Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 16:20:40 (5627)

1997-04-22 16:20:40# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 2. minni hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:20]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Í flestum málum er ég sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni en í þessu máli verður ákveðinn mishljómur sálna. Ég er því með þrjár spurningar til hv. þm.

1. Er hv. þm. ánægður með að hér skuli stofnaður nýr ríkisbanki eftir þær ræður sem hann hefur hingað til haldið um ríkisbanka?

2. Er hann sáttur við að einungis 49% af bankanum skuli vera seld?

3. Ef tekst að selja 49% og lokka fé frá einstaklingum og fyrirtækjum inn í þennan banka, er hann þá sáttur við að ríkið hafi meiri hluta og þar með séu áhrif og völd ríkisins aukin enn frekar frá því sem verið hefur? Fyrir utan að búist er við að þessi banki muni fara inn á þau svið sem aðrir bankar starfa á og valdi enn meiri samkeppni á því sviði með tilstilli og völdum ríkisins.

Síðan er ég með spurningu. Það voru þrjár leiðir sem komu til greina. Í fyrsta lagi að stofna hlutafélag um hvern sjóð og selja á markaði, sem hefði þá væntanlega þýtt það að fyrirliggjandi bankar hefðu keypt þessi hlutafélög. Í öðru lagi hreinlega að innlima eða selja rekstur þessara sjóða til einhverra af þeim bönkum sem fyrir eru. Í þriðja lagi var svo þessi leið sem af mörgum er talin lökust. Hvaða leið af þessum þremur telur hv. þm. að sé best?