Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 16:22:28 (5628)

1997-04-22 16:22:28# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 1. minni hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:22]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef skilið fundarsköp Alþingis á þann veg að komi hér andsvör við ræðum manna þá hafi menn tvær mínútur til að svara þeim. Nú komu þrjár spurningar og þrjár að auki sem ég held að ég gæti alveg svarað. Það mundi taka einn til einn og hálfan klukkutíma. Ég vona að fyrirspyrjandi virði það við mig þó að ég vilji ekki reyna að svara þessu á tveim mínútum eða einni og hálfri mínútu. Ég skal athuga það seinna í umræðunni hvort rétt sé að fara að eyða tíma Alþingis í það að ég fari í almennar yfirlýsingar og almennar umræður hér fram og til baka um stöðu bankamála og hvernig þeim væri best skipað. Fyrirspyrjandi veit að ég hef ýmsar meiningar þar að lútandi.

Ég býst við að seinna í umræðunni komi ég og tali, ég skal þá athuga hvort ekki sé rétt að fara aðeins yfir þessar spurningar hans þó að ég efist um að ég telji það svara kostnaði að fara í ítarlegar umræður um þetta. Það tekur langan tíma að svara þessu. En ég mun kannski athuga það seinna.