Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 16:44:57 (5634)

1997-04-22 16:44:57# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:44]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir nál. 3. minni hluta efh.- og viðskn. Minni hlutarnir urðu þrír í efh.- og viðskn. Stjórnin klofnaði í málinu, eins og fram hefur komið, í 1. og 2. minni hluta. Þeim tókst ekki að ná samstöðu í málinu. Að áliti 3. minni hluta sem ég geri hér grein fyrir standa auk mín hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson.

Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti. Hér stendur stjórnarandstaðan saman í afstöðu gagnvart þessu frv. ríkisstjórnarinnar.

Frv. um fjárfestingarbanka atvinnulífsins á sér vitaskuld forsögu. Við höfum um nokkurra áratuga skeið búið við tvískipt lánakerfi aðallega í opinberri eigu og umsjón. Það er annars vegar á sviði viðskiptabankanna og hins vegar á sviði fjárfestingarlánasjóða. Við höfum búið við sérstaka fjárfestingarlánasjóði um mjög langa hríð. Þessir fjárfestingarlánasjóðir hafa verið atvinnugreinatengdir. Þeir sjóðir eru helstir: Fiskveiðasjóður Íslands, Iðnlánasjóður og Stofnlánadeild landbúnaðarins og þeir greinast eftir þremur atvinnuvegum, þ.e. sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði. Þessu til viðbótar hefur Iðnþróunarsjóður verið starfræktur lengi, sem á sér reyndar nokkuð annað upphaf eða sem samstarfsverkefni Norðurlanda á sviði lána til iðnaðar. Þetta frv. gerir ráð fyrir að einn banki sé búinn til úr þremur af þessum sjóðum, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. eins og hann heitir. Það lýsir ef til vill í fyrstu mjög vel afstöðu ríkisstjórnarinnar að landbúnaðurinn fær nú ekki þann sess sem honum ber að vera talinn til manna þegar kemur að uppstokkun fjárfestingarlánasjóðanna. Stofnlánadeild landbúnaðarins er ekki inni í þessu umhverfi með öðrum helstu lánasjóðum heldur hefur ríkisstjórnin flutt sérstakt frv. um lánasjóð landbúnaðarins þar sem viðhaldið er enn því kerfi í lánamálum sem landbúnaðurinn hefur lengi búið við. Það má segja að kveikjan að því að taka þessa þrjá sjóði hafi orðið þegar Iðnþróunarsjóður komst allur í eigu Íslendinga og finna þurfti þeim sjóði farveg. Einnig hefur nokkuð mikil umræða orðið undanfarin ár um eignarhald á þessum sjóðum.

Þriðji minni hluti telur nauðsynlegt að stokka upp fjárfestingarlánasjóði atvinnulífsins. Þriðji minni hluti er sammála öðrum þingmönnum, vel flestum, um að atvinnugreinaskipting fjárfestingarlánasjóða sé ekki lengur skynsamleg útfærsla. Við höfum hins vegar lagt til allt aðra hugmyndafræði við þá uppstokkun en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir. Búið er að reyna nokkrum sinnum að taka þessa fjárfestingarlánasjóði og færa þá annaðhvort saman eða í annan farveg. Það hefur ekki tekist m.a. vegna ágreinings um eignaraðild. En aðilar í sjávarútvegi hafa sumir haldið því fram að þar sem þeir hafi greitt hluta og tekið þátt í því með viðskiptum að byggja upp eigið fé Fiskveiðasjóðs, þá ættu þeir jafnframt hluta í honum þrátt fyrir að skýrt segi í lögum um Fiskveiðasjóð að hann sé eign ríkisins. Ýmsir forsvarsmenn sjávarútvegsins hafa haldið þessu fram. Hins vegar ber að geta þess að í einni umsögn sem barst efh.- og viðskn. tóku Íslenskar sjávarafurðir hf. af öll tvímæli í því efni, þ.e. að ríkið og ríkissjóður ætti Fiskveiðasjóð. Sama deila var uppi varðandi Iðnlánasjóð og tengdist reyndar Iðnþróunarsjóði líka að ýmsir forsvarsmenn iðnaðarins héldu því fram að með þátttöku sem viðskiptaaðilar og að hluta til sem greiðsluaðilar inn í sjóðinn um langt árabil hefðu þeir öðlast hlut í eign sjóðsins. Þessi ágreiningur hefur tafið uppstokkunina um langa hríð.

Ríkisstjórnin hefur náð samkomulagi við þau hagsmunasamtök um eignarhald á þessum sjóðum. Það gerist á þann hátt að sjóðirnir þrír eru sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í fullri eigu ríkisins en þessi samtök fá hins vegar í sinn hlut tiltekið stjórnarsæti bæði í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóði sem er nátengdur þessari uppstokkun.

Nú ber vitaskuld að skoða frv. ríkisstjórnarinnar og þá umfjöllun sem efh.- og viðskn. veitti þessu máli fyrst og fremst út frá einu sjónarmiði. Er þessi tímabæra uppstokkun skynsamleg? Er lagt upp með skipulag sem horfir til framtíðar og mun reynast árangursríkt við eflingu atvinnulífs hér á landi?

Miklar efasemdir komu fram við 1. umr. þessa máls um að svo væri. Við stjórnarandstæðingar bentum á að sú uppstokkun væri hlutur sem stangaðist á við nýjustu þróun í nágrannalöndunum og það er ef til vill meginatriðið í málinu. Sú aðferðafræði sem ríkisstjórnin leggur upp með, þ.e. að sameina þessa þrjá fjárfestingarlánasjóði í einn nýjan ríkisbanka er þvert á þróunina í Vestur-Evrópu hvað þá ef víðar er leitað. Alls staðar í kringum okkur hefur þróunin orðið sú að menn hafa horfið smátt og smátt frá sérhæfðum fjárfestingarlánasjóðum, frá sérmerktum fjárfestingarlánasjóðum. Landamæri milli atvinnugreina, landamæri milli fyrirtækja og reyndar landamæri milli landa hafa verið að breytast og falla undanfarin ár og fjármálaheimurinn hefur tekið ríkan þátt í þeirri endurskipulagningu. En ekki íslensku fjárfestingarlánasjóðirnir --- þá er notuð aðferðafræði gærdagsins. Þá eru þessir þrír sjóðir teknir og búinn til einn nýr ríkisbanki og þeim hagsmunaaðilum klesst saman sem ríkisstjórnin vill helst styðjast við við framkvæmd sinnar pólitísku stefnu og því baklandi, sem hún vill gjarnan eiga á flokkslegum grunni út í atvinnulífinu. Því er hrært saman í hefðbundinn sjóð þar sem skiptast á pólitískir valdhafar og vald sem sótt er til vinveittra fyrirtækja eða hagsmunafélaga. Þetta er gamalkunnugt. Þetta er ekkert nýtt og hefur verið gert oft áður með nákvæmlega sömu aðferðafræðinni af hálfu þessara tveggja stjórnarflokka, Sjálfstfl. og Framsfl.

Herra forseti. Í frv. er engin tilraun gerð til að líta á myndina í heild og skoða fjármálaumhverfið hér á landi og með hvaða hætti fjárfestingarlánasjóðir og viðskiptabankar og jafnvel aðrir aðilar gætu komið að skynsamlegri endurskipulagningu. Það er ekki lagt upp með neina heildarsýn á sviðið. Og það var aldrei meiningin af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera það.

Nú getur vel verið að ríkisstjórnin hafi einfaldlega ekki undirbúið málið nógu vel eins og oft vill verða þegar stór og mikilvæg mál eru lögð fram. Síðan mundi verða treyst á að bakland stjórnarflokkanna í viðkomandi þingnefnd mundi breyta málum til betri vegar og koma með fullbúið og skynsamlegt frv. að lokinni 1. umr., þ.e. til 2. umr., sem hér er að hefjast um málið. Það hefur oft komið fyrir, herra forseti, að þingnefnd hafi vandað umfjöllun þannig að gjörbreytt frv. hafa komið fram til 2. umr. vegna þess að bakland stjórnarflokkanna hefur þurft að bæta nokkuð úr þeim undirbúningi sem var af hálfu viðkomandi ráðherra. Er eitthvað slíkt á ferðinni núna? Voru gerðar einhverjar betrumbætur, einhverjar umbyltingar í frv. um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins? Það er síður en svo. Það eru örfáar, tvær til þrjár brtt. gerðar og gerð var grein fyrir þeim af framsögumanni 1. minni hluta efh.- og viðskn., hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Framsaga hans fyrir nál. fólst aðallega í því að telja upp þá aðila sem sent höfðu inn umsagnir til nefndarinnar. (Gripið fram í.) Þá aðila sem sendu umsagnir til nefndarinnar. Ekki þær persónur sem komu á fund nefndarinnar. Hann sleppti því þegar hann gerði grein fyrir þessu áliti en hins vegar las hann það skilmerkilega þegar hann gerði grein fyrir nál. um breytingu bankanna í hlutafélög. Þá var uppistaðan í máli hans upplestur á nöfnum umsagnaraðila. Þetta segir betur en margt annað hvaða vinnubrögð hér eru á ferðinni. Tvær skýringar gætu verið á því. Að málið hefði verið svo afburða vel unnið af hálfu hæstv. viðskrh. að mjög erfitt hefði verið að betrumbæta það. Þrátt fyrir að frjóir heilar séu í efh.- og viðskn., eins og hv. formaður nefndarinnar hefur látið hafa eftir sér á opinberum vettvangi, hafi þeir ekki getað fundið neitt sem betur mætti fara í málinu. Það gæti verið önnur skýringin á því hversu fátæklegar tillögur meiri hlutans eru á milli 1. og 2. umræðu. Hin skýringin sem er nærtækari er sú að búið var að handjárna stjórnarliðið við frumvarpsgerðina, við útfærsluna, við hagsmunagæsluna, við störfin og stöðurnar sem fylgja í kjölfarið á þessari uppstokkun. (Gripið fram í.)

Það er augljóst í upplegginu að ekki mátti hreyfa við neinu. Af hverju mátti ekki hreyfa við neinu? Það er greinilegt að átt hafa sér stað þannig samtöl milli stjórnarflokkanna varðandi framhald á málinu. Þetta á bæði við um bankana, Fjárfestingarbankann og Nýsköpunarsjóðinn. Það er ekki tilviljun, herra forseti, að fyrr í dag voru felldar allar tillögur stjórnarandstæðinga sem gengu út á það í sambandi við uppstokkun í ríkisbankakerfinu að kveða skýrar á um stjórnarfyrirkomulagið í þeim bönkum. Allar tillögur voru felldar um að starfsfólk fengi einhverja aðkomu að málinu. Látum það nú vera. Það er þeirra hefðbundna afstaða, en felldar voru allar tillögur um að ákveða hve margir sætu í bankaráðum, allar tillögur voru felldar um að ákveða að einungis yrði einn bankastjóri, allar tillögur stjórnarandstæðinga voru felldar um að hafa skýrari línur í stjórnskipulagi bankanna. Það er nákvæmlega það sama uppi um þetta frv. Af hverju vilja þeir ekki hafa skýrar línur um þetta? Af hverju vilja þeir bíða samþykkta viðkomandi hlutafélaga sem eru gerðar að tillögu viðskrh.? Jú, herra forseti, það er vegna þess að þetta snýst um völd, peninga og stöður. Stjórnarflokkarnir vilja hafa frjálsar hendur við þær breytingar sem þeir ætla sér að gera í kjölfarið á samþykkt frv.

[17:00]

Engin tilraun var gerð í efh.- og viðskn. af hálfu meiri hlutans að reyna að líta heilsteypt á málið. Að líta á málið út frá þeirri þróun sem er að gerast í Vestur-Evrópu í sambandi við uppstokkun á fjárfestingarlánasjóðum. Stjórnarliðarnir rígnegldu sig við frv. eins og það var og handjárnuðu hver annan við útfærslu viðskrh. og ríkisstjórnarinnar. En nú kom aftur í ljós framsýni hæstv. forsrh. þegar hann myndaði þessa ríkisstjórn og verið var að ræða hvort ekki væri óþarflega í lagt að mynda ríkisstjórn tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna, því uppi voru, ef ég man rétt, einhverjir aðrir a.m.k. tölulegir möguleikar á stjórnarmyndun, þá sagði hæstv. forsrh.: Það gæti nú verið gott að eiga nokkur varadekk ef þyrfti að grípa til þeirra. Hæstv. forsrh. er framsýnn maður og hefur séð þetta allt saman fyrir vegna þess að nú þurfa stjórnarliðarnir í hverju málinu á fætur öðru að grípa til varadekkjanna. Og það er dálítið merkilegt að varadekkið er að springa hjá stjórnarliðunum núna, því stundum springa varadekk. Auðvitað eru menn bundnir af sinni samvisku hér í þingsölum, það er ekki málið og oft fylgja menn ekki sínum stjórnarflokkum eða þingflokkum, stundum vegna samvisku sinnar, stundum vegna þess að keyrt er yfir hagsmuni þeirra en stundum einfaldlega vegna þess að þeim ofbýður sú óskynsemi sem viðkomandi flokkar leggja upp með. Og það var í þessu tilfelli.

Tveimur þingmönnum sem ekki fylgja þessu máli ofbauð sú útfærsla sem ríkisstjórnin lagði upp með. Og tilviljunin er sú að báðir þessir þingmenn sem hafa gefið sig upp sem andstæðinga þessa frv. sitja í efh.- og viðskn. Það var því í fyrsta skipti í vetur sem ekki var meiri hluti fyrir stjfrv. í efh.- og viðskn. og það er meiri hluti nefndarinnar sem leggur til að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar.

Pétur H. Blöndal gerði grein fyrir áliti 2. minni hluta og rökstuddi það alveg ágætlega. Hann leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar sem er sama tillaga og við í 3. minni hluta, þ.e. þingmenn þingflokks jafnaðarmanna, Alþb. og óháðra og Samtaka um kvennalista leggjum til. Það er meiri hluti í efh.- og viðskn. fyrir því að vísa málinu til betri úrvinnslu hjá ríkisstjórninni. Fyrsti minni hluti, sem eru fjórir þingmenn stjórnarliðanna, leggur hins vegar til að máli verði samþykkt.

Yfirleitt er nokkur metnaður hjá þingflokkum að velja inn í fagnefndir þá aðila sem kunna einna best skil á málefnum sem þar eru til umfjöllunar. Í öllum þingnefndum er valinn maður í hverju rúmi eftir áhugamálum, sérþekkingu og öðru slíku. Þetta þekkja þingmenn. Þeir þingmenn stjórnarliðsins sem hér geta ekki fylgt stjfrv. eru sérfræðingar þingflokka sinna á þessu sviði. Annars vegar hv. þm. Pétur H. Blöndal sem gerði grein fyrir áliti sínu og hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar. Nú fara skoðanir mínar og hv. þm. Péturs H. Blöndals ekki alltaf saman og í grundvallaratriðum ekki. Hins vegar kunnum við báðir nokkur skil á atvinnulífinu, fjármálaumhverfi og skipulagi á því sviði. Sama á við hv. þm. Gunnlaug Sigmundsson, sérfræðing Framsfl. á þessu sviði. Ég man ekki eftir neinum öðrum í þeim þingflokki sem kann skil á rekstri, atvinnulífi og öðru slíku og hafi reynslu á við Gunnlaug Sigmundsson, einfaldlega vegna þess að hann hefur starfað lengi í því umhverfi. Ég man ekki eftir því. Þeir eru nú reyndar nokkrir --- örfáir í þingflokki Sjálfstfl. sem geta státað af svipaðri reynslu og Pétur H. Blöndal en ég man ekki í fljótu bragði eftir að svo sé innan þingflokks Framsfl.

Það hlýtur því að liggja eitthvað mikið við þegar ekki er tekið neitt mark á ábendingum þessara þingmanna. --- Herra forseti. Nú eru nokkuð háværar samræður í hliðarsal og væri gott að vita hvenær þeim lýkur eða hvort þeim lýkur.

(Forseti (GÁS): Mér heyrist róstur lægja.)

Það hljóta því að vera ærnar ástæður fyrir því að þingflokkar Sjálfstfl. og Framsfl. vilja ekkert hafa með sjónarmið þessara manna að gera í málinu. Þeim er alveg sama um það einfaldlega vegna þess að þeir hafa traustan þingmeirihluta fyrir þeirri útfærslu sem þeir leggja til. Ástæðan er einföld. Þeir hafa náð saman um helmingaskiptareglu sína sem hefur verið hér í nokkuð marga áratugi, þ.e. að tryggja pólitísk völd sinna flokka og tengdra fyrirtækja. Þetta rímar allt. En þegar það er hins vegar gert á kostnað árangursríks skipulags í lánamálum þá er það ekki einkamál Sjálfstfl. og Framsfl. Það er ekki einkamál ríkisstjórnarflokkanna ef þeir koma upp slæmu skipulagi. Og það er e.t.v. þetta sem gerði það að verkum að hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson gátu ekki fylgt sínum stjórnarflokkum í þessu efni jafnvel þó að einhverjir teldu að hér væri hænuskref, smáskref stigið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lýst því skilmerkilega að skrefin séu nú stundum dálítið stutt sem ríkisstjórnin hans stígur en hann rökstuddi einmitt stuðning sinn við hlutafjárvæðingu bankanna að það væri þó skref þó ekki væri það stórt. Og það er sjónarmið sem ber að virða. Sumir segja að ef maður stígi ekki nógu langt skref og geri ekki nógu róttækar breytingar skulum við leggjast gegn breytingunum því smáskrefið frestar frekari framþróun. Sú skoðun er líka til og á líka rétt á sér.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, sem er reyndar ekki á þingi þessa stundina, töldu að þetta litla skref gæti hugsanlega tafið frekar fyrir uppstokkun. Þeir vilja frekar standa með okkur stjórnarandstæðingum í því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og reyna að freista þess að það fái betri umfjöllun.

Við í 3. minni hluta eða stjórnarandstæðingar teljum nauðsynlegt að breyta fjárfestingarlánasjóðunum. Það er ekki svo að okkar afstaða sé að viðhalda kerfinu eins og það er núna, síður en svo. Hins vegar teljum við rétt að taka þessa þrjá sjóði sem eru í eigu ríkisins og færa þá inn í viðskiptabankakerfið. Þetta hefði verið miklu skynsamlegri leið en að búa til einn fjárfestingarbanka --- einn nýjan ríkisbanka í viðbót. Og það eru rök fyrir þessari útfærslu, fyrir þessari hugmynd. Þetta er ein af þremur hugmyndum sem hefur verið rædd í sambandi við endurskipulagningu fjárfestingarbankanna.

Ein hugmyndin, svo ég reki þær, er að fara þá leið sem frv. gerir ráð fyrir, að stofna nýjan ríkisbanka. Önnur leiðin er að breyta sjóðunum í hlutafélög og selja þá á opnum markaði og láta þá sem fyrir eru slást um það. Sumar fjármálastofnanir hafa talað fyrir því. Þriðja leiðin er þessi sem við höfum talað um, þ.e. að taka fjárfestingarsjóðina, fella þá skipulega inn í viðskiptabankana og gera þá að öflugri einingu, því það er einmitt það sem málið snýst um. Það er ekki einungis að með því værum við að gera mjög svipaðan hlut og þróunin hefur verið í nágrannalöndunum heldur værum við að efla fjármálaumhverfið í atvinnulífinu. Vegna þess að ríkisviðskiptabankarnir eru ekki sterkar stofnanir. Landsbanki Íslands sem er stærsti viðskiptabankinn, en eigið fé hans er 6 milljarðar, hefur margoft á undanförnum árum þurft að fá sérstaka aðstoð af hálfu ríkisins við það að uppfylla með fjárframlögum og öðrum aðgerðum alþjóðlegar kröfur um eiginfjárhlutfall. Búnaðarbankinn er mun betur staddur. Eigið fé hans er hins vegar ekki nema 4 milljarðar. Þetta eru ekki mjög sterkar fjármálalegar stofnanir. Það er erfitt að leggja mat á þessa banka. Ef þeim væri breytt í hlutafélög og þeir seldir á markaði væri markaðsverðið e.t.v. eitthvað svipað eigið fénu, það er ekki gott að segja. En við sjáum að þetta eru ekkert mjög sterkar stofnanir. 4--6 milljarðar er ekkert sérstakt markaðsverðmæti á íslenskum hlutabréfamarkaði. Og jafnvel þótt við færðum þetta verðmæti kannski upp um 50%, segðum að Landsbanki væri 8--9 milljarðar, Búnaðarbanki 5--6 milljarðar, þá gætum við borið það saman við t.d. Eimskipafélag Íslands en markaðsvirði Eimskipafélagsins eru 16 milljarðar, markaðsvirði Íslandsbanka eru 10 milljarðar, markaðsvirði Flugleiða eru tæpir 9 milljarðar --- bara til að hv. þm. hafi nokkra hugmynd um þessi hlutföll. Markaðsvirði þeirra 35 félaga sem eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands er um 110 milljarðar kr. Það hefði því verið mjög brýnt að styrkja þessar fjármálastofnanir einmitt til að geta tekist á við samkeppni sem hugsanlega blasir við erlendis frá á fjárfestingarlánaumhverfinu. Eigið fé sjóðanna þriggja er um 8--9 milljarðar og þeir hefðu hjálpað þessum bönkum verulega.

Ef þessi leið hefði verið farin hefðum við haft hér mjög lífvænlegar einingar. Við hefðum haft ríkisviðskiptabanka sem væru sterkir og stæltir, sem hefðu haft tengsl inn í fjárfestingarlánaumhverfið. Við erum ekki að tala um að þetta hefði endilega þurft að gerast þannig að þetta hefði allt farið inn í Landsbanka og Búnaðarbanka. Það hefði vel mátt hugsa sér einhverja aðra aðkomu að því og minni ég t.d. á óskir sparisjóða og Íslandsbanka sem voru uppi á tímabili að komast inn í kaup á tilteknum fjárfestingarlánasjóðum. Með þeirri hugmyndafræði, sem við í stjórnarandstöðunni leggjum upp með, erum við að horfa á málið í heild sinni. En í stað þess fer ríkisstjórnin þessa leið, er raunverulega með í höndunum þrjár ríkisstofnanir eða ríkisfyrirtæki, einn fjárhagslega máttvana banka sem er Landsbanki Íslands hf., annan þokkalega vel staddan viðskiptabanka, Búnaðarbanka Íslands hf., og þann þriðja Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. sem er sjóður --- tímaskekkja, þokkalega vel útbúinn með eigið fé en starfandi á mjög afmörkuðu og þröngu sviði. Þetta er engin endurskipulagning til framtíðar.

[17:15]

Undanfarin ár hefur starfsemi viðskiptabanka í Evrópu víkkað í átt að þeirri starfsemi sem hingað til hefur verið meira eyrnamerkt fjárfestingarlánabönkum. Og við sjáum að þetta sambýli banka og fjárfestingarlánasjóða getur gengið alveg prýðilega hér á landi. Við höfum dæmi um það. Fjórði stærsti fjárfestingarlánasjóðurinn hérlendis, sem er ekki í þessari uppstokkun, er Verslunarlánasjóður, og hann er rekinn af Íslandsbanka. Þetta er að vísu ekki eitt fyrirtæki en þetta er rekið hlið við hlið og gengur ágætlega og rekstrarkostnaðurinn er lágur. Og af því að þetta er gert í nánum tengslum við viðskiptabanka nýta þeir kosti sambýlisins til hins ýtrasta. Við skulum hafa það í huga, þeir sem til þekkja, að einmitt rekstrarárangur Íslandsbanka á síðasta ári og kannski næstsíðasta ári hefur gert það að verkum að hann hefur skotist vel fram úr hinum viðskiptabönkunum. Það var ekki áður. Hann var jafnslappur og hinir en hann rétti sig verulega við í fyrra og reyndar aðeins árið þar á undan. Þannig að Íslandsbanki sigldi fram úr þessum bönkum. Þetta er til umhugsunar fyrir þá sem vilja viðhalda ríkisbönkunum áfram, eins og hér hefur komið fram. Það er miklu mikilvægara að skapa lífvænlegar einingar í þessari uppstokkun en að tryggja flokkslega hagsmuni sem er meginmarkmið ríkisstjórnarflokkanna.

Við sjáum það þegar við skoðum frv. um Fjárfestingarbankann, sem ekki breyttist í meðferð nefndarinnar að neinu leyti. Það er raunverulega bara einn flokkur í löggjöfinni í frv. sem er hugsaður í gegn. Það er ekki útlánastefnan, það er ekki uppbygging á lánum, það er ekki starfsemin eða starfsumhverfið, það eru ekki sérstök eða ítarleg ákvæði um það. Nei, en það eru ítarleg ákvæði um hvernig á að skipa í stjórnir. (KÁ: Það er aðalmálið.) Það er ekkert hægt að lesa á milli lína þar. Þar er allt skýrt hugsað og haft langt mál um og ef það dugar ekki í frv. þá er fjallað um það í grg. Þeir segja um stjórnarsetuna að þar skuli fimm manns sitja. Iðnrh. og sjútvrh. tilnefna fimm stjórnarmenn og tveir þeirra eru sérstaklega tilnefndir af samtökum atvinnurekenda í tilteknum starfsgreinum, þ.e. sjávarútvegi og iðnaði. Eru samtökin í sjávarútvegi, Landsamband ísl. útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva fagsamtök? Eru þetta samtök með sérþekkingu til fjárfestinga? Eru þetta samtök sem kunna mjög vel skil á nýsköpun og öðru slíku? Nei, þetta eru vinnuveitendafélög. Atvinnurekendur í sjávarútvegi og það er þeirra aðalstarf. Þeir gera það reyndar ágætlega, annað þeirra semur fyrir útgerðarmenn en hitt semur fyrir eigendur fiskvinnslufyrirtækja. Hvor tveggja samtökin eru ráðandi aðilar í Vinnuveitendasambandinu, vinnuveitendafélög, ekkert betri eða verri fyrir það en það er þeirra meginstarfsemi. Það er ekki lánastarfsemi, ekki útlánastarfsemi eða sérhæfð þekking sem býr í þessum samtökum um skipulag fjárfestinga eða fjármálasviðsins. Um það sem kemur frá Samtökum iðnaðarins gegnir alveg sama máli. Samtök iðnaðarins eru vinnuveitendasamtök iðnfyrirtækja og einn sterkasti aðilinn í Vinnuveitendasambandinu. Nú er það ekki svo að öll sjávarútvegsfyrirtæki séu í þessum sjávarútvegssamtökum og það eru ekki öll iðnfyrirtæki í iðnsamtökunum. Hér er á ferðinni það sem ég gat um áðan, þegar deilurnar um eignaraðildina voru, að þeir hafa fallið frá öllum kröfum um eignaraðild að þessum sjóðum, sem var nú kannski vafasamt að þeir hefðu einhverjar réttmætar kröfur á. Í stað þess fá þeir margrtyggða stjórnarsetu með þessum lögum. Svo er hægt að velta því fyrir sér að hve miklu leyti hlutirnir ganga stjórnsýslulega upp, en það er annað mál.

Herra forseti. Augljóst er að þessi útfærsla tryggir Sjálfstfl. og Framsfl. flokkslega hagsmuni í opinberum sjóðum. Einfaldlega vegna þess að forustumenn þessara samtaka eru frammámenn í þessum tveimur stjórnmálaflokkum. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar forustumenn fyrirtækja hér á landi sem eru ekki nátengdir annaðhvort Sjálfstfl. eða Framsfl. Þeir eru ekki margir alþýðuflokksmennirnir, alþýðubandalagsmennirnir eða kvennalistakonurnar sem eru framarlega í viðskiptaumhverfinu hér á landi, því miður. Þessi hagsmunasamtök eru gegnsýrð af þessum tveimur stjórnmálaflokkum og þannig hefur það verið um áratuga skeið. Hér er ríkisstjórnarmeirihluti þessara tveggja flokka að tryggja áframhald á þeirri stöðu. Starfsfólki er hvergi leyft að koma að þeirri uppstokkun frekar en í þessu sem var verið að fella hér fyrir stjórnarandstöðunni fyrr í dag. Það er engum hleypt inn að borði helmingaskiptaflokkanna í atvinnulífinu eða í opinbera fjárfestingarumhverfinu. Þar skal enginn óverðugur fara inn fyrir dyr.

En er þetta þá ekki allt gott og blessað? Kunna þeir ekki nokkur skil á því sem þarna er? En er endilega víst að fyrir fjárfestingu sem á að vera til framtíðar séu það einmitt hagsmunir ,,gömlu atvinnuveganna`` sem þar eiga að vera fremstir? Gæti ekki verið skynsamlegra að huga að öðrum þáttum? Hvað með ferðaþjónustu, lífiðnað, tölvutækni, almenna verslun og viðskipti, menntun? Marga aðra þætti væri hægt að telja upp. Þeir þættir mundu vafalítið skila betri lífskjörum og hagvexti en hefðbundnar fjárfestingar sem við höfum kannski ekki haft svo góða reynslu af í tengslum við hinar eldri atvinnugreinar ef svo má að orði komast.

Við stjórnarandstæðingar höfum lagt mikla áherslu á eitt í sambandi við þessa uppstokkun og það er að tryggja dreifða eignaraðild. Í frv. á að selja 49%. Þar segir ekkert hvernig á að selja þau. Það segir ekkert í frv. hvort það er einn aðili sem á að kaupa þessi 49% og starfa svo með vinum sínum í ríkisstjórninni. Það er ekkert kveðið á um það og ekki einu sinni sagt hvenær eigi að gera þetta. Ástæðan fyrir því að við tölum um dreifða eignaraðild er samþjöppun valds. Auðvitað má spyrja: Af hverju á að setja einhver takmörk á slíka hluti? Á markaðurinn ekki að fá að ráða þessu? Venjulega kemst markaðurinn að einhverri skynsamlegri niðurstöðu að því tilskildu að samkeppni ríki á markaðnum en ekki fákeppni. Það sem við óttumst er að þessi fákeppnisfyrirtæki sem eru hér ráðandi í mörgum atvinnugreinum muni komast yfir þennan fjárfestingarsjóð, ef þau kjósa. Ég er ekkert viss um að hann verði mjög arðbær en hann mun alla vega tryggja völd --- hvort þau komast yfir þennan ráðandi hlut í Fjárfestingarbankanum eða í viðskiptabönkunum. Við óttumst samþjöppun fjármálalegs valds. Það er þess vegna sem við erum að tala um dreifða eignaraðild. Við höfum séð ýmsa þætti í atvinnulífinu gerast á þann hátt að þeir aðilar sem standa utan þessara stóru blokka í okkar hagkerfi, forsvarsmenn fyrirtækja sem ekki tilheyra blokkunum tveimur óttast um hag fyrirtækja sinna ef þeir lenda í ónáð hjá þessum tveimur blokkum sem kallaðar hafa verið Kolkrabbi og Smokkfiskur og reyndar var nú Kolkrabbinn orðinn háttvirtur í þingsölum, háttvirtur Kolkrabbi, fyrir nokkrum dögum. Það sýnir kannski viðhorfið gagnvart þessu. Það er ekki gott fyrirkomulag atvinnulífi okkar að við skulum búa við vaxandi vald fárra fyrirtækja og fárra einstaklinga. Það er skynsamlegt að vinna gegn því. Við tölum m.a. um að dreifð eignaraðild sé skynsamleg leið til að tryggja að fleiri komi að ákvörðunum. Einnig er hægt að benda á þá atvinnulýðræðisleið sem við höfum varpað upp í þessu sambandi, m.a. í tengslum við endurskipulagningu í bankamálunum.

Það er dálítið merkilegt að við þetta frv. voru mjög margar skýrslur og athuganir lagðar fram í efh.- og viðskn. Hér hefur komið fram að við fengum verðbréfaþing Kaupþings, til að reikna út ýmsa þætti, m.a. verðmæti bankanna. Ég man ekki alveg tölurnar en ég held að Landsbankinn hafi verið metinn á 8--9 milljarða og Búnaðarbankinn 6--7 milljarða, ég er ekki frá því. Ég man ekki alveg tölurnar en það verður kannski tækifæri til að rifja betur upp niðurstöðuna úr skýrslu Kaupþings síðar í umræðunni. En alla vega var lagt mat á verðmæti bankanna.

En það var annað sem var meginþátturinn í uppleggi ríkisstjórnarinnar og það var skýrsla breska ráðgjafarfyrirtækisins J.P. Morgan. Því var haldið fram í 1. umr. að nú væru útlendingar komnir til sem segðu að hér væri skynsamlega að farið. Við höfðum í sjálfu sér enga sérstaka ástæðu til að efast um það. Í grg. með frv. var að vísu ýmislegt sem benti til þess að niðurstaða J.P. Morgan væri ekki jafnafdráttarlaus og menn vildu vera láta. Við skoðuðum skýrslu J.P. Morgan og við fengum þann aðila sem vann skýrsluna til viðræðna við nefndina. Þegar skipunarbréf til J.P. Morgan var skoðað kom í ljós að þeir voru sérstaklega beðnir um að beina athyglinni að fjárfestingarlánasjóðunum en taka ekki til athugunar starfsemi viðskiptabankanna eða íslenska fjármálastarfsemi í heild sinni. Þetta segir okkur að sjónarhorn fyrirtækisins, hins erlenda ráðgjafarfyrirtækis, var afmarkað mjög verulega í uppsetningu viðskrn. Ýmsir héldu því fram að niðurstaðan hefði verið gefin í meginatriðum. Það er nú kannski óvarlegt að fullyrða um það en alla vega er ljóst að J.P. Morgan var ekki fenginn til að skoða þetta mál í heild sinni. Fyrst og fremst átti ekki að taka til athugunar starfsemi viðskiptabankanna eða íslenska fjármálastarfsemi í heild sinni. Nú er ég ekki að segja að J.P. Morgan hefði átt að gera það. Ég er hins vegar að benda á að það er mikilvægur þáttur í því sem við erum að halda fram að skoða þarf þessi mál í samhengi. Það er ekki hægt að skoða bara sjóðina út frá þeirri stöðu sem gert er í þessu frv.

Það kom einnig mjög skýrt fram í þessari sömu skýrslu að viðskiptabankar í Evrópu hafa þróast í þá átt að yfirtaka þá þjónustu og verkefni sem slíkir fjárfestingarlánasjóðir eru látnir stunda. Það kom mjög skýrt fram. J.P. Morgan fann tvo banka sem starfa á þessu sérstaka sviði, annan danskan en hinn hollenskan og er ekkert nema gott um það að segja. En það eru þúsundir viðskiptabanka í Evrópu sem starfa í því skipulagi sem við ræddum um, þ.e. að fjárfestingarlánasjóðirnir séu inni í viðskiptabönkunum. Það kemur meira að segja fram sem rök fyrir þessari uppstokkun að sérstaklega mikil sérþekking sé innan fjárfestingarsjóðanna hér á landi sem muni nýtast í starfi fjárfestingarbankans gagnvart atvinnulífi. Nú vita allir sem eitthvað kunna til í atvinnulífinu hvílíkt háð þetta er. Ef það er einhvers staðar sérþekking gagnvart atvinnulífinu þá er hún ekki sérstaklega mikil innan þessara fjárfestingarlánasjóða. Hún er fyrst og fremst hjá viðskiptabönkunum. Auðvitað er sérþekking til innan fjárfestingarlánasjóðanna en þekkingin gagnvart atvinnulífinu er fyrst og fremst í viðskiptabankaumhverfinu. Menn hafa nú oft og tíðum einmitt gagnrýnt hvað fjárfestingarlánasjóðirnir hafa verið fjarlægir viðskiptaumhverfinu og atvinnulífinu.

Það hefur komið skýrt fram í umsögnum um frv. að það leggjast allir gegn þessu frv. nema ríkisstjórnin. Minni hluti stjórnarliða í efh.- og viðskn. --- (EOK: Meiri hluti stjórnarliða, fjórir eru fleiri en tveir.) Já, meiri hluti stjórnarliða, minni hlutinn í nefndinni, styður þetta frv. Þeir einu sem styðja þetta af þeim umsögnum sem ég man eftir eru aðilarnir sem fá að tilnefna menn í stjórn. Þeir voru ánægðir með þetta. Iðnaðurinn, LÍÚ, Samtök fiskvinnslustöðvanna, það voru þeir einu sem voru jákvæðir gagnvart þessu.

[17:30]

Allir aðrir lögðust gegn þessu þar á meðal Samband íslenskra sparisjóða sem sögðu, með leyfi forseta: ,,að mest hagkvæmni muni nást fram með sameiningu sjóðanna við bankakerfið. Að því frágengnu er það skoðun Sambands sparisjóða að breyta eigi Fiskveiðasjóði og Iðnlánasjóði í tvo fjárfestingarsjóði í formi hlutafélaga og bjóða þá til sölu á almennum markaði þar sem bankar og sparisjóðir hefðu hliðstæða möguleika og aðrir á að kaupa hlutafé þeirra ...``

Hér segir að mest hagkvæmni muni nást með sameiningu sjóðanna við bankakerfið. Það er nákvæmlega það sem við erum að leggja til í 3. minni hluta og er skoðun Sambands íslenskra sparisjóða. Íslandsbanki leggst gegn þessari aðferðafræði, telur þetta vera gamaldags hugsun sem það er, og bendir m.a. á reynsluna með Verslunarlánasjóð. Þetta eru alveg fagleg rök. Merkilegt nokk --- Búnaðarbanki, Landsbanki og sparisjóðirnir sendu ríkisstjórninni bréf þar sem þeir óskuðu eftir að kaupa sjóðina en þessu bréfi var aldrei svarað og væri nú gaman að fá skýringar á því. Í umsögn Búnaðarbankans var sú skoðun ítrekuð að það hefði verið mun betra að fara þá leiðina en hina sem frv. gerir ráð fyrir. Þannig að vinir ríkisstjórnarinnar eru nú ekki margir í hinu faglega umhverfi fjármálaheimsins.

Samband íslenskra viðskiptabanka sendi mjög vandaða umsögn. Það gagnrýndi skýrslu J.P. Morgan harkalega og sagði að margar aðrar leiðir væru heppilegri en sú sem ríkisstjórnin valdi. Og viðskiptabankarnir telja engin rök sem færð eru fyrir stofnun fjárfestingarbanka standist þegar betur er að gáð.

Þegar umsagnir og niðurstaðan í efh.- og viðskn. er á þann hátt að sérfræðingar ríkisstjórnarflokkanna snúast gegn frv. þó þeir teljist til ríkisstjórnarliðsins þá spyr maður sig af hverju í ósköpunum verið er að knýja á um þetta frv. sem er í ósamræmi við þá þróun sem er að gerast í Evrópu og er í ósamræmi við skynsamlega uppstokkun á íslenskum fjármálamarkaði og er í andstöðu við alla aðila sem starfa á þessu sviði hvort sem menn leggja pólitískt mat á einhverja þessa þætti eða einfaldlega bara faglegt mat. Það skiptir ekki máli. Andstaðan er almenn varðandi þetta frv. Hér er ekkert annað á ferðinni en að ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð saman um að tryggja sína flokkslegu hagsmuni í þeirri uppstokkun.

Við í stjórnarandstöðunni hefðum talið rétt að stokka fjárfestingarlánasjóðina upp. Við hefðum viljað að þeir hefðu runnið inn í viðskiptabankana, sem hefði styrkt þá, og bankarnir síðan endurskipulagðir til framtíðar. Við höfnum þeirri leið stjórnarflokkanna að tryggja pólitísk áhrif þeirra í fjárfestingarlánaumhverfinu. Við lýsum okkur hins vegar reiðubúin til að vinna með ríkisstjórninni að endurskipulagningu þessa umhverfis og teljum að þetta mál hefði þurft að fá betri umræðu, betri vinnu og koma síðan aftur fram á hinu háa Alþingi.

Það er þess vegna, herra forseti, sem við munum leggja til við 2. umr. þessa máls að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það er samdóma álit okkar í stjórnarandstöðunni að það væri farsælasta niðurstaðan í þessu máli og studd af tveimur sérfræðingum stjórnarliðsins í efh.- og viðskn. að þetta mál á ekki að ná fram að ganga í þessu formi eins og ríkisstjórnin leggur áherslu á.