Uppgjör á vangoldnum söluskatti

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 14:47:14 (5613)

1997-04-22 14:47:14# 121. lþ. 109.14 fundur 438. mál: #A uppgjör á vangoldnum söluskatti# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[14:47]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér er frekar smávægilegt. Þetta eru orðnar mjög gamlar skuldir og velflestar tapaðar að fullu. Það má kannski segja að þetta skipti ekki miklu máli en það getur skipt máli í því sambandi að stundum hafa fjölskyldur hlaupið undir bagga með skuldurum og steypt sér í miklar skuldir til þess að komast hjá gjaldþroti sonarins eða dótturinnar. Þeir aðilar eru búnir að gera upp skuldir sínar og núna allt í einu á að veita einhverjum öðrum sem ekki stóðu skil á skuldum sínum sakaruppgjöf eða að gera upp skuldir þeirra. Þarna getur orðið ákaflega mikil mismunun. Ég vildi bara taka til máls og benda á að þetta getur valdið mismunum sem er ákaflega óeðlileg. Það er alltaf mjög vandasamt að gefa upp skuldir, þ.e. sumum sem hafa verið nægilega skuldseigir að ekki hafi náðst til þeirra í fjölda ára. Ég vil benda hv. þingheimi á að hér gæti komið upp nokkuð mikið misræmi nema framkvæmdin sé þeim mun vandaðri.