Bókhald

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 14:39:21 (5611)

1997-04-22 14:39:21# 121. lþ. 109.13 fundur 446. mál: #A bókhald# (viðurkenndir bókarar) frv., Frsm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[14:39]

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir nál. á þskj. 978 frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum um bókhald frá 1994.

Þetta frv. snýst um það að gerð er breyting á 43. gr. laga um bókhald þannig að bætt er við ákvæðum um að í fjmrn. skuli halda skrá yfir viðurkennda bókara. Þetta snýst um að þeir sem sjá um bókhald fyrir aðra aðila og vilja öðlast opinbera viðurkenningu verða að þreyta sérstakt próf í reikningshaldi varðandi þann þátt. Til að fá þessa viðurkenningu sem bókari og verða tekinn á þessa skrá þá ber að fullnægja tilteknum skilyrðum svo sem að vera heimilisfastur, vera lögráða og hafa forræði á búi sínu og hafa staðist fyrrgreint próf sem ég nefndi hér áðan. Það er próf sem fjmrh. hlutast til um að haldin séu reglulega, í kjölfar námskeiða. Viðkomandi aðili sem fær slíka viðurkenningu sem bókari skal hafa staðist próf í bókfærslu, helstu atriðum reikningsskila og lögum og reglum um skattskil. Það skal einnig samkvæmt frv. skipa þriggja manna prófnefnd sem er ráðherra til ráðuneytis varðandi þetta mál.

Hér er lagt til í fyrsta skipti að búa til lagaramma um starf þeirra einstaklinga sem hafa atvinnu af því að færa bókhald og annast gerð reikningsskila og skattskila fyrir fyrirtæki. Hér er ekki átt við þá aðila sem hafa hlotið löggildingu sem endurskoðendur eða hafa þá menntun. Það eru fjölmargir aðilar sem stunda þessa starfsemi og er til mikils gagns í atvinnulífinu eins og hv. þm. þekkja vel til.

Nefndin fjallaði um þetta mál og fékk á sinn fund Braga Gunnarsson frá fjmrn. Hún leitaði eftir umsögnum og fékk frá Félagi bókhalds- og fjárhagsráðgjafa, svo og frá Félagi löggiltra endurskoðenda. Ég vil geta þess í sambandi við þetta að það voru uppi hugmyndir í ráðuneytinu á fyrri stigum málsins að útbúa nákvæmari löggjöf um bókara og gera þetta að löggiltri starfsgrein. Það var horfið frá þeirri fyrirætlan og ákveðið að fara styttri skref í upphafi, setja almenna löggjöf um skráningu yfir bókara og skilyrði fyrir að hljóta viðurkenningu og vera tekinn á þá skrá auk þess að sækja reglubundin námskeið. Það er ekki jafnítarleg löggjöf og hefði þurft ef um hefði verið að ræða löggildingu starfsgreinarinnar sem slíkrar en það má geta þess að Félag bókhalds- og fjárhagsráðgjafa lagði eindregið til að slík leið yrði farin. Það var hins vegar niðurstaða ríkisstjórnarinnar að leggja fram þetta stjfrv. með hinni skemmri útfærslu á þessu máli og sjá til hvernig sú löggjöf reynist áður en að hafist yrði handa við að búa til ítarlegri löggjöf um þennan þátt mála.

Eftir skoðun í nefndinni féllst nefndin á þessar röksemdir eins og þær voru bornar fram við 1. umr. málsins og leggur samhljóða til að frv. verði samþykkt óbreytt.