Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 22:16:30 (5567)

1997-04-21 22:16:30# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[22:16]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram allmiklar umræður um þetta frv. til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands sem hér liggur fyrir. Eins og gefur að skilja í svo stóru máli liggja sjónarmið ekki alveg saman, a.m.k. ekki allra og ekki að öllu leyti hjá þeim þar sem sjónarmið eiga sér snertifleti.

Ég vil í fáeinum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég tel rétt að hún komi hér fram þar sem svo vill til að ég var búinn að ganga frá því að vera á öðrum stað á morgun og get ekki breytt þeirri ákvörðun þannig að ég mun verða fjarverandi við þá atkvæðagreiðslu sem fram fer í málinu á morgun ef að líkum lætur.

Mál þetta horfir þannig við mér að það sem er verið að fjalla um er bankastarfsemi, rekstur banka, og hvaða hlutverk við ætlum ríkissjóði í þeirri starfsemi í framtíðinni. Þá vil ég fyrst benda á ákveðna staðreynd sem liggur í augum uppi og hefur verið bent á. Það er að þessi starfsemi er viðskiptavinum bankanna ákaflega dýr. Helstu viðskiptavinir bankanna eru þeir sem skulda peninga og þeir sem skulda peninga eru fyrst og fremst alþýðan í landinu, íslenskt launafólk. Það kemur því ákaflega illa við íslenskt launafólk ef bankakerfið er dýrt, ef það er mun dýrara en þörf er á. Það eru hagsmunir þess að þessi atvinnustarfsemi sé veitt á eins ódýran hátt og unnt er. Rétt eins og það er talið vera almannahagsmunir að aðrir atvinnuvegir séu reknir á eins hagkvæman hátt og unnt er, má þar t.d. nefna fiskvinnslu í landi sem er mjög stór atvinnugrein á landsbyggðinni. Við því er ekki amast á neinn hátt heldur talið óhjákvæmilegur fylgifiskur hagræðingar þótt störfum í fiskvinnslu í landi fækki ár frá ári sem svo aftur leiðir til þess að fólki fækkar á landsbyggðinni að sama skapi þegar ekki verða til störf í öðrum greinum á móti þeim sem hverfa í landvinnslunni. Þetta nefni ég til samanburðar svo mönnum sé ljóst að það er víðar sem sömu sjónarmið eru uppi um kröfur á arðsemi atvinnugreina og við eigum ekki að hafa önnur sjónarmið uppi um bankastarfsemi.

Eftir því sem ég best veit er vaxtamunur í íslensku bankakerfi og erlendu verulegur, mun vera um 3% um þessar mundir. Það er ákaflega há fjárhæð sem fer í rekstur kerfisins og fram kemur í nál. 1. minni hluta, hygg ég, að rekstur þess kosti 13.000 milljónir á hverju ári. Þetta fé borga íslenskir skuldarar að mestu leyti, alþýðufólk sem skuldar bönkunum lán vegna kaupa á húsnæði, bílum eða öðru því sem það hefur fjárfest í. Í skýrslu sem dreift var hér fyrr í vetur frá hæstv. forsrh. um samanburð á lífskjörum hérlendis og í Danmörku kemur fram að rekstur bankakerfisins á Íslandi er miklu dýrari en í Danmörku. Þar kemur t.d. fram að rekstrarkostnaður danska bankakerfisins nemur um 2,4% af niðurstöðutölu efnahagsreiknings. En á Íslandi er sama tala 5,1%. Það gefur auga leið að það bankakerfi sem við búum við er mjög dýrt. Ef við gæfum okkur t.d. að hægt væri að reka það fyrir 50--60% af þeim kostnaði sem það kostar nú og miðum við að það kosti 13 milljarða, eins og fram kemur í nál., gætu um 4--6 milljarðar kr. sparast við hagræðinguna í bankakerfinu og þessi sparnaður kæmi fyrst og fremst þeim til góða sem skulda þessu sama bankakerfi fé. Ég lít þess vegna á það sem almannahagsmuni að knýja fram breytingar í þessum atvinnurekstri og tel að þeir sem bera hagsmuni almennings, og sérstaklega launafólks, fyrir brjósti eigi að beita sér fyrir breytingum í þessa átt.

Spyrja má: Hvernig getum við náð fram þessum framförum í rekstri bankakerfisins? Það eru einkum bent á tvær leiðir. Fyrri leiðin er sú að ríkið, að því það er mjög stór þátttakandi í íslensku fjármálakerfi, beiti sér fyrir hagræðingu þar sem það beinlínis getur vegna eignarhalds síns í bankakerfinu. Það hefur verið bent á að ef ríkisbankarnir tveir, Búnaðarbanki og Landsbanki, yrðu sameinaðir í einn banka væri hægt að ná fram sparnaði sem næmi um 1.000 millj. kr. á ári. Það er verulegur sparnaður sem hægt væri að ná fram með þessari aðgerð. Það hefur líka verið bent á, eins og fram kemur í nál. 2. minni hluta, fulltrúa Alþb. og óháðra, að stokka upp með sameiningu viðskiptabanka, sparisjóða og fjárfestingarlánasjóða sem ríkið gæti hæglega komið á koppinn vegna þess að það á bæði tvo banka og allnokkra fjárfestingarlánasjóði og getur í krafti þeirrar stærðar sem það er með á þessum markaði komið við skipulagsbreytingum af þessu tagi. Þessar aðgerðir munu örugglega spara skuldara á Íslandi verulegt fé. Það er því sjálfgefið að leitast við að stika þessa leið eftir því sem menn komast áfram. Hin leiðin sem menn benda á og má fara líka til þess að ná fram sparnaði í rekstri þessarar atvinnugreinar er að beita lögmálum samkeppninnar. Það hefur verið gert annars staðar með tilætluðum árangri og engin ástæða til að ætla að neitt annað verði upp á teningnum hér á landi en erlendis en það að samkeppni um viðskiptavinina leiði til þess að rekstrarkostnaðurinn verði minni, að vaxtamunurinn minnki.

Í frv. er, má segja, farin að nokkru leyti dálítið skrýtin leið. Það er ekki farin sú leið að beita eignarhaldi ríkissjóðs til þess að taka til í þeim hluta fjármálakerfisins sem ríkið á. Ekki beinlínis. Heldur farið afbrigði af samkeppnisleiðinni með því að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög og sameina fjárfestingarlánasjóðina í einn sjóð og breyta þeim sjóði í hlutafélög þannig að út úr þessu komi þrjú hlutafélög þar sem tvö þeirra eru bankar og það þriðja fjárfestingarlánasjóður. Það hlutafélag getur hæglega starfað sem banki með tiltölulega einfaldri breytingu sem ég sé ekki að séu nein vandkvæði fyrir þann sjóð að ná fram og þá gæti hann farið að taka við innlánum og starfa eins og hver annar banki. Þetta er að sönnu nokkuð löng leið til hagræðingar en hún hefur þó þann kost að aðeins er ýtt við mönnum í samkeppnisátt. Þessi hlutafélög verða væntanlega að keppa á þeim markaði sem þau starfa um hylli viðskiptavinanna. Hins vegar er ekki að finna í frv. nægilega sterkan hvata til þess að tryggja að þessi þrjú hlutafélög starfi að fullu samkvæmt lögmálum samkeppninnar.

Ég verð þó að segja, herra forseti, að þó skrefið sé ekki stórt sem tekið er og ekki alveg skýrt beint áfram til betri þróunar fyrir þá sem skulda bankakerfinu peninga þá tel ég vera fólgna framför í þessu skrefi og fyrst og fremst í þeim möguleikum sem það felur í sér næst á eftir að þessar skipulagsbreytingar hafa náð fram að ganga.

Í umræðum um þetta mál hefur verið gerð grein fyrir ýmsum atriðum sem af hálfu stjórnarandstöðunnar þykir vera áfátt og gagnrýni verð og get ég tekið undir margt af því sem hefur komið fram frá báðum minni hlutum efh.- og viðskn. Ég tel sjálfsagt að gæta að hagsmunum starfsmanna í þessum lagabreytingum. Mér finnst líka sjálfsagt að huga að skipan bankaráða og finnst sú valdasamþjöppun á skrifborði iðn.- og viðskrh. í raun vera beittasta gagnrýnisatriði stjórnarandstöðunnar á frv. Ég hygg að það sé ekki neinum manni hollt að vera í þeirri stöðu að hafa það vald að geta ráðið svo miklu í svo mörgum bönkum sem þessi frv., ekki bara þetta sem hér er til umræðu heldur þau sem síðar koma, bera vott um. Ég tel full rök fyrir því að gera breytingar á þessum skipunarmálum þannig að iðn.- og viðskrh. standi ekki einn með það vald sem þar er gert ráð fyrir. Ég tek líka að nokkru leyti undir kröfur um dreifða eignaraðild þó svo að ég sé ekki alveg endilega sammála öllu því sem sagt hefur verið um það mál. Við skulum hafa það í huga að bankarnir starfa við allt aðrar aðstæður núna en áður var. Þá var skortur á fjármagni og margir sem vildu fá lánað og það fólust í því mikil völd og jafnvel pólitísk völd að geta útdeilt þessu fé. Nú er ekki skortur á fjármagni heldur nálgast sú staða æ meir að skortur sé á viðskiptavinum en ekki skortur á peningum til að lána út. Við þessar aðstæður verða völd og áhrif þeirra sem fara með umsýslu peninganna miklu minni en áður var auk þess sem hlutafélagaformið gerir það að verkum að eigendur hlutafjárins gera þá kröfu til þeirra sem reka fyrirtækin að þeir hafi arðsemina að leiðarljósi en ekki einhverja aðra hagsmuni. Þannig sé ég ekki nein sérstök rök fyrir því að gera kröfu til mjög dreifðrar eignaraðildar þegar ríkið á að eiga 65% en aðrir aðilar eiga samtals 35%. Jafnvel þótt einn aðili ætti allan þennan 35% hlut væru áhrif hans í bankanum tiltölulega lítil miðað við að sá sem á 65%, þ.e. ríkissjóður, er einn aðili sem fer þá með óskorað meirihlutavald.

[22:30]

Ég er heldur ekki viss um að það sé nein sérstök vá fyrir dyrum eða hætta fyrir þá sem þurfa að leita með viðskipti sín til fjármálafyrirtækja þótt einhver einn aðili eða fáir aðilar ættu ráðandi hlut í einum banka, ef fyrir hendi væri samkeppni, þ.e. nokkuð margir bankar störfuðu og ráðandi aðili í einum banka væri ekki ráðandi í öðrum bönkum. Ég get því ekki verið sammála því að krafan um dreifða eignaraðild eigi að vera eins víðtæk og fram hefur komið hér í umræðunni þó að ég sjái ekki að það geri neinn skaða að menn fari varlega í þessu efni og gæti að því með því að hafa kannski fremur stífari kröfur um dreifða eignaraðild heldur en ætla mætti að nauðsynlegt sé hverju sinni. Síðan má breyta þeim kröfum eftir því sem fram vindur og menn telja að óhætt sé án þess að tefla í tvísýnu þeim markmiðum sem menn hafa með þessu.

Herra forseti. Ég tel að í sjálfu sér hafi það verið rétt að ríkið hafi haft með höndum þann þátt í bankastarfsemi sem verið hefur fram til þessa. Það var af skiljanlegum ástæðum lengi vel. Það voru ekki aðrir aðilar sem gátu haldið uppi öflugri bankastarfsemi og veitt fyrirtækjum þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg var og í skjóli ábyrgðar sem ríkið eitt hefur getað lagt fram hafi verið nauðsynlegt að ríkið hefði þessa starfsemi með höndum. En núna eru breyttir tímar og það er sjálfsagt og eðlilegt að þeir sem fara með vald ríkisins í þessu máli hugi að því hvernig eðlilegast sé að ríkið komi sér fyrir eða hasli sér völl á þessu sviði í framtíðinni.

Ef við gefum okkur að það sé ekkert lykilatriði að ríkið hafi með höndum þennan rekstur í náinni framtíð, þá er spurning hvort ekki sé skynsamlegt fyrir ríkisvaldið að breyta þessari eign sinni sem liggur í bönkunum yfir í einhverja aðra eign sem kemur þegnum landsins jafn vel, ef ekki betur. Við getum t.d. ímyndað okkur að við breyttum eign okkar í bönkunum í vegi eða aðra fjárfestingu sem kallað er á um þessar mundir og mundi bæta þetta þjóðfélag í framfaraátt.

Ég sé hlutverk ríkisvaldsins á fjármálamarkaði þannig um þessar mundir eins og staðan er og vil ég þá til fróðleiks benda á að í tímariti sem var dreift til þingmanna í dag, Fjármálatíðindum, koma fram þær fróðlegu upplýsingar að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi eftirlit með 180 aðilum sem eru með starfsemi á sviði viðskiptabanka, sparisjóða, póstgíróstofa, fjárfestingarlánasjóða, húsbréfadeildar, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlara, verðbréfasjóða og lífeyrissjóða, svo upp séu taldir helstu flokkar þeirra sem starfa á fjármálamarkaði en þeir eru um 180 samtals eins og fram kemur hér í þessu hefti Fjármálatíðinda. Ég tel að við þær aðstæður sem uppi eru núna sé hlutverk ríkissjóðs eða ríkisins fyrst og fremst það að sjá til þess að lagaumgjörð endurspegli það viðhorf sem menn vilja að gildi á þessu sviði og að það hafi eftirlit með fjármálastarfseminni, m.a. með eiginfjárkröfum og öðrum öryggisatriðum sem þurfa að vera í lagi til að tryggja hagsmuni þeirra sem eiga viðskipti við bankakerfið.

Í öðru lagi á það að vera hlutverk ríkisins á fjármálamarkaði að miðla hagstjórn sinni, þ.e. peningastjórnun, ná henni fram eins og efnahagsstefna ríkisins er á hverjum tíma með framboði á peningum, vaxtabreytingum og öðru því sem áhrif hefur á þessu sviði. Og í þriðja lagi á ríkið að vera með starfsemi á fjármálamarkaðnum þar sem aðrir standa sig ekki sem skyldi eða eru ekki með starfsemi eins og þörf er á, en það getur auðvitað verið fyrir hendi og má t.d. nefna nýsköpunarsjóði eða áhættulánasjóði sem mikil þörf er á, sjóði sem eiga að beina fé í starfsemi sem ætlað er að auka hagvöxt í landinu og renna styrkari stoðum undir þau lífskjör sem við búum við. Við sjáum að full þörf er fyrir þetta hlutverk að mati fleiri en mín og hér liggja fyrir tvö frumvörp um áhættulánasjóð, annað frá þingflokki Alþb. og hitt frá ríkisstjórninni sem er á leiðinni gegnum þingið og verður væntanlega að lögum.

Herra forseti. Ég hef í stuttu máli í aðalatriðum gert grein fyrir sjónarmiðum mínum til þessa máls. Ég tel rétt að það nái fram að ganga í meginatriðum þó að ég taki undir það að hnökrar eru á því eins og það er útbúið og ég tek undir margt af aðfinnslu stjórnarandstöðuþingmanna. Ég tel því, herra forseti, að þrátt fyrir að hnökrar séu á málinu og það gangi ekki langt til þeirrar áttar sem ég hefði viljað sjá, þá sé rétt að það nái fram að ganga. En markmið þau sem ég hef sett fram með endurskipulagningu á bankakerfinu eru fyrst og fremst þau að tryggja alþýðu manna á Íslandi atvinnustarfsemi á þessu sviði sem er sem ódýrust og það er alveg ljóst að um þessar mundir er íslensk bankastarfsemi miklu dýrari en hún þarf að vera og kostar íslenska skuldara miklu hærri fjárhæðir á ári hverju en nauðsynlegt er.