Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 21:37:52 (5557)

1997-04-21 21:37:52# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. meiri hluta EOK
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[21:37]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Þær brtt. sem 1. og 2. minni hluti hafa fram að færa hafa verið gerðar að umtalsefni hér og er ástæða til að fara örfáum orðum um það.

Eins og allir vita, er það rétt sem hv. þm. Ágúst Einarsson sagði hér áðan að það eru um tíu ár síðan síðast varð breyting sem máli skiptir á íslenskum bönkum og eru það nú heilmikil tíðindi að nú skuli hugað til breytinga. Ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að breyta þessum bönkum er umhugsunarverð vegna þess að það hefur legið fyrir, ekki eingöngu núna síðustu mánuðina og missirin heldur áratugum saman að þessar stofnanir, íslenskir bankar, eru mjög óhagkvæmar, rekstrarkostnaður þeirra er margfaldur. Hann er núna t.d. í dag talinn tvöfaldur miðað við meðalkostnað í Evrópu. Þetta eru ekkert ný sannindi. Þetta hafa menn vitað. Upplýsingar um þetta lágu fyrir fyrir 1970 fyrst því ég sá það.

Þá er athyglisvert og rétt að fara yfir það hvernig það megi vera að það er þá fyrst núna sem við erum að taka á okkur rögg og reyna að breyta þessu. (Gripið fram í: Þú komst svo seint.) Þá má minna á að fleiri góðir drengir og vaskir menn hafa setið hér fyrr og væri þá rétt að rifja það upp. Ég held að ég fari rétt með að á árunum 1987--1995 sátu á stóli viðskrh. alþýðuflokksmenn og var sá vaski foringi Jón Baldvin Hannibalsson formaður þess flokks allan þann tíma og spurningin er: Hvernig mátti það vera að á öllum þessum tíma tókst ekki að koma fram frv. sem hafði a.m.k. í sér að geyma formbreytingu þó það væri nú ekki meira? En sagan sýnir þetta. Það tókst ekki og það þarf enginn að efast um að það var mikill vilji meðal stjórnmálamanna, það var mikill vilji í þjóðfélaginu og mikil vissa og þekking fyrir því að þörf væri á þessu. En eigi að síður tókst það ekki og það segir sína sögu. Það segir þá sögu sem við skulum bara horfast í augu við. Við erum búnir að hafa þessa skelfilegu skipan ríkisbankanna svo lengi að tregðan, þessi tregða í mannheimum, gegn því að breyta var yfirsterkari öllum góðum öflum sem sannarlega og ábyggilega vildu breyta. Það bara tókst ekki. Við skulum minnast þess núna þegar menn koma hér hver af öðrum og gera lítið úr því að hér sé á ferðinni frv. sem sé ekki nógu róttækt, hafi ekki í för með sér nógu mikla breytingu, muni ekki koma til með að hafa þann slagkraft sem þörf er á fyrir íslenskt viðskiptalíf og íslenskt athafnalíf sem kannski er alveg satt.

En við skulum þá líka segja við sjálfa okkur: Væri nú ekki alveg dagljóst að hefði okkur tekist t.d. fyrir fjórum árum, fimm árum, sex árum eða átta árum þó ekki meira en að framkvæma kerfisbreytinguna á formi bankanna sem við erum að gera nú, hefði okkur tekist það þá, stæðum við ekki betur í dag? Jú. Jú, herra forseti. Við stæðum mun betur í dag ef svo hefði orðið. Og það er einmitt skýringin á því að hér erum við að fylgja stjfrv. sem stjórnarmeirihlutinn, Framsfl. og Sjálfstfl., stendur heils hugar að. Og það er ekkert launungarmál að afstaða flokkanna, afstaða einstakra þingmanna er mjög breytileg til þessa máls, mjög, mjög breytileg. (ÖS: Frá degi til dags?) Ég held ekki frá degi til dags, herra frammíkallari. Ég held að það sé bara ákveðið lífsmunstur í kollinum á sumum sem gerir að verkum að þeir eru mjög tregir til þess að fara lengra. Og ég er viss um að það er rétt stefna þrátt fyrir að mun hægara sé farið en margur vildi, þrátt fyrir að kannski sé mun hraðara en aðrir vildu, að ná einmitt saman um þessa leið þannig að við náum þó fram þessari formbreytingu þó það sé ekki meira.

Ég sagði við 1. umr. þessa máls að sannarlega hefði ég viljað sjá þetta frv. um bankana í annarri mynd. Sannarlega hefði ég viljað sjá róttækari breytingar. Sannarlega vildi ég hafa séð tillögur um að þessir ríkisbankar yrðu seldir svo hratt sem auðið yrði því ég veit að verðgildi þeirra er fallandi með hverju ári. En við náðum samkomulagi og þetta samkomulag var aðalatriðið. Ég get nú ekki betur heyrt en að öll stjórnarandstaðan sé meira og minna mjög sátt við þetta líka þó að margir þeirra segi, jafnt og ég gerði, herra forseti, sannarlega vildum við hafa gengið lengra. Ég sé ekki betur en að hún sé mjög sátt.

Menn flytja hér viðbótarbrtt. Menn hafa sagt hér og glott við tönn að sannarlega hefðu nú breytingartillögurnar sem meiri hlutinn hefði fram að færa verið litlar og lélegar, enda hafði ég réttilega orð á því í framsöguræðu minni að þetta væri sáralítið eða ekki neitt og hefðu nú betur aðrir framsögumenn verið jafnhreinskilnir því að líti nú hver á breytingartillögurnar þeirra og sjái hversu þungt þær vega. (ÖS: Farðu yfir þær.) Ég skal fara yfir þær. Jú, jú. Það á að ganga frá því að einn skuli bankastjórinn vera. Það skal ganga frá því að fimm skuli sitja í bankaráði. Það skal gá að því að leyfa starfsmönnum að hlusta eða eitthvað í þá veru. Það skal passa upp á að menn sem ætla að eiga 100% þurfi að búa til 20 eignarhaldsfélög svo að þeir geti átt hann allan. Þetta eru nú tillögurnar. Jú, jú, þetta er svo sem vel meint. (ÖS: Þú kannt klækina.) Þetta er svo sem vel meint. (Gripið fram í: Þetta er nú ekki flókið.) Þetta er svo sem ekki flókið.

[21:45]

Hér kom fulltrúi gamla sósíalistaflokksins en sá flokkur hefur mjög verið að belgjast um síðustu árin og ekkert annað meira farið í taugarnar á honum en einkavæðing. Hann notaði orðið forneskja fimm sinnum --- ég merkti við --- fimm sinnum forneskja um þetta frv. Honum varð svo mikið um. Honum fannst þessir hlutir svo lítt ganga fram. Fimm sinnum forneskja. Af því að hann er nú ekki hér í kvöld þá nenni ég ekki að fara yfir þann belging allan sem stóð í rúman klukkutíma. En hvað hafði hann fram að færa í sínum miklu brtt.? Jú, plús það sem kratarnir voru búnir að telja upp, kom hann með þá tillögu að hann taldi að það væri rétt sem heimildarákvæði, sem heimildarákvæði, að það væri heimilt að gefa lífeyrissjóðunum smáhlut í bankanum ef vera skyldi að kæmi til þess að einhverjar ábyrgðir féllu nú á ríkið. Þetta var róttækt. Það var von að þeir gætu ekki verið saman á nefndaráliti vinirnir í stjórnarandstöðunni. Það var von að þeir gætu ekki verið saman.

Okkar kæri áheyrnarfulltrúi kom nú hér líka. Ég reyndi að hlusta á allt það mál sem hún hafði fram að færa og heyrði það helst, að frá því fyrsta umræða um þetta mál átti sér stað hefur hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir upphugsað það með sjálfri sér að kannski getum við lifað án þess að vera með ríkisbanka og fer nú flestum fram núna. Taka nú flestir nokkurri framför. Þannig að ég get ekki annað séð, herra forseti, en að það sé þó nokkur og bærileg sátt um þetta frv. þrátt fyrir allt, þrátt fyrir að við margir vildum ganga svo miklu lengra. Þrátt fyrir að við vitum það svo vel að það væri æskilegt fyrir íslenskt efnahagslíf, fyrir íslenskt viðskiptalíf að ganga lengra. En eins og hv. þm. Ágúst Einarsson orðaði það áðan. Hann orðaði það þannig: ,,Það borgar sig ekki að fara of hratt.`` Þó að ég sjálfur trúi því að í þessu tilfelli borgi sig að fara mun hraðar en ríkisstjórnin ætlar að gera þá skulum við sætta okkur við að það er dálítið til í því hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni að stundum borgar sig ekki að fara of hratt. Margir af okkar félögum, stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar eru þessarar skoðunar. Þeir eru hræddir við þessar breytingar og við skulum taka tillit til þeirra vegna þess að það borgar sig. Ef við tækjum ekki tillit til þeirra þá gæti málið eyðilagst og þá væri kannski margra ára bið eftir að nokkur framför yrði í bankamálum. Þess vegna, herra forseti, er ég sannfærður um að við höfum þó verið gæfumenn að því leyti að ákveða að fara fram þó það væri ekki nema með þetta vegna þess að við vitum að við munum standa betur að vígi á morgun en við gerðum og framtíðin er þá okkar. Reynslan mun svo sýna hvað við getum gert. Munum við taka ákvarðanir um það seinna að fara hraðar? Ég er sannfærður um það, herra forseti, að sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem nú liggur fyrir að selja ekki hluti í bönkunum næstu fjögur árin --- þessi ríkisstjórn okkar hlýtur að taka þá ákvörðun til endurskoðunar. Hún hlýtur að gera það. Ég trúi því. Það er svo augljóst að það er fjarstæða að bíða svo lengi. Hún mun breyta því og ég trúi því. Þannig er ég viss um það, herra forseti, að allt þetta mál mun verða okkur til gæfu. Ég er sannfærður um að það sé góð sátt um þetta meðal þingmanna og mikil sátt. Við erum þó kannski ekki að stíga stór skref en þó stærra skref en stigið hefur verið síðust tíu ár. Minnumst þess.