Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 19:26:55 (5655)

1997-04-22 19:26:55# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[19:26]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Af minni hálfu og í allri þessari umræðu hefur það alltaf legið skýrt fyrir að á meðan það fyrirkomulag ríkir sem hér er boðað að bankinn verði í eigu ríkisins og þar til aðrir aðilar verða orðnir í meiri hluta þá er ljóst að bankinn mun verða í samkeppni um langtímalánastarfsemi og fjárfestingalánastarfsemi við viðskiptabankana. Þeir sem boða samkeppnina og þeir sem vilja sjá lægri kostnað í þessari þjónustu hljóta að taka undir að sú samkeppni geti leitt til minni vaxtamunar. Í öðru lagi af því að hv. þm. sagðist ekki muna, og ekkert við því að segja, að það fyrirkomulag væri annars staðar til að fleiri en einn ráðherra færi með eignarhluti þá er það alveg rétt hjá hv. þm. að það er ekki svo að tveir fagráðherrar, ef við tölum um fjmrh. ekki sem fagráðherra, fari saman með forræði. En ég bendi á að í Steinullarverksmiðjunni og Sjóefnaverksmiðjunni á Reykjanesi fara fjmrh. og iðnrh. saman með þetta vald.