Uppgjör á vangoldnum söluskatti

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 14:50:25 (5615)

1997-04-22 14:50:25# 121. lþ. 109.14 fundur 438. mál: #A uppgjör á vangoldnum söluskatti# frv., Frsm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[14:50]

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Hér er einhver smámisskilningur á ferðinni. Það sem hér er verið að gera er að gera þeim sem skulda skatta frá því á árunum fyrir 1990 möguleika á að gera upp sínar skuldir. Hér er ekki verið að afskrifa neinar skuldir. Það er ekki verið að gefa neinum neitt. Það sem hins vegar er lagt upp með er ekki að er lengur beitt fullum dráttarvaxtareikningi, eins og ég nefndi hér áðan, sem leiðir til, ef tekið er tiltekið árabil, til 270% vaxta heldur mun þessi kostnaður vera um 60%. Hér skapast ekki mismunun. Þetta eru náttúlega eins og hverjar aðrar umbætur. Þegar umbætur taka gildi þá eru þær kannski ósanngjarnar gagnvart einhverjum sem áttu ekki kost á þeim fyrir þann tíma. Lífið er þannig. Og ég veit að þegar hv. þingmenn hugsa málið, þá er þetta mál þannig að hér er verið að gera eitthvað í stað þess að keyra málin endalaust í gjaldþrot. Eitt í þessu máli sem kom fram í grg. frv. tel ég rétt að upplýsa hér, þ.e. að í innheimtuferli þessara krafna hafa 362 af 478 endað með gjaldþrotaskiptum, 95 í fjárnámi og greiðsluáskoranir 21. Þannig að langflest af þeim málum sem tengjast þessum gömlu skuldum hafa endað með gjaldþroti. Hér er hins vegar verið að opna einhverjum sem vilja klára þessar skuldir með þessum hætti, leið til að geta gert það, án þess að það komi til gjaldþrotaskipta sem kallar náttúrlega á óþægindi, ekki síst fyrir einstaklinginn, en oft á tíðum hefur það ekkert í för með sér fyrir ríkissjóð. Hér er ekki um það að ræða að verið sé að afskrifa eða gefa neinum neitt. Auðvitað er þetta, eins og ég segi, eins með allar umbætur. Ef tekið er mið af þeim sem hefur gert upp sínar skuldir einhvern tíma fyrir þennan tíma og eins og reglur kváðu þá um er þetta náttúrlega nákvæmlega eins í mörgum öðrum málum. Segjum t.d. að aðflutningsgjöldum af bílum sé breytt og þau lækkuð. Þá er sá óheppinn sem keypti bíl í síðasta mánuði. Það dettur engum í hug að segja að það sé mismunun hvað þann þátt varðar.

Ég vil einnig geta þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal á sæti í efh.- og viðskn. og er aðili án alls fyrirvara á nál. sem ég gerði hér grein fyrir. Hér er ekki um að ræða mjög stórt mál. Ég held einmitt að rökstuðningurinn sem kom fram við 1. umr., og ég hef talið rétt að gera að umtalsefni við 2. umr., þótt nefndin sé sammála, um að hér sé opnaður möguleiki á því að firra einhverja einstaklinga vandræðum sem kjósa að klára sín mál á þennan hátt. Þá ég vil einnig geta þess að jafnvel þó að mál endi með gjaldþroti þá hverfa kröfurnar ekki. Fjölmargir einstaklingar eiga um sárt að binda vegna þess að þeir hafa lent í gjaldþroti, en skuldirnar lifa eftir sem áður og í sumum tilfellum eru þær endurvaktar aftur og aftur. Þetta þekkjum við. Ég tel rétt og skynsamlegt af hálfu ríkisins að koma fram með þessa leið til að reyna að draga strik undir ákveðna þróun sem átti sér stað áður en staðgreiðsla skatta var tekin upp því það eru skilin sem hér um ræðir.