpum ríkisstjórnarinnar til fjárlaga. Ég fletti því upp áðan, þ.e. í frv. fyrir árið í ár og ég fann ekki orð þar um það fé sem átti að skila sér í ríkissjóð þannig að þó að einkavæðingin haldi áfram, eru menn greinilega hættir að gera sér vonir um að hún skili einhverjum ósköpum í ríkissjóð.

Sú umræða sem hér á sér stað fjallar um mjög öflugar og reyndar gamlar stofnanir í okkar samfélagi sem eru ríkisbankarnir. Þegar litið er til þess hvort rétt sé að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög, þá verður maður að spyrja sig, hverjar forsendurnar séu. Hverjar eru forsendurnar fyrir einkavæðingu, fyrir því að breyta ríkisstofnunum í hlutafélög? Það er annars vegar það atriði sem ég nefndi áðan, að menn hafa verið að reyna að átta sig á því hvar ríkið eigi að vera, í hvaða og hvers konar rekstri og þjónustu ríkið eigi að vera. Hvenær er ríkið í beinni samkeppni við aðila á almennum markaði? Hvar á að draga þær línur? Þegar ég skoða þessi mál, þá finnst mér tvennt fyrst og fremst skipta þar meginmáli: Í fyrsta lagi að ekki sé verið að afhenda eigur almennings á óeðlilega lágu verði og að eignaraðildin sé dreifð, að þegar verið er að breyta stórum og öflugum stofnunum, þá sé hugsað til þess og séð til þess í lögum að eignaraðildin sé dreifð þannig að ekki sé verið að þjappa valdi og fjármagni á óeðlilega fáar hendur.

Tilgangurinn er sá að jafna samkeppnisstöðu og helst að auka eða tryggja samkeppni en ekki sá sem ég nefndi hér áðan, að þjappa saman valdi og auði. Þá hljótum við auðvitað að spyrja okkur: Nást þessi markmið þegar ríkisbankarnir eiga í hlut? Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að ríkisbankar hljóta í flestum tilvikum að hafa ákveðna sérstöðu og ákveðinn forgang umfram aðra banka. Þeirra staða hlýtur óhjákvæmilega að vera nokkuð sterkari í samkeppninni, ekki síst vegna þess að þeir hafa ríkisábyrgð að baki. En þar á móti kemur spurningin hvort hagkerfi og ekki síst lítil hagkerfi eins og okkar, komast af án þess að hafa slíka banka, komast af án þess að hafa ríkið að baki sér. Þeirrar meginspurningar spurði ég við 1. umr. þessa máls og hef nú hugsað þetta málefni allt saman út frá þeirri spurningu hvort íslenskt efnahagslíf og íslenskur lánamarkaður geti komist af án ríkisbanka. Allar þær upplýsingar sem hafa verið bornar á borð í efh.- og viðskn. bera með sér að menn telja að ekki sé þörf á ríkisbanka, að það sé það mikið framboð á lánsfjármagni að ekki þurfi að óttast að kjör Íslendinga á t.d. erlendum lánamörkuðum versni á þann veg að okkur bjóðist ekki lán til jafnlangs tíma eða vextir hækki, það sé einfaldlega það mikið framboð á lánum. En spurningin er auðvitað: Hversu lengi stendur það? Er það varanlegt ástand? Þeirri spurningu getur enginn svarað.

Þá má spyrja sig: Er hægt að hverfa til baka ef samdráttarskeið hæfist, er þá hægt að hverfa til baka? Við höfum séð það á Norðurlöndunum að þar hefur ríkisvaldið gripið inn í fyrst og fremst til að bjarga einkabönkunum. Þegar þar þrengdi mjög að af ýmsum orsökum, þá greip ríkisvaldið þar inn í og bjargaði bönkunum frá hruni. En það hlýtur öllum að vera ljóst að hrun í bankakerfinu eins og menn upplifðu t.d. á kreppuárunum er afar alvarlegt mál.

Niðurstaða mín er sú að ekki sé allur skaði skeður þó að þessi breyting verði gerð á bönkunum, þ.e. á Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Hins vegar er spurningin sú hvernig það verður gert og hvað felst í þeim breytingum sem hér er verið að boða. Þar get ég tekið undir með þeim stjórnarandstæðingum sem talað hafa á undan mér að margt er að athuga við þá leið sem hér er verið að fara.

Ég vil fyrst nefna að auðvitað kemur afar spánskt fyrir sjónir að horfa upp á það að menn breyta þessum tveimur bönkum í hlutafélagabanka en stofna nýjan ríkisbanka í leiðinni. Þetta finnst mér koma mjög spánskt fyrir sjónir. Ég hefði talið að miklu nær væri að fara þá leið að koma sjóðunum, sem verða hér síðar á dagskrá, inn í banakerfið almennt. Mér finnst við í raun og veru alls ekki hafa fengið nægilega skýringu á því hvers vegna ríkisstjórnin kaus að fara þá leið sem farin er, en ég kýs að setja það í samhengi við valdakerfið í landinu og það að menn séu ekki tilbúnir að sleppa hendinni af þessum sjóðum og ráðstöfun þess fjár sem þar fer í gegn. Ég tek undir þau sjónarmið að mér finnst þetta vera gamaldags. Mér finnst að menn hefði átt að stíga skrefið til fulls og koma þessari lánastarfsemi fyrir í bönkunum almennt en ekki vera að stofna hér nýjan ríkisbanka. Ég minni á það sem fram hefur komið fyrr í dag að þeir sem ræddu um þann banka spáðu því að hann mundi fara út í venjulega lánastarfsemi og verða í samkeppni við hina bankana. Ég veit svo sem ekki hvernig menn ætla að koma í veg fyrir það.

[20:45]

Varðandi sjálfa breytinguna á bönkunum vil ég nefna nokkur atriði sem mér finnst vera athugunarverð. Það er þá fyrst að ekkert í þessu lagafrv. tryggir að eignaraðild, eftir að ríkið hefur aukið hlutafé sem það væntanlega byrjar á, verði dreifð. Þó það komi fram í greinargerð með frv. að stefnt sé að slíku þá er ekkert sem tryggir það. Mér finnst vera lykilatriði í þessu máli að þeir sem hafa verið að sanka að sér auði og völdum og sú mikla blokkamyndun sem á sér stað núna í íslensku atvinnulífi teygi sig ekki inn í bankakerfið í ríkari mæli en hún gerir nú þegar.

Þá vil ég nefna það sem snýr að valdi ráðherra. Það má segja að hér sé um einræðisstjórn á bankanum að ræða í stað þess að auðvitað hefði verið hægt og það ætti að fara þá leið að gera bankana að almenningshlutafélögum, dreifa eignunum út til þess fólks sem í rauninni á þá. En hér er farin sama leiðin og farin hefur verið í fyrri einkavæðingarfrv., t.d. eins og í frv. um Póst og síma, að valdið er allt ráðherrans. Hann skipar bankaráð. Hann geymir hlutabréfið og hans vald er margfalt.

Það hefur verið komið að því hér í umræðunni og það liggja fyrir brtt. varðandi stjórn bankans. Ég tek undir það að mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að starfsmenn fái í það minnsta áheyrnaraðild að bankaráðinu og aðild að nefndinni sem á að undirbúa þessa breytingu. Ég held að það yrði bönkunum einungis til góðs að starfsfólk komi þar að. Það kemur í veg fyrir óánægju og tortryggni og er svo sjálfsagt mál að það er alveg óskiljanlegt að menn skuli ekki hafa samþykkt þá breytingu. Hins vegar hef ég meiri efasemdir um þá brtt. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram um að stjórn bankans verði kjörin af Alþingi. Ég átta mig ekki alveg á því út frá stjórnskipaninni og stjórnkerfinu hvort það teldist eðlilegt að Alþingi færi að kjósa stjórn hlutafélags í eigu ríkisins. Ég átta mig bara ekki alveg á því og þarf að skoða það aðeins betur. Mér finnst það nokkuð sérkennilegt. En þingmaðurinn er ekki hér og hann kom ekki inn á það í sinni ræðu hvernig þetta kæmi heim og saman. Mér finnst þetta a.m.k. vera atriði sem þyrfti að skoða betur.

Þá er það þetta með fjölda bankastjóra og væri fróðlegt að fá upplýst hvað hæstv. ráðherra sér fyrir sér í þeim efnum. Ég tek undir þau sjónarmið að ég tel eðlilegt að þessum fyrirtækjum sé stjórnað eins og öðrum fyrirtækjum á markaðnum og þar sé einn framkvæmdastjóri. En það kann að vera að í þeirri umræðu og þeim samningum sem liggja að baki þessum frv. hafi menn ákveðið eitthvað annað. En það hlýtur að vera eðlilegt að það sé einn bankastjóri í hvorum banka um sig.

Að öðru leyti, hæstv. forseti, vil ég ítreka að mér finnst erfitt að átta sig á því hver áhrifin verða af þessari breytingu. Hugsanlega verða þau sáralítil. Hugsanlega tekur það einhvern tíma fyrir bankana að fóta sig á þessum markaði. Það er gert ráð fyrir að þeir fái fjögurra ára aðlögunartíma þó að það kunni að gerast að hæstv. ráðherra ákveði að fara út í aukningu hlutafjár. En hvort þessi breyting hefur einhver áhrif á lánshæfi, á vexti eða annað, er mjög erfitt að átta sig á. Hins vegar hlýtur að gefa auga leið að bankarnir munu reyna að hagræða í sínum ranni og það munu þeir eflaust gera með því að fækka útibúum og þá ekki síst úti á landi og væntanlega feta þeir þar í fótspor banka erlendis sem hafa lokað útibúum í stórum stíl og komið upp hraðbönkum. Auðvitað er tæknin að breyta allri þessari starfsemi og gerir fólki kleift að láta bankana sjá um ýmis mál fyrir sig og vera bara í tölvusambandi. Sú þróun er reyndar óhjákvæmileg að það verða miklar breytingar á bönkunum. Á undanförnum árum hefur starfsmönnum bankanna hér á landi fækkað um mörg hundruð og það er alveg ljóst að sú þróun mun halda áfram enda eru bankamenn þegar farnir, eða hafa verið, að mæta þeirri breytingu, m.a. með endurmenntun og símenntun bankamanna. Ýmsar breytingar munu óhjákvæmilega eiga sér stað en hvaða afleiðingar akkúrat þessi breyting muni hafa, þori ég ekki að spá neinu um. Það er a.m.k. ljóst að þeir sem hafa komið á fund efh.- og viðskn. og tilheyra viðskiptalífinu, hafa ekki miklar áhyggjur af því. Þeir telja þessa breytingu eðlilega. Það eru miklu frekar starfsmennirnir sem eru kvíðnir vegna þessar breytinga og finnst slæmt að fá ekki að koma eðlilega að þessum málum. Ég vil beina því til hæstv. viðskrh. að hann hlusti á raddir þeirra og að meiri hlutinn á Alþingi fallist á þá brtt. að starfsmönnum verði hleypt að málinu.

Ég get tekið undir flestar þær brtt. sem hafa verið lagðar fram af hálfu minni hlutans og lýsi stuðningi mínum við þær að undantekinni þeirri tillögu sem ég nefndi áðan um að Alþingi kjósi í bankaráð hvors hlutafélagsbankans. Ég vil fá að athuga þá tillögu örlítið betur. Ég tel að þær brtt. sem meiri hlutinn hefur lagt til feli ekki í sér neinar umtalsverðar breytingar sem hafi í för með sér breytingar á inntaki málsins.

Niðurstaða mín er því sú, hæstv. forseti, að eins og málið liggur nú fyrir séu á því verulegir gallar, ekki síst í ljósi þess sjónarmiðs að hér er um eignir almennings að ræða. Gríðarlegar breytingar hafa átt sér stað á íslenskum fjármagnsmarkaði á undanförnum árum og þar af leiðandi skiptir mjög miklu máli hvernig staðið verður að þessum breytingum, hvernig staðið verður bæði að aukningunni á hlutafé, ef til hennar verður gripið, og sölu á hlutabréfum í þessum tveimur bönkum eftir fjögur ár. En við sjáum hvað setur. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu eftir að hafa skoðað þetta mál vandlega að ég hygg að ekki verði um neina byltingu að ræða í bankakerfinu. En ég get tekið undir þau sjónarmið að ég held að það hefði verið ástæða til að skoða aðrar leiðir, að skoða rækilega hvort aðrar leiðir hefðu skilað meiri árangri í hagræðingu og í bættri þjónustu, svo sem þá leið að byrja á því að sameina bankana, Landsbankann og Búnaðarbankann eða hvort menn hefðu átt að fara í að selja fyrst annan bankann og skoða hver viðbrögðin yrðu. En hér hefur orðið sú niðurstaða að breyta tveimur ríkisbönkum í hlutafélög en stofna nýjan banka í staðinn sem reyndar er ætlað annað hlutverk, en það má búast við að hann þróist yfir í venjulegan viðskiptabanka nema menn grípi til þess síðar meir að breyta honum líka.

Hæstv. forseti. Málið stendur þannig að á þessu verður ríkisstjórnin að bera ábyrgð.