Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 23:08:54 (5573)

1997-04-21 23:08:54# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[23:08]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Út af orðum hæstv. ráðherra vil ég taka fram að mér finnst algjörlega óeðlilegt annað en að starfsmenn komi með fullum rétti að undirbúningi. Það verður greitt atkvæði um tillögu þess efnis. Rök ráðherra voru ekki sannfærandi í mínum huga. Hann taldi hugsanlega koma til greina með bankaráðið og vildi athuga það í samþykktum. Það mun sömuleiðis koma fram tillaga um það efni. Ég bendi á grundvallarmun í þessu máli. Bankarnir verða áfram ríkisbankar. Það er þess vegna sem það er fullkomlega eðlilegt að kveðið sé upp úr um áheyrnaraðild starfsmanna að bankaráði, einnig um fjölda bankastjóra og fjölda bankaráðsmanna. Það er þetta sem er aðalmálið. Þetta er ríkisbanki að minnsta kosti næstu fjögur árin. Ef Alþingi breytir þessum lögum þá geta þau ákvæði komið til endurskoðunar. En fyrst svo er þá er eðlilegt að löggjafinn gangi frá málinu eins og hann vill hafa það.

Hann vildi ekki lögfesta 5% dreifða eignaraðild og vísaði til einkavæðingarnefndar. Ég upplýsti í minni ræðu að einkavæðingarnefnd hefur engar hugmyndir um dreifingu á eignaraðild. Það hefur legið alveg ljóst fyrir og það er miður að ráðherra skuli ekki vilja kveða fastar að orði um það.

Ég vil hins vegar taka fram að við 1. umr. varð nokkur umræða um fyrirspurn sem hér var lögð fram og álitaefni. Þá komu fram yfirlýsingar frá ráðherra um að svara þeim og útvega gögn. Ég vil lýsa því yfir við 2. umr. málsins að fyllilega hefur verið staðið við allt af hálfu viðskrh. varðandi þann þátt. Öllum spurningum var svarað og álitaefni lögð fram eins og hægt var, skýrslur og annað, og tekið fram sérstök greinargerð þannig að þeim spurningum sem voru allar nauðsynlegar fyrir umfjöllun nefndarinnar var svarað. Hæstv. ráðherra stóð við allt sem var sagt við 1. umr. og ber að þakka þau viðbrögð og þá vinnu sem hann og hans samstarfsmenn í ráðuneytinu lögðu á sig varðandi þann þátt máls og reyndar annan undirbúning við málið sjálft.