Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 19:14:00 (5653)

1997-04-22 19:14:00# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[19:14]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því við lok 2. umr. um frv. um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins að þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir það starf sem hún hefur innt af hendi við yfirferð málsins eftir 1. umr. í þinginu. Ég tel að nefndin hafi vandað mjög öll sín vinnubrögð, þau hafi tekið tiltölulegan skamman tíma, ekki síst í ljósi þess hversu mikið átakamál er hér á ferðinni.

Þær brtt. sem liggja fyrir eru brtt. frá 1. minni hluta efh.- og viðskn. Aðrar brtt. liggja ekki fyrir við 2. umr. málsins. Ég lýsi mig samþykkan þeim brtt.

Ég áttaði mig á því að frá upphafi hefur ekki ríkt fullkomin sátt um þetta mál. Það hefur verið áður deilt um þær leiðir sem hefur átt að fara við breytingar á fjárfestingarlánasjóðakerfinu og það hefur margkomið fram í þessari umræðu að þetta er umræða sem hefur staðið yfir í 10--15 ár og menn hafa aldrei komist að neinni niðurstöðu um það hvaða leið menn ættu að fara. Ég held þess vegna að þrátt fyrir góðan vilja hv. þm. Svavars Gestssonar um að setja á fót milliþinganefnd til að fara yfir þetta mál þá mundum við ekki ná pólitískri lendingu í því, því miður. Það hefur 10 til 15 ára saga sýnt. Ég er þess vegna hræddur um að ef niðurstaða atkvæðagreiðslu yrði sú að senda málið aftur til ríkisstjórnarinnar, og það er reyndar sú tillaga sem stjórnarandstaðan er með, þá mundu menn verða að bíða í næstu 10 til 15 árin eftir einhverjum breytingum. Auðvitað hefði mátt fara aðrar leiðir, kannski tvær eða þrjár aðrar leiðir, til að ná settu marki og það hefur komið fram í þessari umræðu. En ástæðan fyrir því, og það sagði ég líka við 1. umr., að þessi leið var valin er sú að um hana var víðtækust pólitísk sátt, bæði hér innan þings og utan þings líka. Því var það sem þessi leið var valin.

[19:15]

Oft hafa einstakir hv. þm. talað þannig úr þessum stól að mikilvægt væri að skapa hina víðtæku pólitísku sátt um þau mál sem lögð eru fram. En niðurstaðan af þeirri leið sem er valin er nákvæmlega sú sama og af öllum hinum sem einnig var mögulegt að fara. Það er verið að fækka lánastofnunum. Það er ekki hægt að mótmæla því. Það er verið að einfalda þetta kerfi. Það er verið að slá fjórum fjárfestingarlánasjóðum saman í einn, það er hægt að segja tvo með Nýsköpunarsjóðnum. Það er verið að einfalda kerfið og auka samkeppnina á fjármagnsmarkaðnum við viðskiptabankana. Það er verið að lækka kostnað. Það kann vel að vera að einhver önnur leið hefði getað lækkað kostnaðinn enn meira frá því kerfi sem er í dag. En það er verið að lækka kostnað. Þjónustan mun batna við þetta. Það er verið að brjóta niður múrana sem hafa verið milli einstakra atvinnugreina og lengi hefur verið talað um að nauðsynlegt væri að brjóta niður þannig að menn mundu horfa heildstæðar á atvinnulífið. Nýjar atvinnugreinar sem eru að vaxa úr grasi, hugbúnaðariðnaður, lyfjaiðnaður og hvað eina sem er, hafa núna aðgang að þessu fyrirkomulagi sem menn hafa ekki haft. Með þessu fyrirkomulagi er verið að draga úr þátttöku ríkisins á fjármagnsmarkaðnum sem erlend fyrirtæki hafa bent á að séu allt of mikil og setji Íslandi skorður í því að fá hærri lánshæfiseinkunn en menn hafa í dag. Umsvif ríkisins á fjármagnsmarkaðnum hafa lækkað úr kringum 62% niður í 41% með þeirri ákvörðun sem hér er verið að taka og þeirri ákvörðun sem nú hefur verið tekin, þó hún hafi ekki enn orðið að lögum, í frv. um viðskiptabankana. Með þessu er verið að veita atvinnulífinu betri þjónustu og það er verið að koma hér upp öflugum banka og flytja hluta af þeirri fjármálaþjónustu sem atvinnulífið hefur þurft að sækja úr landi inn í landið. Hér er því mjög mikilvægum áfanga náð.

Í þessari umræðu hafa menn mikið gert úr því að miklar deilur séu um þetta mál. Það er alveg rétt. Af þeim 20 umsögnum sem hafa borist til efh.- og viðskn. sýnast mér tíu umsagnir vera jákvæðar, sex neikvæðar og fjórar hlutlausar. Þær jákvæðu eru frá Fiskveiðasjóði, Seðlabanka, Iðnþróunarsjóði, Íslenskum sjávarafurðum, Samtökum iðnaðarins, Verslunarráðinu, Iðnlánasjóði, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Vinnuveitendasambandi Íslands og Samtökum fiskvinnslustöðva. Þeir sem eru hins vegar á móti eru Eignarhaldsfélagið Hof, Íslandsbanki, Búnaðarbanki, Samband íslenskra viðskiptabanka, Samband íslenskra tryggingafélaga og Samband íslenskra sparisjóða. Viðhorfin kristallast í þessum umsögnum. Vegna þess að þeir aðilar sem eru á móti vildu fara aðra leið en þeir sem eru með vildu fara þessa leið. Þessar umsagnir gera ekkert annað en að lýsa þeim viðhorfum sem uppi voru og átökin hafa staðið um kannski í þessi tíu ár.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði um skýringar á 2. og 5. gr. og gagnrýndi stjórnkerfið. Í 1. gr. er gert ráð fyrir því að viðskrh. annist undirbúning að stofnun fjárfestingarbankans og fari með framkvæmd laganna. Þetta er skýrt. Það er viðskrh. sem fer með framkvæmd laganna, hann setur þær reglugerðir sem settar verða á grundvelli þessara laga.

Í 5. gr. er hins vegar gert ráð fyrir því að sjútvrh. og iðnrh. fari saman með eignarhlut ríkisins í fjárfestingarbankanum. Til þess að fara með þennan eignarhlut ríkisins á aðalfundi er í næstu málsgrein 5. gr. gert ráð fyrir því að það sé í höndum fimm manna nefndar sem er valin með þessum tiltekna hætti. Fimmti maðurinn í nefndinni sé hins vegar samkomulagsatriði milli þessara tveggja ráðherra. Þetta er að mínu viti ekkert óeðlilegt fyrirkomulag. Svipað fyrirkomulag var boðað hér í atkvæðagreiðslu fyrr í dag þegar tillaga lá fyrir um að viðskrh. og fjmrh. færu saman með eignarhlutinn í viðskiptabönkunum. Sú tillaga var hins vegar felld með tilstuðlan ríkisstjórnarinnar og ástæðan er sú að þar er það skýrt að ekki er verið að slá saman neinum eignum ríkisins sem hafa heyrt undir mismunandi ráðherra áður heldur fyrst og fremst að Fiskveiðasjóður heyrði undir sjútvrh. og Iðnlánasjóður undir iðnrh. Hv. þm. Svavar Gestsson gagnrýndi þetta fyrirkomulag að tveir ráðherrar færu með og efaðist um stjórnkerfisþátt málsins. En hv. þm. Alþb. greiddu ekki atkvæði gegn þessu fyrr í dag. Þeir sátu hjá við afgreiðslu þessa máls frá Alþfl.

Í öðru lagi spyr hv. þm. Svavar Gestsson hversu langt þessi banki geti gengið í viðskiptabankastarfsemi. Í 2. gr. er hlutverk Fjárfestingarbankans algjörlega afmarkað. En til þess að menn átti sig nákvæmlega á því verð ég að vitna til 44. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Þar er nákvæmlega skilgreind hver sú starfsemi er sem þessi banki má hafa með höndum. Ég ætla ekki að lesa það allt nákvæmlega upp en það er hins vegar ljóst að þessi fjárfestingarbanki getur ekki tekið á móti innlánum í sinni starfsemi. Hann getur því ekki starfað eins og hver annar viðskiptabanki. Það er raunverulega það sem skilur alveg skýrt að í þessum efnum. Hins vegar mun fjárfestingarbankinn verða í samkeppni við viðskiptabankana um langtímalánastarfsemi, það er enginn vafi á því, á meðan þetta fyrirkomulag er sem er boðað með þessu frv.

Í þriðja lagi spyr hv. þm., svo ég orði það svolítið öðruvísi, hvort einhver pólitísk hrossakaup séu milli stjórnarflokkanna í þessu máli. Hvaða samningar hafi verið gerðir sem ekki sjáist í þessu lagafrv. Það hafa engir samningar verið gerðir milli stjórnarflokkanna í þessum efnum. Samningurinn lýsir sér einvörðungu í 5. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því hvernig með eignarhaldið skuli farið og svo er hitt ákvörðun stjórnar þessara fjárfestingarbanka hversu margir stjórnendur verða og hvernig bankanum verði stjórnað. Því sem snýr að starfsmönnunum er lýst nákvæmlega í 10. gr. frv. Starfsmennirnir hafa rétt á sambærilegu starfi og að því leyti til er þetta frábrugðið frv. um Búnaðarbankann og Landsbankann að þarna eru engar undirbúningsnefndir sem koma að málinu vegna þess að strax er gert ráð fyrir því að stjórn fyrir fjárfestingarbankann verði skipuð.