Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 18:41:45 (5646)

1997-04-22 18:41:45# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 1. minni hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:41]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður kom í ræðu sinni með mjög alvarlegar ásakanir og nafngreindi menn, m.a. mig. Taldi upp og að fyrir því lægju mörg dæmi að ekkert væri að marka jafnvel heilu þingflokkana, alla vega ekki þá sem hann nefndi, það væri ekkert að marka það sem þeir segðu við 1. umr. eða við 2. og 3. Hafði um þetta stór orð og miklar ásakanir. Það er svo sem allt í lagi að hafa uppi stór orð og miklar ásakanir en menn verða að geta fundið orðum sínum stað, það verða menn að gera. Hann nefndi þetta mál, bankamálið, hann nefndi málið um Landsvirkjun. Ég skora á þingmanninn að benda á hvar hefur verið mismunur á málflutningi mínum í þessu máli við 1. umr. eða við 2. umr. núna. Ég barðist mjög á móti frv. um Landsvirkjun bæði við 1. og 2. umr. Ég er sannfærður um það enn í dag að það frv. var mikil mistök. Mikil mistök sú lagasetning. Ég er reiðubúinn til þess að berjast gegn þeirri lagasetningu í dag eins og ég hef verið alla daga. Ég var að vísu veðurtepptur vestur á fjörðum þegar lokaatkvæðagreiðslan átti sér stað en það hefur engu breytt um skoðun mína. Ég bið því hv. þm. að gæta sín þegar hann kemur hér upp og hefur uppi svo stór orð um góða vini sína.