Hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 14:32:18 (5608)

1997-04-22 14:32:18# 121. lþ. 109.10 fundur 344. mál: #A hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis# (EES-reglur) frv., Frsm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[14:32]

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir nál. á þskj. 964 frá efh.- og viðskn. Þetta nál. er um frv. til laga um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis.

Frv. fjallar um að fullnægja skuldbindingum sem hvíla á íslenskum stjórnvöldum um að setja í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþings og ráðsins frá því í október 1994, um verndun kaupenda vegna tilskilinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á svokölluðum skiptileigugrunni. Þetta frv. tryggir betur réttarstöðu einstaklinga við slík kaup á orlofshúsnæði. Við höfum oft heyrt getið um mál sem landar okkar hafa lent í t.d. á Spáni. Þetta frv., sem er eitt af EES-málunum svokölluðu, tryggir betur rétt neytandans við slík viðskipti, setur á kvaðir varðandi slík kaup og gefur aðilum möguleika á því að ganga frá málinu innan tilskilins tíma. Það er mat okkar að hér sé um að ræða mikilvæga réttarbót auk þess sem áskilið er að við lögfestum þá þætti sem tengjast EES-samningnum.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Áslaugu Guðjónsdóttur og Skarphéðin Berg Steinarsson frá fjmrn. Einnig fékk nefndin umsögn frá Ferðamálaráði Íslands.

Nefndin leggur samhljóða til að frv. verði samþykkt óbreytt.