Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 19:24:40 (5654)

1997-04-22 19:24:40# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[19:24]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þessi umræða sýna að það er mikil umræða eftir um þetta mál. Hún verður þá bara að fara fram við 3. umr. en það er greinilega mjög margt órætt í málinu. Ég þakka hins vegar hæstv. viðskrh. fyrir hans svör. Ég ætla fyrst að segja varðandi stjórnkerfið að ég gagnrýndi þetta ekki á þeim forsendum að þetta mætti ekki vera svona. Ég benti á að þetta er í grundvallaratriðum allt öðruvísi byggt upp en prinsipp stjórnarráðslaganna. Ég sagði að það væri þess vegna skynsamlegt að fá á þessu lögfræðilega úttekt. Það var það sem ég sagði og ég tel að það sé mál sem eigi að athuga betur vegna þess að ég hef ekki orðið var við að það hafi verið gert. Ég mun óska eftir því í efh.- og viðskn. að það verði gert.

Varðandi tillögu þingmanna jafnaðarmanna í dag um að fjmrh. og viðskrh. færu saman með þessi mál þá segi ég eins og er að mér fannst það ekki góð tillaga. Ég gat ekki stutt hana og gerði það ekki. Hins vegar er það rétt að ég greiddi ekki atkvæði á móti henni vegna þess að ég vildi síður gera það við þær aðstæður sem voru í þingsalnum í dag og mér sýndist að aðrir væru í því máli. En ég tel að það hafi ekki verið góð tillaga að öllu leyti eins og hún var sett fram í því þingskjali.

Mér fannst síðan mikilvægt sem hæstv. viðskrh. viðurkenndi að fjárfestingarlánabankinn sem við erum að ræða hér mun verða í samkeppni við viðskiptabankana um langtímalánaþjónustu. Það er með öðrum orðum bersýnilegt að hann verður að einhverju leyti í þeim verkefnum sem viðskiptabankarnir eru í. Það er kannski það sem margir eru að gagnrýna og draga í efa að rétt sé að eigi sér stað um þennan banka.

Ég þakka hæstv. ráðherra einnig fyrir svörin varðandi hrossakaupin. Það er gott að eiga það í þingtíðindum.