Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 22:56:03 (5572)

1997-04-21 22:56:03# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[22:56]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því við lok 2. umr. að þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir það starf sem hún hefur unnið að undirbúningi þessa máls í meðförum þingsins. Ég tel að það hafi verið vandað starf, nefndin hafi vel unnið og á ótrúlega skömmum tíma. Þegar ég lagði málið fyrir fyrir fáum vikum átti ég ekki von á því að það fengi svo skjóta og vandaða umfjöllun og vinnu í meðferð nefndarinnar þannig að ég vil sérstaklega þakka fyrir það.

Á þingskjali því sem meiri hluti efh.- og viðskn. hefur lagt fyrir koma fram brtt. við frv. eins og það lá fyrir 1. umr. og tek ég undir þær brtt. og lýsi mig samþykkan þeim.

Ég ætla ekki hér og nú að deila um, það var ágætlega tekist á um það við 1. umr. málsins, hvort menn væru hér að stíga stór eða lítil skref í skipulagsbreytingum á fjármagnsmarkaðnum. Ég held hins vegar að þegar sagan verður skoðuð, eins og menn hafa örlítið verið að gera síðustu mínúturnar, þá komi í ljós að þær ákvarðanir sem þingið mun taka á næstunni hvað þetta mál snertir séu mikið framfaraspor og séu af hinu góða. Umræðan um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins bíður betri tíma. Hún kemur síðar þannig að ég ætla ekki nú, eins og einstakir hv. þm. hafa reyndar svolítið gert við þessa umræðu, að fjalla um það mál sérstaklega.

Þegar litið er yfir bæði álit minni hluta efh.- og viðskn., þá held ég að segja megi að sex meginatriði komi þar fram sem gagnrýni á þetta frv. og gerðar eru beinar brtt. um. Ég held að það megi fullyrða að það sé býsna mikil samstaða og í raun og veru verð ég að viðurkenna að þegar ég horfi yfir nefndarálitið þá finnst mér vera sá tónn í nefndaráliti minni hlutans að um þessi mál sé meiri samstaða heldur en ég átti von á í upphafi. Ég hélt að það yrði tekist harðar á í málinu en er þar af leiðandi ánægður með að þetta breið samstaða skuli hafa myndast.

Þessi sex atriði eru í fyrsta lagi aðild að undirbúningsnefndum og áheyrnaraðild fulltrúa starfsmanna í bankaráðum. Í öðru lagi aðgangur að kaupum á hlutafé. Í þriðja lagi það sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kom hér inn á og var af þeim toga að hann gagnrýndi að ekki hefði verið tekið tillit til neins af því sem starfsfólk bankanna hefði lagt til í umræðunni og snýr að sambærilegu starfi. Í fjórða lagi eru það lífeyrismálin og tengjast að nokkru leyti kaupum á hlutafé og í síðasta lagi snýr það að yfirstjórn bankanna, hversu margir bankastjórarnir eiga að vera.

Hvað fyrsta atriðið varðar, um aðild að undirbúningsnefndinni skv. 2. gr. frv., þá vil ég segja, og það kom reyndar fram við 1. umr. málsins einnig, að ég er þeirrar skoðunar og ræddi það við undirbúning málsins við fulltrúa starfsmannafélaga beggja bankanna að ég tel ekki að starfsmenn eigi að eiga sæti í undirbúningsnefndunum en hef boðið upp á að forsvarsmenn starfsmannafélaganna hafi tækifæri til þess að fylgjast náið með störfum undirbúningsnefndanna með áheyrnaraðild og tillögurétti í þessum undirbúningi. Með þeim hætti tel ég að hægt sé að tryggja að fyrir hagsmunum starfsmanna sé vel séð og ekki þurfi beina aðild þeirra að nefndinni. Þetta var fulltrúum starfsmannafélaganna ljóst þegar þetta frv. var lagt fyrir Alþingi vegna þess að fulltrúar þessara starfsmanna tóku mjög mikinn þátt í undirbúningi málsins og kem ég kannski inn á það hér örlítið síðar.

[23:00]

Í öðru lagi hvað áheyrnaraðild að bankaráðunum snertir þá tel ég það í raun og veru vel athugandi og mun láta kanna hvort ekki sé rétt að starfsmenn hafi áheyrnaraðild að bankaráðum hlutafélagabankanna. Það mun hins vegar auðvitað byggjast á samþykktum þeim sem verða undirbúnar af undirbúningsnefndunum og ég mun láta kanna það í þeim undirbúningi. Hins vegar getur það tekið breytingum þegar nýir aðilar verða síðan orðnir eigendur að hlutafélögunum.

Í þriðja lagi aðgangur að kaupum á hlutafé. Ég tel að það komi til skoðunar að tryggja starfsmönnum aukinn rétt eða aðgang að kaupum á hlutafé. Ég tel hins vegar ekki á þessari stundu eðlilegt að taka ákvarðanir um að binda slíkt í lög. Þegar að því kemur að menn hefja undirbúning að útboðum á nýju hlutafé í bönkunum eins og gert er ráð fyrir í lagafrv. þá verði hugað að þessum þætti málsins, þ.e. að starfsmennirnir muni með einhverjum hætti geta notið forgangs að kaupum á hlutafé í útboði. En ég lýsti því hér við 1. umr. málsins og það kemur reyndar skýrt fram í greinargerð frv. að stefnt er að dreifðri eignaraðild að bönkunum og þar af leiðandi, og til að svara einu því atriði sem kemur fram í minnihlutaálitinu frá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni og Ágústi Einarssyni, þar sem gengið er út frá því að engin skuli geta eignast meira en 5%, tel ég ekki heldur skynsamlegt að binda það sérstaklega í lögum heldur miklu frekar að stefna að dreifðri eignaraðild í gegnum einkavæðingarnefndina. Nú veit ég að fulltrúar einkavæðingarnefndarinnar gengu á fund hv. efh.- og viðskn. og ég tel eðlilegt, eins og hún hefur reyndar sýnt með störfum sínum, að hægt er að tryggja þar dreifða eignaraðild.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gagnrýndi að ekki væri tekið tillit til neins af því sem fulltrúar starfsmannafélaga bankanna hefðu komið fram með í umfjöllun í nefndinni. Nú er það svo að fulltrúar starfsmanna beggja bankanna og fulltrúar Sambands ísl. viðskiptabanka áttu gott samstarf við ráðuneytið við undirbúning þessa máls. Það var leitað eftir mjög víðtæku samstarfi við fulltrúa þessara aðila ásamt fulltrúum bankaráða beggja bankanna og bankastjórum beggja bankanna. Það var hægt að taka tillit til flestra þeirra athugasemda sem komu fram hjá fulltrúum starfsmannafélaganna við undirbúning málsins. Meðal annars sem ekki hafði hvað síst áhrif á að gert var ráð fyrir því upphaflega í undirbúningi málsins að aðrir aðilar en ríkið gætu eignast allt að 49% eignarhlut í viðskiptabönkunum með útboðum á nýju hlutafé. Það var gangrýnt á aðalfundum beggja starfsmannafélaganna hversu hátt hlutfall þetta skyldi vera og það var ekki síst það ásamt nokkrum öðrum þáttum sem urðu til þess að ákveðið var að lækka þessa tölu áður en frv. var lagt hér fyrir úr 49% niður í 35%. Í umsögn Starfsmannafélags Landsbankans var gagnrýnt að kveðið sé á um í frv. eins og það liggur núna fyrir að starfsmenn eigi rétt á sambærilegu starfi en ekki á sama starfi. Þarna er um hugtakanotkun að ræða fyrst og fremst. Hins vegar verður að gá að því að þarna verður um tvo aðskilda lögaðila að ræða. Annars vegar Búnaðarbanki Íslands og Landsbanki Íslands og svo hins vegar Búnaðarbanki Íslands hf. og Landsbanki Íslands hf. Þannig að það verður ekki um það að ræða að menn geti verið með sama starf en menn munu fá sambærilegt starf eins og frv. gerir ráð fyrir.

Fimmta atriðið í þessu snýr að lífeyrismálunum. Þeirri hugmynd hefur verið varpað fram að eftirlaunasjóðir bankanna geti eignast tiltekinn hluta af hlutafé ríkissjóðs og eftirlaunasjóðunum verði þannig bætt upp bakábyrgð ríkissjóðs sem fjallað hefur verið um þegar rætt hefur verið um breytingar á eftirlaunasjóðunum. Eftirlaunasjóðirnir gætu þannig gerst eignaraðilar að bönkunum. Á þessu stigi tel ég ekki rétt að lögfesta að svo skuli vera og ein meginástæða fyrir því er sú að enn eru í gangi samningaviðræður við starfsmenn um framtíð eftirlaunasjóðanna, eða með hvaða hætti eftirlaunasjóðirnir muni starfa. Mér finnst eðlilegt að þeirri umræðu ljúki og niðurstaða fáist og má fastlega búast við að sú niðurstaða komi út úr atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna allra þriggja bankanna, þ.e. Búnaðarbankans, Landsbankans og Seðlabankans. Í ljósi þeirrar niðurstöðu tel ég rétt að þessar viðræður verði teknar upp og er reiðubúinn til að standa fyrir slíkum viðræðum og beita mér fyrir þeim. Verði það til þess að kalla á lagabreytingar þá veit ég það í ljósi þess sem kemur fram í nál. að það verður vandalaust að fá slíkar breytingar samþykktar á Alþingi reynist það nauðsynlegt.

Að lokum sem var svona sjötta atriðið í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið hér við þessa umræðu og gerðar eru beinar tillögur um. Það hefur verið gagnrýnt að ekki skuli kveðið á um hversu margir bankastjórar skuli starfa í bönkunum. Ég tel ekki rétt að kveða sérstaklega á um það í lögum. Það er hins vegar alveg ljóst að það á að vera verkefni nýrra stjórna þessara fyrirtækja að koma upp skipulagi og skipuriti fyrir þessi nýju fyrirtæki. Það verður ákvörðun stjórna þessara fyrirtækja að ákveða hversu margir bankastjórar skuli starfa við þessi fyrirtæki. Þess vegna finnst mér óeðlilegt að binda það í lög hversu margir þeir eigi að vera. Það kemur hins vegar alveg skýrt fram í umræðunni hér og líka í öllum þeim nefndarálitum og brtt. sem hér liggja fyrir hver vilji þingsins er í þessum efnum.