Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 22:39:04 (5568)

1997-04-21 22:39:04# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[22:39]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ákaflega þætti mér vænt um það ef hv. 3. þm. Vestf. yrði gert viðvart þannig að hann mætti í salinn ef hann hefði áhuga á að kynna sér þá merku bók, Sögu Íslandsbanka hf. og Útvegsbanka Íslands 1904--1980.

(Forseti (StB): Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hv. 3. þm. Vestf. verði hér.)

Það vil ég þakka forseta því að ég tel mjög jákvætt ef hann mundi leyfa mér smálestur úr þessari bók til þess að hv. 3. þm. Vestf. gæti áttað sig á því hvaða efni væri inn á milli kápuspjaldanna.

Það var kveðið upp úr með að það hefðu verið heimskir stjórnmálamenn íslenskir sem jörðuðu þennan banka. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa örlítið á bls. 102 í bókinni. Þar segir svo:

,,Heimskreppan hófst svo sem kunnugt er með verðbréfahruninu í kauphöll New York borgar haustið 1929. Tók áhrifa hennar að gæta hér á landi þegar á árinu 1930 þótt ekki kæmist hún í algleyming fyrr en 1--2 árum síðar. Þessi áhrif komu fyrst og fremst fram í verðfalli og sölutregðu útflutningsafurða. Ísland flutti út hráefni en fullunnar vörur inn og þar sem verðhlutföll breytast jafnan útflytjendum hráefna í óhag þegar kreppa skellur á verða viðskiptakjör venjulega Íslendingum mjög óhagstæð í upphafi krepputímabils. Þegar á krepputímabilið líður nær verðfallið einnig til fullunninnar vöru og batna viðskiptakjörin þá venjulega nokkuð aftur.``

Örlítið neðar á síðunni stendur þetta: ,,Verðfall það á framleiðsluvörum landsmanna sem hófst árið 1930 hélt áfram allt árið og sama sölutregðan á sjávarafurðum og árið á undan. Varð það því hið erfiðasta fyrir öll viðskipti þótt tapið hjá framleiðendum hafi ekki verið jafngífurlegt og árið á undan. Söfnuðust þá skuldir hjá viðskiptamönnum bankans og var mjög mikið af rekstrarfjárlánum, veittum á árinu, ógreitt um áramót, enda mikið af fiski óselt. Í septembermánuði 1931 urðu miklar lækkanir á peningagengi í ýmsum löndum og fylgdi því mjög mikil vaxtahækkun og jók það vaxtabyrði bankans að mun þar sem hann skuldar mjög mikið fé erlendis. Yfirleitt má segja að árið hafi verið hið erfiðasta fyrir bankann þegar þar við bætist að óeðlilega mikil úttekt var á sparisjóðsfé, bæði í aðalbankanum og útibúum hans.``

Ég hygg að íslenskum stjórnmálamönnum verði ekki með réttu kennt um heimskreppuna. Má vera að okkur greini þar á. En meiri fáfræði í umræðum um þessa sögu hef ég ekki heyrt en kom frá hv. 3. þm. Vestf. Það blasti nefnilega við hverjum manni sem vill skoða þessa hluti að það voru margir samverkandi þættir sem komu inn í þessa starfsemi og Íslandsbanki varð fyrir því m.a. á sínum tíma að gengi krónunnar var hækkað en ekki lækkað sem veikti mjög hans stöðu. Hér segir á ýmsum stöðum frá þeim atriðum sem urðu honum erfið og ég held að óhætt sé að fullyrða að gengi hlutabréfa hans hafi farið mjög lækkandi vegna þess að eitt og annað í rekstri bankans var ekki í lagi.

Það er nú einu sinni svo að eitthvert eitt rekstrarform getur ekki komið í veg fyrir erfiðleika og Íslandsbanki lenti í miklum töpum sem urðu vegna þess að stórfyrirtæki fór á höfuðið, m.a. Milljónafélagið, en það var eins og allir vita mjög umsvifamikið í rekstri. Ég held að út af fyrir sig sé þarflaust með öllu að fara að rifja þá sögu upp orð fyrir orð og lesa hana nákvæmlega upp úr þessari bók eins og hún kemur Ólafi Björnssyni fyrir sjónir. En ætlun mín með þessum athugasemdum á sínum tíma var ekki að það yrði til að særa nokkurn mann, hvorki hv. þm. Einar Odd né nokkurn annan. Það sem ég vildi fyrst og fremst undirstrika var að fallvaltleikinn í þessum efnum getur alveg eins birst hlutafélagsbönkum sem öðrum og það er ekki sjálfgefið að menn geti sagt: Nú siglum við sléttan sjó þó að menn trúi því í dag að hægt sé að lækka kostnaðinn við bankakerfið á Íslandi með því að breyta þessum bönkum í hlutafélagsbanka. Hérna stendur samt sem áður á bls. 35, og það vil ég lesa hér af því að ég gat sérstaklega um Milljónafélagið það stendur hér á bls. 35:

,,Syrtir í álinn fyrir Íslandsbanka. Gjaldþrot ,,Miljónafélagsins``. Eins og að framan greinir hafði afkoma Íslandsbanka verið góð árin 1905--1912. Úthlutaður arður hafði aldrei verið lægri en 5,5% og oftast til 6--6,5%.

En í ársbyrjun 1914 varð bankinn fyrir sínu fyrsta stóra áfalli með því að stór viðskiptaaðili bankans, hf. Pétur Thorsteinsson \& Co. varð gjaldþrota. Félag þetta hafði þá um skeið verið í daglegu tali nefnt Miljónafélagið. Rak það jöfnum höndum umsvifamikla útgerð og verslun á svæðinu frá Suðurlandi til Vestfjarða.

Orðrómur um það að ekki væri allt með felldu hvað snerti viðskipti bankans við félag þetta mun hafa borist hinum erlendu hluthöfum til eyrna á fyrri hluta ársins 1913 því að á fundi bankaráðsins sem haldinn var í Reykjavík þann 30. júní gat formaður bankaráðsins, Hannes Hafstein ráðherra, þess að borist hefðu um það tilmæli frá hinum erlendu hluthöfum að haldinn yrði aukafundur í bankaráðinu, annaðhvort í London eða Kaupmannahöfn þar sem rætt yrði, eins og það er bókið í fundargerðinni, ,,um stærstu viðskipti við bankann, sérstaklega viðskipti hf. P.J. Thorsteinsson \& Co. ef ástæða þætti til``. Bankaráðið hafnaði að vísu þessum tilmælum með tilvísun til ákvæðis reglugerðar um það að bankaráðsfundir skyldu haldnir í Reykjavík, en hins vegar gerði bankaráðið í ályktun sinni ráð fyrir því að ráðherra ræddi við hina erlendu bankaráðsmenn (sem að jafnaði mættu ekki svo sem fyrr segir á fundum í Reykjavík) og gæfi þeim kost á því að gera sínar tillögur til bankaráðsins.``

Ég hygg að ekki sé þörf að lesa þetta frá orði til orðs, en það fer ekkert á milli mála að þarna fékk Íslandsbanki fyrsta þunga höggið og þau urðu fleiri. Ég vona nú að hv. þm. Einar Oddur geri sér grein fyrir því

(Forseti (StB): Kristjánsson.)

Einar Oddur Kristjánsson, --- ekki efa ég að faðernið sé rétt hjá hæstv. forseta, --- geri sér grein fyrir því að ég man allvel eitt og annað sem stendur í þessari bók þó að hitt sé rétt að vafalaust mætti ég lesa hana betur. Hún er nefnilega merkilegur fróðleikur um að jafnvel þó að hluthafar séu margir og eigi hlutafélagsbanka, þá getur það gerst að einum aðila sé lánað það mikið að því verði ekki hægt að bjarga og bankinn verði fyrir stóráföllum. Það sem ég drap á, að Ísfirðingar hefðu tapað miklu fé á þessu, veit ég að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson veit og ég tel þarflaust að fara að lesa þann kafla. En ég vænti þess jafnframt að það verði ekki frekari deilur um þessa hluti því að mér er það ekki ljúft að þurfa að halda áfram fram eftir nóttu lestri úr þessari annars ágætu bók, herra forseti.