Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 16:11:30 (5626)

1997-04-22 16:11:30# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 1. minni hluta EOK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:11]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 940, 408. mál, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

Þetta mál er eiginlega samstofna málinu sem við ræddum í gær um að gera ríkisbankana, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, að hlutafélögum. Þetta ásamt þriðja málinu, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, er raunverulega allt af sama meiði þannig að flest hin sömu rök og áttu við þá eiga við hér um. Hér er verið að taka allar þessar fjármálastofnanir ríkisins og gera um þær nýja skipan.

Eins og kom fram í gær er það nú vitað að þessi mál hafa verið mjög lengi í deiglunni. Menn hafa velt þeim mjög lengi fyrir sér og sýnist að sjálfsögðu sitt hverjum á hvern veg þeim væri best varið. Þó sýnist mér af störfum nefndarinnar, svo og af umræðum um viðskiptabankana í gær að það sé mjög á eina lund að þingheimur sé þeirrar skoðunar að breyting verði ekki umflúin og sé orðið mjög nauðsynlegt að gera hana. Reyndar held ég að flestir séu þeirrar skoðunar að tafir á því að breyta þessum málum séu þegar búnar að valda miklu tjóni.

Einstaka aðilar í þinginu hafa alltaf verið á móti því að einkavæða ríkisstofnanir og sá ofsjónum yfir því. Það eru eins konar leifar frá hinum gamla sósíalisma sem hrjáði þetta land langt fram eftir þessari öld og ekkert við því að gera í sjálfu sér. Allir þeir sem fylgjast með vita að Ísland verður og á að breyta þessum ríkisstofnunum í opin félög sem starfa á þessum fjármálamarkaði sem nú er orðinn galopinn og verður opinn um alla Vestur-Evrópu og allan heim, þvert ofan í þá skipan mála sem við höfum hér svo lengi fram eftir öldinni og var efnahagslífi þessarar þjóðar til svo mikils tjóns sem flestir ættu að þekkja.

Efh.- og viðskn. fékk mikinn fjölda manna til að ræða þessi mál við sig og eru það allir þeir hinu sömu og getið var um í gær þegar við fórum yfir viðskiptabankana. Við fengum líka skriflegar umsagnir frá mjög mörgum aðilum, frá Búnaðarbanka Íslands, Bændasamtökum Íslands, Eignarhaldsfélaginu Hofi sf., Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði, Iðnþróunarsjóði Íslands, Íslandsbanka hf., Íslenskum sjávarafurðum hf., Landsbanka Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sambandi íslenskra sparisjóða, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Sjóvá-Almennum hf., Tryggingamiðstöðinni hf., Vátryggingaeftirlitinu, Vátryggingafélagi Íslands hf., Verslunarráði Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.

[16:15]

Nefndin taldi sig vinna þetta af mikilli kostgæfni og fara yfir þessi álit öll. Það er niðurstaða 1. minni hluta efh.- og viðskn. að það séu ákaflega litlar breytingar sem eigi að gera á frv. frá því það var lagt fram.

Brtt. eru á þskj. 941 og fyrsta tillagan er við 4. gr.

Í a-lið 1. tölul. brtt. er lagt til að ákvæði um að hámarkshlutfall heildarstofnhlutafjár af eigin fé sjóðanna sé 75% verði fellt brott. Viðskiptaráðherra verði þannig óbundinn við ákvörðun heildarfjárhæðarinnar.

Í b-lið 1. tölul. er lagt til að sambærileg nefnd verði sett á stofn til að meta heildarfjárhæð stofnhlutafjár í bankanum og gert er ráð fyrir í 5. gr. frv. til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands eins og við ræddum hér í gær og gert var ráð fyrir. Þá er jafnframt lagt til að ákvæði um undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda í 3. mgr. 4. gr. verði fellt brott. Þetta eru nákvæmlega sömu brtt. og við lögðum fram í gær um viðskiptabankana.

Í öðru lagi gerum við tillögur um breytingar á 14. gr. með hliðsjón af athugasemdum sem fram komu í umsögn Seðlabanka Íslands um málið.

Efh.- og viðskn. fékk Kaupþing til að meta áhrif þess á arðsemi þessa væntanlega fjárfestingarbanka ef eigið fé væri minnkað. Kaupþing hf. gerði skilmerkilega grein fyrir því og niðurstaðan varð sú að 1. minni hluti leggur til að heildarfjárhæð eigin fjár verði minnkuð um 1 milljarð kr. frá því sem gert var ráð fyrir þegar frv. var upphaflega lagt fram. Niðurstöðurnar sýna að markaðsverð bankans lækkar aðeins um 350 millj. kr. við þetta. Það liggur sem sagt fyrir og niðurstöðurnar eru þær að flestar þær stofnanir sem starfa á þessum markaði reyna að hafa eiginfjárhlutfallið ekki of hátt. Yfirleitt virðist það vera þannig að menn séu með 10--12% eiginfjárhlutfall til að reyna að ná sem mestri arðsemi.

Það er niðurstaða 1. minni hluta nefndarinnar, eftir ítarlega umfjöllun innan nefndarinnar, að draga beri úr sterkri eiginfjárstöðu hins nýja fjárfestingarbanka frá því sem lagt hefur verið upp með. Nefndin lét reikna út fyrir sig nokkrar tillögur í þá átt og var niðurstaðan sú að lækkun um 1 milljarð kr. kæmi hvað best út. Þannig verður bankinn arðvænlegri eign og fýsilegri fjárfestingarkostur. Hagsmunum bankans yrði engu að síður vel borgið þegar tekið er tillit til breyttra rekstrarforsendna samfara lækkun eigin fjár, vaxtakostnaðar og hækkunar vaxta af nýjum lánum. Upplýsingar frá aðilum sem komu á fund nefndarinnar staðfesta það. Það var eins og fyrr var getið Kaupþing. Búist er við að markaðsverð bankans lækki einungis um 350 millj. kr. þrátt fyrir 1 milljarðs kr. lækkun eigin fjár. Ríkið, sem eigandi bankans, verður því betur sett um 650 millj. kr. eftir slíka aðgerð. Jafnframt er það tillaga 1. minni hluta að sá milljarður sem þannig sparast verði nýttur til áhættufjármögnunar og þá einkum til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni, en um þessar mundir er nauðsynlegt að grípa til slíkra aðgerða á landsbyggðinni til að vega á móti sterkri verkefnastöðu á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni. Í breytingartillögum, sem lagðar eru fram samhliða þessum við frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, er gert ráð fyrir að þeim sjóði verði falið að sjá um þessa fjármuni.

Nánar verður gerð grein fyrir þeim tillögum þegar það frv. kemur til umræðu í nefndinni. Þetta eru sem sagt þær litlu breytingar sem 1. minni hluti leggur til. Ég held, herra forseti, að það sé ekki ástæða til að hafa um það fleiri orð að sinni.