Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 13:43:37 (5582)

1997-04-22 13:43:37# 121. lþ. 109.4 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[13:43]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Með einkavæðingu banka er lagður grunnur að enn meiri samþjöppun á fjármagni og valdi í íslensku þjóðfélagi en þegar er orðið. Í stað lýðræðislega kjörinna fulltrúa almennings í stjórn banka munu þegar fram líða stundir koma fulltrúar fjármagns. Lýðræðis-Ísland þokar fyrir fjármagns-Íslandi. Reynsla annarra þjóða sýnir að ábyrgð á fjármagnskerfinu hvílir á samfélaginu öllu þegar til kastanna kemur, óháð eignarhaldi og því eðlilegt að ábyrgð og lýðræðisleg áhrif fari saman. Með einkavæðingu ríkisbankanna er dregið úr beinum lýðræðislegum yfirráðum almennings á stjórn fjármagnskerfisins. Lýðræðis-Ísland minnkar, Ísland peningamannanna dafnar. Ríkisstjórnin er hins vegar sjálfri sér samkvæm, hún er eftir sem áður fulltrúi fjármagnsins. En hið grátbroslega er að hún segist starfa í anda nútímans þegar hún breytir rekstrarformi til þess að geta falið fyrir almenningi launakjör toppanna og starfsemi fjármagnsstofnana á Íslandi.

Það er ekki að undra að almenningur skuli vera andvígur þessari stefnu og þessum vinnubrögðum. Ég er andvígur þessari stefnu. Ég er andvígur þessum vinnubrögðum. Ég get ekki greitt þessu atkvæði. Ég sit hjá.