Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 20:56:15 (5556)

1997-04-21 20:56:15# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[20:56]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Undanfarin ár hafa verulegar breytingar átt sér stað í viðskiptabankaumhverfi í nágrannalöndum okkar. Ýmis þeirra hafa gengið í gegnum bankakreppu. Við þekkjum það vel af fréttum frá Norðurlöndunum og enn skýrari voru fregnir og þeir atburðir sem gerðust í Bandaríkjunum fyrir nokkru síðan þannig að víðskiptabanka- og fjármálaumhverfi er í mikilli uppstokkun. Nú er það svo að þessi þróun hefur farið fram hjá okkur Íslendingum að verulegu leyti. Við búum við bankakerfi sem hefur lítið breyst um margra áratuga skeið. Það má segja að síðasta stóra breytingin í okkar bankaumhverfi hafi verið, ja, ætli það sé ekki að verða fyrir tíu árum, þegar fjórir litlir bankar sameinuðust, þ.e. Verslunarbanki, Iðnaðarbanki, Alþýðubanki og Útvegsbanki sameinuðust í Íslandsbanka sem varð þá fyrsti hlutafélagsbankinn. Þetta voru litlir bankar og þótt Íslandsbanki hafi vaxið nokkuð síðan, hefur bankakerfið hér samt sem áður fyrst og fremst mótast af tveimur atvinnuvegabönkum, þ.e. Landsbanka og Búnaðarbanka. Þó má segja að þriðji atvinnuvegabankinn sem var og hét hafi verið Útvegsbankinn þegar hann starfaði sem ríkisbanki. Þessari uppstokkun sem varð fyrir nokkuð mörgum árum hefur í sjálfu sér ekki fylgt nein breyting í viðskiptabankaumhverfinu fyrr en fyrst núna. Hins vegar hefur ýmislegt annað gerst í fjármálaheiminum hér á landi sem tekur mið af því sem gerist erlendis. Við höfum séð fjölmörg ný fjármálafyrirtæki taka til starfa. Við höfum séð verðbréfasjóði taka til starfa. Við höfum séð hlutabréfamarkað komast á laggirnar og við höfum á margan hátt lagað löggjöf okkar í viðskiptaumhverfinu að því sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þetta er ekki hvað síst vegna EES-samningsins sem við gerðumst aðilar að. Nú er hins vegar komið að bönkunum. Með þessu frv. er verið að reyna að freista þess að stokka upp íslenska ríkisviðskiptabankakerfið.

Vert er að hafa í huga að eitt aðaleinkenni íslensks efnahagslífs hefur verið að viðskiptabankaumhverfið hefur til skamms tíma nær allt verið í eigu ríkisins. Það var ekki fyrr en Íslandsbanki var stofnaður að nokkur hluti þess hvarf úr opinberri umsýslu. Samt sem áður hefur Landsbanki Íslands verið langstærstur íslenskra banka og verið í ríkiseigu alveg frá stofnun og sama á við Búnaðarbankann. Í nágrannalöndunum hefur þróunin fyrst og fremst orðið sú að ríkið hefur verið að draga sig út úr viðskiptabankaumhverfi. Það er hefð fyrir því í nokkrum löndum að ríkið er stór þátttakandi á fjármálamarkaðnum. Við þekktum þetta á Norðurlöndunum að nokkru leyti. Af öðrum löndum í Evrópu þar sem þetta var áberandi, er Frakkland hvað þekktast. Í öðrum löndum mynduðust sterkar fjármálastofnanir, sterkir bankar í einkaeigu, þ.e. sem hlutafélög með dreifða eignaraðild. Sú þróun hefur ekki hvað síst verið nú síðari ár.

[21:00]

Í frv. sem ríkisstjórnin leggur fram er ein kerfisbreyting. En hún er nokkuð mikilvæg og hún er sú að bönkunum er breytt í hlutafélög. Breytt er um rekstrarform á bönkunum. Við í þingflokki jafnaðarmanna sem stöndum að 1. minnihlutaáliti efh.- og viðskn., en hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gerði ágætlega grein fyrir því áliti áðan, styðjum þá formbreytingu að breyta bönkunum í hlutafélög. Við teljum það að mörgu leyti vera eðlilegt vegna þess að hlutafélagsformið er hið almenna rekstrarform í atvinnulífinu og skiptir engu hvort ríkissjóður á 100% í því hlutafélagi eða einhver önnur eignaraðild er. Þetta er sú umgjörð sem almennar reglur gilda um í atvinnulífinu og markast af hlutafjárlöggjöf, skattalöggjöf og samkeppnislöggjöf. Nær öll löggjöf í viðskiptaumhverfi okkar mótast fyrst og fremst af hlutafélagsforminu.

Við þekkjum vitaskuld önnur rekstrarform og höfum lagað þau að hlutafélagsforminu að nokkru leyti. Samvinnuformið er hvað þekktast af því, en eins og þingmenn einnig þekkja til, þá hafa menn að nokkru leyti þróað nýtt form í samvinnufélögum sem tekur mið af hlutafélagsforminu m.a. til að nýta þá kosti hlutafélagsformsins til að ná sér í nýtt hlutafé. Þannig að þessi umgjörð, þ.e. hlutafélagsumgjörðin er mjög eðlileg rekstrarumgjörð. Það breytir því ekki að þegar skoðuð er löngu tímabær uppstokkun á mjög svo stöðnuðu ríkisviðskiptabankakerfi þá er ekki nóg að breyta bara forminu, það þarf að gera meira. Þótt svo skrefið með formbreytingunni í hlutafjárvæðingunni sé gott út af fyrir sig þá þarf meira til vegna þess að formið getur aldrei verið markmið breytinga. Það hlýtur, herra forseti, að vera innihaldið sem skiptir máli.

Þegar kemur að innihaldinu er vert að hugsa um hvort tímabært sé að stokka upp ríkisviðskiptabankakerfið eða viðskiptabankakerfið hérlendis vegna stöðu þess samanborið við erlendar bankastofnanir. Og það er svo. Kannanir hafa sýnt að bankakerfið okkar er dýrara og óhagkvæmara en bankakerfið er í nágrannalöndunum. Það skýrir sig að hluta til af því að hér er lítill markaður. Hér er stórt land og dreifð byggð. Vitaskuld kostar það sitt, og það þekkjum við Íslendingar ágætlega, að reyna að halda uppi þjónustu í hinum dreifðu byggðum og teygja útibúanet eða annars konar net, hvort sem um er að ræða samgöngur eða annað. Við vitum að það kostar sitt. Samt sem áður, ef við berum saman rekstur íslenskra bankastofnana við rekstur bankastofnana erlendis erum við undir á öllum sviðum. Við erum með hærri rekstrarkostnað, við erum með meiri vaxtamun, við erum með óhagkvæmt bankakerfi. Það er satt best að segja, herra forseti, mjög til umhugsunar þegar það kostar jafnmikið að reka íslenska bankakerfið og allt íslenska skólakerfið, að frátöldum grunnskólunum. Allt íslenska skólakerfið --- alla framhaldsskólana, alla sérskólana, alla háskólana. Þegar maður leggur rekstrarkostnað alls skólakerfisins saman, og tekur frá þessa rúma 6 milljarða sem kostar að reka grunnskólana, þá er það jafnmikið og kostar að reka allt bankakerfið. Þetta er til umhugsunar. Og þetta er bara bankakerfið, þetta er ekki fjármálakerfið. Inni í þessari tölu eru einungis bankarnir --- ríkisviðskiptabankarnir, sparisjóðirnir og hlutafélagabankinn Íslandsbanki og Seðlabankinn reyndar líka.

Við sjáum líka ef við tökum annan samanburð að það kostar jafnmikið að reka bankakerfið og Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalana samanlagt. Þá eiga menn vitaskuld að staldra við og spyrja: Er eitthvað hér sem við getum endurbætt? Nú gengur þetta frv. í sjálfu sér ekki út á það, því miður, að stokka íslenska bankakerfið upp á róttækan hátt. Einungis er gerð formbreyting á bönkunum og brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. eru efnisrýrar. Þær breyta í sjálfu sér engu um meginatriði þessa frv.

Við erum að berjast við fákeppni í bankakerfinu hér á landi, eins og á mörgum öðrum sviðum í okkar þjóðlífi. Við höfum ekki nema fjórar bankastofnanir, þ.e. Landsbanka, Búnaðarbanka, Íslandsbanka og sparisjóðina. Það er ekki mikil samkeppni, en nokkur samkeppni á milli þeirra. Við erum með nokkuð margar fjármálastofnanir. Það er nokkur samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði en hún er ekkert sérstaklega skörp eða mikil. Þó er hún mun meiri en hún var fyrir fimm eða tíu árum, fyrst og fremst vegna nýrra fjármálastofnana. Við erum með fleiri atvinnugreinar hér á landi þar sem ekki er mikil samkeppni. Við getum nefnt olíufélög sem dæmi. Við getum nefnt tryggingafélög. Við getum nefnt flutningafyrirtæki. Við getum nefnt fjölmiðla. Einkenni á öllum þessum atvinnugreinum er að það eru fá ráðandi fyrirtæki á markaðnum. Einungis eitt getur komið að gagni fyrir land og þjóð í atvinnulífinu og það er samkeppni. Efnahagslífið er ekki flóknara en svo að það er fyrst og fremst samkeppni sem leiðir til hagkvæmrar nýtingar framleiðsluþátta og að lágt verð sé á vörum og þjónustu fyrir almenning.

Þetta er staðreynd sem menn hafa verið nokkuð lengi að koma sér niður á. Þessi staðreynd er sameiginleg sýn bæði þeirra manna sem kenna sig við hægri stefnu eða vinstri stefnu í Evrópu. Menn eru sammála um að láta markaðslögmálin leika um atvinnulífið í eins miklum mæli og hægt er. Það á við bankakerfið eins og annað. Það skilur kannski meira á milli þegar kemur að hve miklu leyti menn vilja nota þessi lögmál markaðarins á sviðum velferðar og heilbrigðis, menntamála og fleiri sviða sem hingað til hafa verið mjög í umsjón opinberra aðila og þar sýnist sitt hverjum. Skilin milli stjórnmálaskoðana í Evrópu eru fyrst og fremst út frá þessu en ekki út frá því hvernig eigi að haga skipulagningu í atvinnulífinu. Ekki í meginatriðum.

Það er þó eitt atriði sem er nokkuð áberandi stefnumál meðal jafnaðarmanna í Evrópu, og við komum nokkuð inn á í málflutningi okkar, bæði jafnaðarmanna og reyndar annarra stjórnarandstæðinga sem hér hafa talað, félaga okkar í Alþb. og óháðra og í Samtökum um kvennalista. Það er sú staðreynd að nauðsynlegt og skynsamlegt er að tryggja áhrif starfsmanna að endurskipulagningu og stjórnun fyrirtækja. Við höfum beinlínis lagt til við þessa endurskipulagningu svo sjálfsagða hluti --- maður verður hissa á því af hverju ekki er orðið við þeirri ósk að leyfa starfsmönnum bankanna að taka þátt í undirbúningi við breytinguna. Við lögðum þetta til. Starfsmennirnir lögðu þetta til þegar þeir komu á fund efh.- og viðskn. Stjórnarandstaðan gerði þessa ósk að sinni og mun fylgja henni eftir með brtt. Þessu þverneitaði stjórnarmeirihlutinn. Og það er dálítið merkilegt að þarna skuli stjórnarmeirihlutinn koma skýrt fram sem afl, sem getur ekki og á mjög erfitt með að tileinka sér nýjar aðferðir í atvinnulífinu. Vegna þess að þetta þætti sjálfsagt alls staðar annars staðar. Bönkum hefur hvergi verið breytt í Evrópu, hvort sem þeim hefur verið breytt í hlutafélög, einkavæddir eða skipulagi breytt, að starfsfólk hafi ekki fengið að koma að við þann undirbúning --- nema hér á landi. Hér ætla þeir, á morgun væntanlega, að fella tillögu okkar stjórnarandstæðinga þess efnis að starfsfólk fái að koma að undirbúningi. Sömuleiðis kom fram sú ósk hjá starfsmönnum, og verður ein af þeim tillögum sem koma til atkvæða, að heimila starfsmönnum að skipa áheyrnarfulltrúa í bankaráð hinna nýju hlutafélagsbanka. Þetta er einnig regla frekar en hitt í Evrópu, alveg sama hverjir þar eru við stjórn, hvort sem það eru jafnaðarmenn eða hægri menn. Það þykir sjálfsagt þar að starfsfólk komi að með skýrum hætti í stjórn fyrirtækja og oft með miklu skarpari aðild en hér er gert ráð fyrir. Þessa tillögu felldu stjórnarliðarnir. Hennar sér hvergi merki í nál. meiri hlutans og stjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi mun vafalítið fella þessa tillögu á morgun.

Ég er að gera þetta að umtalsefni vegna þess að þetta sýnir afstöðu ríkisstjórnarinnr við þá endurskipulagningu sem þó er verið að gera. Þegar verið er að breyta bönkunum í hlutafélög, þá er tækifærið ekki notað og aðrar nauðsynlegar breytingar gerðar til að fylla þessa formbreytingu einhverju inntaki sem hefði m.a. verið fólgið í því að starfsmenn hefðu bæði komið að undirbúningi og fengið áheyrnaraðild að bankaráði. Það er hins vegar áberandi þegar þetta frv. er skoðað og sést reyndar enn betur í hinum frv. ríkisstjórnarinnar, þ.e. í Fjárfestingarbankanum og í Nýsköpunarsjóðnum, að ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt dálitla vinnu í einungis eitt svið í sambandi við frumvarpsgerðina, og það er þegar kemur að stjórnunarþættinum, þ.e. hvernig á að skipa í stjórnir þessara fyrirtæka, hvernig á að ráða bankastjórana, hver á að skipa í bankaráðin, hver á að fara með valdið í þessum nýju fjármálastofnunum.

Frv. gerir ráð fyrir að allt vald í þessum efnum verði falið viðskrh. Nú ætla ég ekkert að gagnrýna viðskrh. út af fyrir sig, hann er mætur maður eins og flestir stjórnarsinnar og allir stjórnarsinnar getur maður sagt --- þetta snýst ekki um það, en það er hægt að velta fyrir sér hvort skynsamlegt sé að fela einum manni í framkvæmdarvaldinu allt vald á tveimur af stærstu fjármálastofnunum landsins, þ.e. Landsbanka Íslands hf., ef gengið er út frá því að þetta verði að lögum, og í Búnaðarbanka Íslands hf., vegna þess að það er gert í frv. Það er ekkert kveðið á um hve margir menn eiga að sitja í bankaráði, það verður ákveðið í samþykktum bankans. Hver ákveður samþykktir bankans? Hluthafinn. Hver fer með atkvæðarétt hluthafans? Íslenska þjóðin er nú reyndar hluthafi en það fer einungis einn aðili með atkvæðisréttinn á þeim fundi --- það er viðskrh. Hann ákveður samþykktir bankans. Hann getur haft einn mann í bankaráði, hann getur haft tvo, hann getur haft fimm, hann getur haft fimmtán, hann getur haft fimmtíu. Það eru engin fyrirmæli löggjafans um hvernig bankaráðið skuli vera samsett. Bankaráðið ræður síðan bankastjóra. Hvað skyldu þeir eiga að vera margir? Eiga þeir að vera einn? Eiga þeir að vera þrír? Eiga þeir að vera fimm, fimmtán eða fimmtíu? Það eru engin ákvæði um það. (Gripið fram í: Kaupið er leyndarmál.) Kaupið er leyndarmál, vitaskuld. Það þarf ekkert að segja um það í lögunum. Það eru óskráðar reglur.

[21:15]

Þetta segir okkur hverjir eru að breyta þessu ef litið er á bakgrunn breytinganna, hvaða öfl það eru í þjóðfélaginu sem leggja fram þetta frv. í þeirri útfærslu sem hér er til umræðu. Það er nefnilega ekki tilviljun. Það er Sjálfstfl. og Framsfl. Það er ríkisstjórnin sem leggur fram þetta frv. Og hvað hafa þessir tveir flokkar sameiginlegt, fyrir utan að mynda þessa ríkisstjórn, þeir hafa gert það svo sem áður, en þeir eiga eitt sameiginlegt. Þeir hafa alltaf sameinast um að skipta á milli sín öllum þeim valdastöðum í atvinnulífinu hvort sem er á einkamarkaði eða opinberum markaði. Það hafa þeir gert um áratuga skeið. Alveg frá því fyrir 60 árum þegar þessir tveir flokkar sáu ástæðu til að kjósa formenn sína, Jónas Jónsson frá Hriflu, formann Framsfl. og Ólaf Thors, formann Sjálfstfl., þá heiðursmenn, í bankaráð Landsbankans. Þá sátu þrír menn í bankaráði Landsbankans. Það eru 60 ár síðan að sú helmingaskiptaregla var sett upp og hún hefur verið við lýði síðan. (Gripið fram í: Hver er sá þriðji?) Ég man það ekki. Við sjáum þetta einkenni birtast á mörgum stöðum í okkar atvinnulífi. Skýrasta dæmið hefur verið í verktakaiðnaði þegar þessir tveir flokkar og aðilar tengdir þeim skiptu á milli sín framkvæmdum fyrir þúsundir milljóna um áratuga skeið og sennilega hefur ekki orðið jafnmikil tilfærsla á eignum nokkurs staðar og í gegnum þá starfsemi.

Það er annað sem markar samvinnu þessara tveggja flokka sem er líka vert umhugsunar þegar frumvörpin eru skoðuð í heild. Það er að forustumenn þessara flokka, Sjálfstfl. og Framsfl., eru ráðandi í atvinnulífinu og í fyrirtækjunum. Hv. þingmenn ættu að skoða listann yfir stjórnarmennina í Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandinu. Þá sést að þeir sömu menn mæta á landsfundi þessara tveggja flokka. Þarna er pólitísk forsjá og pólitísk hagsmunagæsla einnig á ferðinni. Þetta rímar allt saman, herra forseti, þegar skoðað er hverjir eiga að skipa mennina í stjórninar þegar kemur að Fjárfestingarbanka eða Nýsköpunarsjóði. Þá eru það fulltrúar vinnuveitendafélaganna sem hafa forgang. Það eru framsóknarmennirnir og sjálfstæðismennirnir sem koma þar til með að sitja í öndvegi. Þetta frv. er því ekkert annað en framhald af þeirri helmingaskiptareglu sem hinir tveir stærstu flokkar þjóðarinnar hafa praktíserað undanfarna áratugi með ágætum árangri. Þeir tryggja áfram stöðu sína og það er ekki tilviljun að ekki er betur gengið frá fjölda í bankaráði eða fjölda bankastjóra en hér er gert ráð fyrir. Ástæðan er einföld: Það er ekki búið að semja um skiptin.

Í meirihlutaáliti efh.- og viðskn. segir, sem er mjög athyglisvert: Vitaskuld er æskilegt að það sé einn aðalbankastjóri við bankann. Fylgdu þeir því eftir með tillögu --- sem er mjög auðvelt? Vegna þess að í viðskiptabankalögunum er beinlínis kveðið á um fjölda bankastjóra. Þeir eru þrír. Það er enginn vandi að breyta tölunni í einn. Fylgdu þeir í meiri hluta efh.- og viðskn. því eftir með tillögugerð? Nei. Þeir sögðu bara í nál. að æskilegt væri að það væri einn. Vitaskuld væri gott að hafa bara einn framkvæmdastjóra í fyrirtæki. Þeir eiga eftir, herra forseti, að fella tillögu á morgun frá okkur stjórnarandstæðingum um að það verði bara einn bankastjóri. Þeir munu fella hana því að þeim dettur ekki í hug að hafa einn bankastjóra, alla vega ekki fyrr en þeir eru búnir að semja sín á milli hver það verður. Ef þeir ná ekki samkomulagi um einn, þá verður kannski að hafa þá tvo eða þrjá eða fjóra eða guð má vita hvað. Það er sú útfærsla sem mér finnst vera sorgleg í því frv. sem við erum að ræða vegna þess að ég styð breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög. Ég tel það vera framfaraskref að ríkisbönkunum, bankakerfinu, sé búin almenn hlutafélagsumgjörð. Það er af hinu góða. Mér finnst hins vegar sorglegt að menn skuli ekki nýta tækifærið til að reyna að gera þær breytingar og þá uppstokkun sem er nauðsynleg.

Það er merkilegt við þetta að á sama tíma og ríkisvaldið dregur sig út úr viðskiptabankaumhverfinu alls staðar í nágrannalöndum með sölu á bönkum --- einkavæðingu, þá er farin þveröfug leið hér. Nú geta menn reynt að skiptast á skoðunum um hvort ríkið eigi að reka banka. Á ríkið að reka fyrirtæki sem starfa á samkeppnismarkaði? Ég segi nei. Hins vegar segi ég: Kannski ætti ríkið að reka fyrirtæki sem er á fákeppnismarkaði. Ég geri stóran greinarmun á því hvort um sé að ræða fyrirtæki á fákeppnismarkaði eða samkeppnismarkaði. Ríkisvaldið á ekkert erindi í atvinnurekstur ef samkeppni ríkir á þeim markaði, heilbrigð og eðlileg samkeppni, sem starfar undir eðilegum samkeppnislögum. En ríkið getur haft hlutverki að gegna ef um fákeppnismarkað er að ræða, ég tala nú ekki um ef um einokunarstöðu er að ræða, þá getur verið betra að einokunin sé í höndum ríkisvaldsins frekar en í höndum einkaaðila. Við þekkjum hins vegar ekki mjög mörg dæmi nú orðið um slíka einokun.

Við sjáum hvernig Austur-Evrópuþjóðirnar fóru í endurskipulagningu á sínu hagkerfi því að grundvallarmunurinn á hinu vestræna og hinu austræna hagkerfi var fyrst og fremst byggður á eignarhaldi á framleiðslutækjunum. Þeir fóru þá leiðina að einkavæða með hraði öll þessi fyrirtæki. Hvernig tókst þeim til? Sums staðar sæmilega. Sums staðar það illa, eins og að hluta til í Rússlandi að uppi eru hugmyndir um að þjóðnýta fyrirtækin sem þeir einkavæddu til að geta einkavætt þau aftur. Vegna þess að þau lentu í höndunum á glæpamönnum og forréttindahópum með einkavæðingu. Þetta er vert umhugsunar. Við erum í allt annarri stöðu hér á landi en þetta er samt vert umhugsunar.

Hvað gerum við? Setjum við í gang skipulagða áætlun um að minnka áhrif og völd ríkisins í viðskiptabönkunum, skynsamlega áætlun sem nær yfir nokkur ár og tryggir samkeppni? Gerum við það í þessu frv.? Nei, síður en svo. Það er ekkert kveðið upp úr um það nema eitt. Það er ein stefnumörkun í grg. í þessu frv. sem er ekki breytt og þar segir að auka eigi hlutafé um 35%, og þetta á reyndar bara við um Landsbanka Íslands vegna þess að Búnaðarbanki Íslands er það vel staddur fjárhagslega. Hann mun ekki nýta sér þetta þannig að ekki mun koma nein önnur eignaraðild að Búnaðarbankanum á næstunni. Í nál. 1. minni hluta vendum við á þetta, með leyfi forseta: ,,Þetta þýðir að ríkið ætlar að vera meirihlutaeigandi, a.m.k. með 65% hlutafjár, í hinum nýju hlutafélögum, þ.e. Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., a.m.k. næstu fjögur árin.`` Þetta er líka sagt í grg. frv. Þetta er stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Nú heyrðust raddir uppi sérstaklega þegar Landsbankinn, ríkisbankinn, keypti helminginn í vátryggingafélaginu VÍS, stærsta vátryggingafélagi landsins og þar með var ríkið ekki aðeins orðið stærsti aðilinn á viðskiptabankaumhverfinu heldur stærsti aðilinn á tryggingamarkaðnum. Þá komu upp raddir, --- m.a. hjá fjmrh. sem við skulum reyna að taka mark á, hann er þó fjmrh. og varaformaður stærsta stjórnmálaflokksins, --- að þetta kallaði á hraðara ferli til einkavæðingar.

Annar áhrifamaður í Sjálfstfl., formaður bankaráðs Landsbankans, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., sem sýnir nú best tengslin sem ég rakti áðan, sagði: Vitaskuld þýðir þetta uppstokkun varðandi þá stefnumörkun sem er í frv. Hvað gerist? Hvar er stefnumörkun meiri hlutans? Hvar er breytingin sem hafði komið fram í nál. meiri hluta efh.- og viðskn.? Það er hinn eðlilegi gangur og gerist margoft að ný stefnumörkun kemur sem er ígildi greinargerðar við afgreiðslu frv. milli 1. og 2. umr. Hvar er hin nýja stefnumörkun í ljósi breyttra aðstæðna af hálfu meiri hluta stjórnarliða í nál.? Hvergi. Ekkert er vikið að þessu. Það eina sem gildir er þessi stefnumörkun. Þetta er stefnumörkun út af fyrir sig. Það eru sumir sem vilja ekki að bankarnir hverfi úr meirihlutaeign ríkisins.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisvaldið eigi að setja upp skynsamlega áætlun yfir nokkur ár, hvernig hlutur þess minnkar og hvernig hann fari hægt og rólega niður fyrir 50% t.d. í öðrum ríkisbankanum, bara í öðrum. Það borgar sig ekki að fara of hratt í þessum efnum. Breyta báðum bönkunum í hlutafélög, gera skynsamlega áætlun yfir nokkur ár, hvernig meiri hluti ríkisins mundi hverfa í öðrum bankanum. Sjá svo til hvernig tekst. Gera það þá líka t.d. með þeim hætti að dreift væri hlutabréfum meðal fjárráða Íslendinga, hluta af þessum hlutabréfum því það væri almannavæðing. Þá er það fólkið í landinu sem á þessar peningastofnanir sem fengi hluta af þessum verðmætum beint til sín, og reynir að koma í veg fyrir að vinir þeirra, vinir ríkisstjórnarflokkanna í verðbréfafyrirtækjunum og fákeppnisfyrirtækjunum nái tangarhaldi á þessum fjármálastofnunum eins og margt bendir til. Þetta hefði verið skynsamleg leið. Einnig, eins og við höfum nefnt, að reyna að gera þetta aðlaðandi fyrir erlenda aðila. Nú mega erlendir aðilar koma og kaupa hér í bönkunum. Erlendur aðili má t.d. kaupa meiri hlutann í Íslandsbanka. Það er ekkert sem bannar það. Við breyttum lögunum í fyrra. Það var bannað, það mátti ekki kaupa meira en 20%. Hvar er biðröðin? Hjá Íslandsbanka? (Gripið fram í: Hvert er verðið?) Verðið er á markaði. Þetta er markaðsbanki, starfar á hlutabréfamarkaði. Það hefur enginn útlendingur enn sem komið er sýnt þessu áhuga, því miður. Ef til vill er arðsemin of lítil eða reksturinn of bágborinn til að þetta skili einhverju af sér, ég hef ekki hugmynd um það. En auðvitað er það rétt eins og hér var bent á að kaup og sala ræðst bara af einum hlut --- af verði.

Vitaskuld er hægt að fá erlenda aðila til að gerast þátttakendur hér í viðskiptabankaumhverfi. Bankar á Norðurlöndunum hafa mikið fjármagn milli handanna og hefðu áhuga á að koma hér, eins og við höfum fengum upplýsingar um í nefnd. Það er hins vegar mjög mikilvægt og það er ekkert gengið frá því í frv. og það er ef til vill það sem er mest ámælisvert úr því að þeir gerðu ekki nokkurn skapaðan hlut til að stíga framfaraskref í þessu máli, að þeir skyldu þá ekki reyna að tryggja dreifða eignaraðild á þessu viðbótarhlutafé. Einhverjir kaupa væntanlega 35% í Landsbankanum, sem verða boðin til sölu, því þau verða boðin til sölu til að geta staðið við kaupin á VÍS, og Landsbankinn óskaði meira að segja eftir að við flýttum hlutafjárvæðingunni þannig að þeir gætu staðið við þetta með víkjandi láni. Ekki var orðið við því, en breytir svo sem engu. Þeir geta bjargað sér alveg fram yfir áramótin með það. En það eru engin ákvæði í frv. um að tryggja dreifða eignaraðild. Og auðvitað spyr maður sig: Af hverju vildu þeir ekki ganga frá dreifðri eignaraðild varðandi þennan þátt? Að ósk stjórnarandstöðunnar voru forsvarsmenn einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar kallaðir til í efh.- og viðskn. því að þeir koma til með að sjá um útboðið á hlutafénu. Við kölluðum þá til og spurðum: Hvað er nú með dreifðu eignaraðildina sem vikið er að í grg. frv.? Ha, sögðu þeir. Við höfum ekkert verið beðnir um að skoða það. Við höfum ekki neinar tillögur um það. Aðilinn sem átti að sjá um útboðið hefur engar tillögur fengið um dreifða eignaraðild. Það er greinilega ekki ætlun stjórnarflokkanna að dreifa eignaraðild ekki frekar en þeim hentar.

[21:30]

Það er allt haft opið í þessu frv. Hvergi er stefnumörkun á neinu sviði varðandi næstu skref. Það er allt skilið eftir. Skilinn er eftir fjöldi bankaráðsmanna. Skilinn er eftir fjöldi bankastjóra. Skilið er eftir hver fær að kaupa þetta. Skilið er eftir hvernig á að bjóða út nýja hlutaféð. Það er allt skilið eftir. Og, herra forseti, það er þeim mun alvarlegra vegna þess að bankinn á að vera ríkisbanki næstu fjögur árin. Og þá spyr maður sig: Er þetta ekki Alþingi Íslendinga? Á það ekki að marka umgjörð, stjórnskipulag, á ríkisstofnuninni? Það hefur verið venja hér. Við höfum staðið að og afgreiddum hér og það er löggjöf í landinu um ríkisviðskiptabanka, tiltölulega nákvæm löggjöf. Það er ekkert í þessu frv. en þetta á að vera ríkisbanki. Hann á að vera í meirihlutaeigu ríkisins a.m.k. næstu fjögur, báðir bankarnir. Og hvað er ríkið í þessu tilfelli? Það er viðskrh., ekki viðskrh. einn, vitaskuld ekki því að hann þarf að gera sína pólitísku samninga við samstarfsflokkinn og það mun reynast honum auðvelt því að þessir aðilar eru ekki óvanir því að gera sína pólitísku samninga sem tryggja áhrif flokka sinna og þeirra manna, hvort sem á pólitísku sviði er eða í atvinnulífinu.

Við sáum hugsunarhátt þessara ágætu manna þegar athugasemd kom frá samkeppnisráði um Flugleiðir um daginn. Það voru mjög athyglisverð viðbrögð því að við skulum átta okkur á því að samkeppnisráð var bara að starfa eftir lögum sem Alþingi hafði sett, sem byggja á alþjóðlegri umgjörð, samkeppnisumgjörð sem okkur ber að hluta til skylda til að fylgja. Samkeppnisstofnun var ekki að gera neitt annað en að hlíta lögum. En viðbrögðin voru athyglisverð. Forsvarsmenn Flugleiða umturnuðust. Og nú skulum við átta okkur á því að forsvarsmenn Flugleiða eru ekki einhver Jón Jónsson í íslensku viðskiptalífi. Þeir eru ráðandi aðilar í íslensku viðskiptalífi, einn af fákeppnisaðilunum í flutningunum því að eins og allir vita er Flugleiðum stjórnað af öðru fyrirtæki sem hefur yfirburðastöðu í skipaflutningunum, þ.e. Eimskipafélaginu. Það vita allir sem það vilja vita. Þeir sem umturnuðust voru alvörumenn, það var þungavigtin í íslensku atvinnulífi sem lét í sér heyra, sem krafðist þess að lögum væri breytt þannig að auðveldlega væri hægt að útfæra markaðsráðandi stöðu því að samkeppnisráð var ekki að gera neitt annað en að setja skilyrði til að reyna að koma í veg fyrir einokunaraðstöðu við þann samruna sem til umræðu var og þeir voru að fylgja lögum. Viðbrögð þeirra voru ofsafengin og þeir fundu þessu allt til foráttu. En það sem var sérkennilegra voru viðbrögð hæstv. samgrh. Þegar hv. kolkrabba, eins og hann var nefndur hér í þingsal, var klórað pínulítið, rauk hæstv. samgrh. upp til varnar án þess reyndar að hafa kynnt sér úrskurðinn, en það hefur ekki þvælst fyrir honum hingað til að hafa afstöðu í málum þó hann hafi ekki kynnt sér þau. Það kom alveg skýrt fram hvað hann vildi helst gera. Það var að senda þessa stofnun út í ystu myrkur.

Látum nú vera þótt hæstv. samgrh. tali svona. Við þekkjum að eitt og eitt orð hefur fallið hjá honum sem er kannski ekki alveg íhugað í botn. Það hefur komi fyrir. En hins vegar þegar hæstv. forsrh. tók undir þetta og talaði um að það þyrfti nú að skoða lagabreytingar og annað slíkt í kjölfarið á þessu. (JBH: Íhuga það í botn.) Ætli það hafi ekki a.m.k. komið frá hjartanu. Við sjáum hugsunarhátt þessara ágætu manna sem þarna skein í gegn því þeir töluðu frá hjartanu. Og þannig eigum við að líta á þetta frv. hér, þ.e. hverjir eru að gera þetta og hvaða hugsunarháttur býr að baki. Er hugsun þeirra að endurskipuleggja bankakerfið þannig að hér verði samkeppni og öflugt atvinnulíf og fjölbreytni? Nei, svo er ekki. Þeir eru fyrst og fremst að viðhalda þeirri sömu stefnu sem markaðist í því þegar þeir skipuðu formenn flokka sinna í bankaráð fyrir 60 árum.

Þetta frv., herra forseti, felur í sér þá mikilvægu kerfisbreytingu sem er breytingin í hlutafélög. Þessu er ekki fylgt eftir í frv. með neinni skynsamlegri útfærslu á mörgum sviðum. Við í minni hlutanum, við jafnaðarmenn í efh.- og viðskn. leggjum fram einar sex brtt. við þetta frv. Við leggjum til að einungis verði einn bankastjóri við bankann. Við leggjum til að fimm menn verði kosnir í bankaráð. Við leggjum til að starfsmenn fái áheyrnarfulltrúa í bankaráð. Við leggjum til að það verði ekki bara viðskrh. sem fari með atkvæðisréttinn heldur viðskrh. og fjmrh. og við leggjum til að við sölu á hinu nýja hlutafé fari enginn aðili með meira en 5% af heildaratkvæðavægi á hluthafafundum.

Ef þessar tillögur væru samþykktar, herra forseti, sem koma hér eftir 2. umr. væntanlega til atkvæðagreiðslu á morgun eða hinn, þá liti þetta frv. þokkalega vel út. Að vísu er í þeim brtt. ekki gert ráð fyrir áætlun sem við leggjum mikið upp úr með, þ.e. að minnka eignaraðild ríkisins í öðrum viðskiptabakanum, t.d. hefði 4--5 ára áætlun verið skynsamleg. Við erum ekki með tillögu um það beinlínis við frv. sjálft, en leggjum hins vegar áherslu á það í okkar nefndaráliti. Við vonumst hins vegar eftir því að menn styðji þær hugmyndir og tillögur sem við höfum lagt hér fram. En það má samt ekki draga úr því að hér er fyrsta skref stigið í endurskipulagningu, þ.e. breytingin í hlutafélag. Samt sem áður, með tilliti til forsögu málsins og með tilliti til þess hverjir standa að þessu máli og hvað þeir eru tregir til að reyna að tryggja hér virkilega almannavæðingu og samkeppnisvæðingu á þessum markaði, þá er full ástæða fyrir okkur að vera áhyggjufull yfir þessu litla skrefi sem hér er stigið. Þó að þetta mál verði afgreitt í þessu formi eins og ríkisstjórnin leggur til, er langt frá því að endurskipulagningu og þátttöku ríkisins í viðskiptabankaumhverfinu sé lokið.