Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 22:02:12 (5564)

1997-04-21 22:02:12# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[22:02]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sennilega lesið þá bók tvisvar og ég man ekki betur en að einn af þeim sem grét það lítt þó bankinn færi á hausinn hafi verið Ólafur Thors. Og hvers vegna? Hann taldi að með þeim tímamótum hefði það gerst að mikið af atvinnulífinu færðist í hendur Íslendinga sem áður var í höndum útlendinga. Þetta veit hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hann treystir því kannski að menn hafi ekki lesið þetta eða séu búnir að gleyma því. En það er söguleg staðreynd að þessi banki fór á höfuðið með pomp og pragt. Og það mun gilda sem eitt sinn var sagt að sagan endurtekur sig. Hitt hvort það sé heimspeki okkar tíma að það komist enginn lengra en hann kemst, það hef ég ekki heyrt fyrr og veit ekki hvort er nýr boðskapur í ferðaþjónustu sem leiðir okkur inn í nýja öld. Ég efa satt best að segja að svo sé. En sagan greinir frá þessu hruni Íslandsbanka, hann fór á höfuðið með pomp og pragt og fjöldi manna tapaði öllu sínu sparifé. Þetta veit hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Það er ekki víst að hann vilji að rætt sé um það. Þetta getur gerst aftur. Það er hættan við að engin ríkisábyrgð sé á bak við bankana.

Það er svo að það voru margir hlutafélagsbankar sem var búið að stofna í þessu landi og þeir voru að keppa við ríkisbankana. Samvinnubankinn var hlutafélagsbanki. Iðnaðarbankinn var hlutafélagsbanki og Verslunarbankinn var hlutafélagsbanki. Þeir voru allir sameinaðir í einn banka. En hvernig var ástandið í rekstri þessara banka þegar það gerðist á sínum? Voru ekki 700 milljónir í Verslunarbankanum með veði í háloftunum? --- Ég man ekki betur. Hver var staðan í Iðnaðarbankanum? Hver var hún? Var það ekki Iðnlánasjóður sem var löngum látinn draga að landi misheppnuð útlán? Það vissu flestir að þannig var ástandið. (Forseti hringir.) Og nú er tíminn búinn segir hæstv. forseti. Ég sé að það er nægur tími til að lesa söguna betur, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson.