Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 22:54:57 (5571)

1997-04-21 22:54:57# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[22:54]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það gefst vonandi tækifæri til þess einhvern tíma þegar menn hafa meiri nennu en í kvöld að lesa alla þessa bók hér úr ræðustól. Enginn nennir því í kvöld. En niðurstaðan er ótvíræð: Íslenskir stjórnmálamenn höguðu sér mjög óskynsamlega gagnvart þessum erlenda hlutafjárbanka. Það voru menn í ýmsum flokkum og þeir sem þekkja söguna og þeir sem vilja þekkja hana geta alveg rakið hverjir voru í því. Ég ætlaði ekki að nota þetta kvöld til þess að minna á það og skiptir það engu máli í dag hvað þeir flokkar hétu eða hvað þeir menn hétu. Hitt liggur fyrir og við eigum að minnast þess og vita að það er einmitt þetta, skammsýni okkar sjálfra, sem varð okkur svo dýrkeypt þegar mest á reið. Þess vegna var kreppan svo djúp, þess vegna stóð hún svo lengi.