Uppgjör á vangoldnum söluskatti

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 14:54:32 (5616)

1997-04-22 14:54:32# 121. lþ. 109.14 fundur 438. mál: #A uppgjör á vangoldnum söluskatti# frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[14:54]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég fagna því að fram skuli vera lagt frv. sem tekur á vandamálum fjölda manns sem er búinn að vera að berjast í skuldabasli, í þessu tilfelli í sjö ár og jafnvel mun lengur. Sumt af þessu fólki sem verið er að tala um í frv. er þegar orðið gjaldþrota og gæti hugsanlega fengið bú sitt aftur og byrjað upp á nýtt þannig að það mundi jafnvel auðvelda því að skipuleggja fjárhagslega framtíð sína eða geta séð fram á einhvern samningsmöguleika við ríkið út af svona skuldum. Það hefur nefnilega verið þannig að ríkissjóður hefur ekki haft neinar heimildir til þess að semja, hvorki um vexti né höfuðstól, við skuldara þannig að menn hafa verið keyrðir í gjaldþrot þó svo ríkið hafi í raun átti betri kosti, þ.e. að semja við fólkið um niðurfellingar á mjög óeðlilega háum dráttarvöxtum og alls konar kostnaði. Ég kalla það ekki mannvæna stefnu að það sé fyrsta og síðasta markmiðið að koma fólki í gjaldþrot sama hvað tautar og raular. Mér finnst að þarna sé þó stigið skref til þess að reyna að leiðrétta þetta og fagna því að þetta frv. sé komið fram. Ég á ekki von á því að það muni leiða til neinnar mismununar. Þeir sem hafa lent í gjaldþroti geta náð sér á strik aftur. Þeir sem hafa verið að basla með þetta í sjö ár og jafnvel lengur, eygja einhverja von um að lenda ekki í gjaldþroti þannig að ég held að hér sé gott mál á ferðinni.