Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 21:54:22 (5560)

1997-04-21 21:54:22# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. 1. minni hluta JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[21:54]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði: ,,Það liggur þó fyrir slíkt frv. og við skulum fagna því.`` Það lá fyrir frv. meira að segja í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Og af hverju var það ekki lagt hér fram? Til þess að það verði stjfrv. þá þarf samþykki hins stjórnarflokksins. Og það tókst nú ekki betur til en svo að á því samþykki strandaði og reyndar gekk það svo langt að fyrrv. viðskrh. Alþfl. þurfti að koma á sérstakri sáttanefnd til að leiða saman ólíkar fylkingar í Sjálfstfl. eins og venjulega og yfir hana var skipaður fyrrv. hv. þm. Matthías Bjarnason sem var náttúrlega mjög tregur til að styðja slíkt mál en féllst þó að lokum, eftir dúk og disk, á að ef til vill mætti það gerast með því skilyrði að Alþingi kysi áfram bankaráðin eins og reyndar er ein fornaldarbrtt. sem hv. þm. var að vísa til. Var ekki fimm sinnum minnst á fornöldina? Það er ein slík tillaga um að Alþingi (EOK: Forneskju.) kjósi bankaráðin sem er náttúrlega kolvitlaus tillaga. ,,Ég hefði svo gjarnan viljað fara hraðar``, sagði hv. þm. Já, en hann kemst ekki lengra en hann getur til að ganga í takt við Framsókn. Þetta er boðskapurinn. En það liggja hérna fyrir tillögur, hv. þm., um að fara svolítið hraðar og svolítið skynsamlegar í málið til að ná markmiðunum. Hvað dvelur svo orminn langa? Þingmaðurinn hefur tækifæri til að styðja brtt. sem gera honum kleift að fara svolítið hraðar. Enginn efast nú um sannfæringarmátt hv. þm. gagnvart samstarfsaðilum. (KÁ: Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða.)