Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 17:36:31 (5636)

1997-04-22 17:36:31# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[17:36]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. er mikið niðri fyrir að reyna að sannfæra sjálfan sig og e.t.v. aðra um hvílík framfaraskref hann sé að innleiða í þessu máli. Það er ekki svo. En hins vegar fer hann í söguskýringu sem er röng. Ég ætla ekki að taka sérstaklega til varnar átta ára viðskiptaferil alþýðuflokksráðherra en ég vil hins vegar benda á að á þessum tíma breyttist íslenskt fjármálaumhverfi meira en á nokkrum öðrum tíma á lýðveldistímanum. Það er ekki allt vegna ráðherrans, hlutir gerast ekki þannig. Að hluta til er þetta ríkisstjórnarstefna en kannski mest vegna EES-samningsins. Það voru gerðar meiri umbætur á viðskiptamarkaði og fjármálamarkaði en nokkru sinni fyrr. Það var hins vegar lagt upp með breytingar á fjárfestingarlánasjóðunum. Það voru útbúin frv. og það var lagt upp með hugmyndir hvernig ætti að stokka þetta upp. Og ég veit ekki betur en að í þeirri ríkisstjórn, sem var samsteypustjórn Alþfl. og Sjálfstfl., væri tiltekin uppstokkun og útfærsla stöðvuð af núverandi hæstv. forsrh., Davíð Oddssyni, sem þá vildi ekki fara þá leið sem samstarfsflokkurinn vildi fara í uppstokkun. Það er því ekki mjög málefnalegt að koma hér og berja sér á brjóst og segja: Ja, fyrri stjórnmálaflokkar hafa ekki náð vel fram að ganga. Alþfl. getur nú sagt með sanni að hann hefur gert mikið til þess að gera breytingar í viðskiptaumhverfi á síðustu áratugum, og getur maður hugsað til tímans upp úr 1960 og þess tíma sem hv. þm. greindi sérstaklega, sem horfðu til framfara. Alþfl. gerði þar miklu meira en Sjálfstfl. hefur nokkurn tíma gert. Þannig að þetta var nú léleg vörn, herra forseti, fyrir slæmu frv. Ég ráðlegg hv. þm. að reyna að koma sér upp betri skotfærum ef hann ætlar að reyna að verja þennan málstað.