Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 21:52:27 (5559)

1997-04-21 21:52:27# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[21:52]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það vita allir sem vilja vita það að sannarlega hefur okkur tekist, sérstaklega síðasta áratuginn eða svo, að þoka þessu samfélagi í átt til meira frjálsræðis í viðskiptum og meiri farsældar. Við höfum staðið saman að því. Stundum höfum við farið hægt og stundum allt of hægt. Ég er sammála hv. ræðumanni, Jóni Baldvini, um að við hefðum mátt fara hraðar og margir hafa lagt sitt góða lóð á vogarskálina. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. En við skulum minnast þess að við komumst þó ekki hraðar. Það fer enginn lengra en hann kemst. Þetta komumst við. Alþfl. tókst ekki á átta ára ferli sínum í viðskrn. að leggja fram frv. um einkavæðingu bankanna, því miður. Ég efast ekki um góðan hug þeirra og mikinn vilja. Þeir sátu þetta tímabil í ríkisstjórn með öllum þeim flokkum sem hafa til siðs að vera í ríkisstjórnum, með öllum flokkunum. Það eru ein samtök sem hafa til siðs að vera ekki í ríkisstjórnum Það vantaði nú ekki félagsskapinn en það tókst bara ekki. Ég hef aldrei efast um góðan vilja þessara ágætu jafnaðarmanna til að koma einhverju skikki á banka. Þeim tókst þetta bara ekki. Þess vegna skulum við fagna því núna að það liggur þó fyrir slíkt frv. Það liggur líka fyrir mikill stuðningur allra flokka þingsins við frv. þó sumir vilji breyta einhverju smálegu. Við skulum fagna því. Það gengur þá betur núna en áður. Við erum á farsældarbraut og við skulum fagna því. Við skulum standa saman að þessu.