Hlutafélög

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 14:34:54 (5609)

1997-04-22 14:34:54# 121. lþ. 109.11 fundur 404. mál: #A hlutafélög# (EES-reglur) frv., Frsm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[14:34]

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 965 frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum um hlutafélög.

Þetta mál snýst um það að gerðar voru athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna samanburðar á ákvæðum laga um hlutafélög og félagsréttartilskipunar sem er hluti EES-samningsins. Það reyndist nauðsynlegt í kjölfar þessara athugasemda að laga okkar löggjöf með tilliti til þeirra. Þetta eru minni háttar tæknileg atriði sem varð að leiðrétta í lögunum.

Nefndin fékk á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskrn. og það fengust umsagnir frá Lögmannafélaginu, Samtökum iðnaðarins og Verslunarráði. Ég vil geta þess að laganefnd Lögmannafélagsins gerði athugasemdir við 10. gr. frv. um að ef um misræmi væri að ræða milli þess sem skráð er hjá hlutafélagaskrá og þess sem birt er í Lögbirtingablaði geti félagið ekki borið hinn birta texta fyrir sig gagnvart þriðja manni. Það var farið sérstaklega yfir þessi mál í kjölfar þessarar athugasemdar og bornir saman þeir textar sem liggja til grundvallar frv. sjálfu. Við þá skoðun kom í ljós að ákvæðið, eins og það var í frv., var í samræmi við 6. mgr. 3. gr. 1. félagsréttartilskipunarinnar sem er hluti EES-samningsins. Sambærilegt ákvæði er einnig í dönsku hlutafélagalögunum en íslensku lögin byggja að mestum hluta á þeim.

Það var niðurstaða nefndarinnar að leggja til við hið háa Alþingi að frv. verði samþykkt óbreytt.