Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 22:51:26 (5569)

1997-04-21 22:51:26# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[22:51]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru góð tíðindi að bókin skuli fundin, þetta er nefnilega þörf lesning. Eins og allir sem lesa þessa bók komast að bendir Ólafur Björnsson á það réttilega og rekur ótal dæmi þess að Íslendingar hafi hagað sér ákaflega óskynsamlega í samskiptum við hinn dansk/norska hlutafélagsbanka. Hv. þm. Ólafur Þórðarson getur ekki nokkurs staðar fundið nein orð í þessari bók sem mæla gegn ummælum mínum þar um þó að hann leiti og blaði í alla nótt og ég held að hann ætti bara að gera það. Hitt er svo rétt að mörg voru áföllin og langur tími leið frá gjaldþroti Milljónafélagsins til gjaldþrota Íslandsbanka. Þar var nú ábyggilega hvað verst síldarklakkinn 1919--1920, hækkun íslensku krónunnar 1925. (Gripið fram í: Hver stóð fyrir því?) Jón hét hann Þorláksson ef þú ætlar að spyrja ... (Gripið fram í: Hvar var hann í pólitík?) Hann var í Íhaldsflokknum. Eru fleiri spurningar, herra frammíkallandi? (Gripið fram í: Var það ekki forveri Sjálfstfl.?) Er þetta spurningaþáttur, forseti, eða á ég að fá að vera hér í andsvörum?

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þm. að veita ræðumanni frið.)

Þess vegna er það að ég held að einmitt þessi bók sé góð lesning og hún er nú fundin. Hitt er svo alveg rétt að aldrei verður sigld ljúf sigling í efnahagsmálum, aldrei er neinn banki hvorki í þessum heimi né í hinum vestræna heimi öllum eða nokkurs staðar öruggur. Það var enginn að segja það. Við þurfum mjög á því að halda hér og nú að fá eigendaábyrgð og eigendaaðhald að rekstri íslenskra peningastofnana. Það vita allir, það gera sér allir grein fyrir því. Það hefur hæstv. iðn.- og viðskrh. margsinnis nefnt í framsögu sinni fyrir þessu máli, því stöndum við að því að breyta þessu og því munum við standa saman að því. Því verður þetta framfaraspor.