Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 21:50:00 (5558)

1997-04-21 21:50:00# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. 1. minni hluta JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[21:50]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessa ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar má draga saman í eina setningu eða eina spurningu: Segðu mér hverja þú umgengst og ég skal segja þér hver þú ert. Við komumst ekki lengra með Framsókn, segir hann. En fagnar þó því að tekist hafi að drusla þeim, samstarfsaðilunum, þessi hænufet. Þetta eru kveðjurnar til samstarfsaðilans. Sjálfur segist hann hafa vitað að þetta var allt í steik að minnsta kosti frá 1970. Hann fékk fregnir af því 1970 að það horfði illa með bankakerfið. (EOK: Þröstur Ólafsson birti það ...) Já og heyrði það frá Þresti Ólafssyni. Á árunum frá 1970 hefur flokkur Einars Odds Kristjánssonar haft stjórnarforustu í ríkisstjórn á Íslandi í 14 ár samfellt en ekkert komist úr sporunum. Vitað af því að ástandið fór mjög versnandi upp úr 1970 en ekkert gert, ekki neitt. Síðan spyr hv. þm.: ,,Hvernig var það á árunum 1987--1988? Sjálfstfl. hafði þá stjórnarforustu og entist stutt. Síðan aftur 1991--1995 og hvað gerðist þá?`` Á þessum árum urðu þó róttækar breytingar loksins á fjármálakerfinu. Strax 1987--1988 var gengið í það verk að fækka bönkum og sameina banka og koma á einum hlutafélagsbanka. Á þessum árum urðu líka miklar breytingar á fjármálakerfinu utan bankakerfisins. Á þessum árum var stóraukið frjálsræði endanlega staðfest með fjármagnsflutningum milli landa og þar með opnað fyrir erlenda samkeppni. Og allt var þetta nú gert, ekki að frumkvæði mannanna sem fréttu af því að upp úr 1970 horfði illa. Nei, nei. Skref fyrir skref voru þetta umbætur sem voru gerðar að frumkvæði þeirra manna sem hv. þm. nefndi, þ.e. þeirra forustumanna Alþfl. sem stýrðu viðskrn. Það er dapurlegt til þess að vita. Segðu mér hverja þú umgengst og ég skal segja þér hver þú ert. (Gripið fram í: Framsóknarmaður.)