Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 22:04:40 (5565)

1997-04-21 22:04:40# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[22:04]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti mjög vænt um síðustu orð ræðumanns --- nægur tími til þess að lesa söguna betur, því ekki er vanþörf á. Það er fullreynt að hafi hv. þm. lesið sögu Íslandsbanka og Útvegsbankans eftir Ólaf Björnsson þá er hann búinn að gleyma því öllu sem í henni stóð, greinilega hverjum einasta stafkrók. Íslandsbanki var banki sem stóð fyrir mestu framfarasporum í sögu Íslands. Var banki sem var tryggður með gullfæti, banki sem stóð fyrir togaravæðingu Íslands, banki sem stóð fyrir því að við settum vélar í okkar skip, banki sem stóð fyrir því að koma Íslandi frá miðöldum inn í nútímann. Þessi banki var ofsóttur af heimskum, lélegum og misskildum stjórnmálamönnum. Og það er versti kaflinn í sögu 20. aldar. Um þetta má glögglega lesa og þessi bók er til í miklu upplagi, sögðu þeir mér í gamla daga, a.m.k. í Útvegsbankanum gamla, því það hafði enginn maður keypt hana. Þegar ég fékk hana keypta einu sinni sagði maðurinn við mig: Þú ert fyrsti maðurinn sem biður um hana. Þannig að ég á von á því að upplagið sé allt til og við getum fengið hana og dreift henni meðal þingmanna þannig að allir geti lesið þetta og við þurfum ekki að eyða tímanum í slíkt karp. (Gripið fram í: Hvaða stjórnmálamenn voru hér í þessum sal á þeim tíma?) (Gripið fram í: Það má nú tína það upp.) (Forseti hringir.)

(Forseti (GÁ): Nú þykir forseta stór orð notuð um forfeður vora.)