Vandi lesblindra

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:04:33 (5657)

1997-04-23 15:04:33# 121. lþ. 110.2 fundur 575. mál: #A vandi lesblindra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:04]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 948 svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um vanda lesblindra:

1. Hverjar telur ráðherra vera skyldur menntmrn. við greiningu á lesblindu í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og öðrum skólum?

2. Hverjar telur ráðherra vera skyldur menntmrn. við að tryggja að komið verði til móts við þarfir lesblindra í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum?

3. Hefur menntmrn. einhverjar aðgerðir í undirbúningi vegna greiningar á lesblindu og skyldum námsörðugleikum og hyggst ráðuneytið beita sér fyrir einhverjum almennum aðgerðum í þágu lesblindra?

Lesblinda er að sjálfsögðu afar gamalt vandamál og hefur vafalaust alltaf fylgt mannkyninu. Hins vegar eru ekki mjög mörg ár síðan farið var að greina lesblindu með þeim hætti sem nú er gert. Nú er lesblinda greind þannig að um sé að ræða sérstaka örðugleika við að læra að lesa sem ekki stafa af greindarskorti heldur af einhverjum öðrum ástæðum sem geta verið mismunandi. Það getur verið um að ræða arfgengan vanda, það getur verið um að ræða félagslegan vanda og það getur líka verið um það að ræða að á einhverju stigi upphaflegrar skólagöngu hafi átt sér stað mistök við lestrarkennslu sem síðan verði til þess að viðkomandi nemandi eigi í erfiðleikum.

Það er alveg ljóst að eftir að lestrarmiðstöð tók til starfa í tengslum við Kennaraháskóla Íslands fyrir fáeinum árum hefur öll aðstaða til að taka á þessu máli gerbreyst. Þar starfa hæfir og góðir sérfræðingar á þessu sviði, þrír talsins, sem hafa unnið afar þarft verk en hafa tjáð mér í samtölum að þær komist engan veginn yfir öll þau verkefni sem til þeirra er beint. Sérstaklega er kvartað undan því að erfitt sé fyrir þær að ná utan um þau verk sem til þeirra er beint frá framhaldsskólunum. Þar hafa þær eingöngu náð utan um þau verk sem koma eftir sérstökum óskum frá framhaldsskólunum hér á suðvesturhorni landsins en reynst erfitt að taka á öðrum málum. Hér er sem sagt um að ræða viðamikið mál og ég hygg að það hafi ekki oft áður komið hér til sérstakrar meðferðar en er engu að síður mál sem rétt er að ræða í þessari stofnun, m.a. vegna þess að það snertir endurmenntun kennara og skólastarf allt. Það snertir sérstaklega stöðu t.d. nemenda með dyslexíu eða stöðu nemenda í framhaldsskólum sem ríkið rekur enn og kostar. Það snertir sérstaklega vanda þessara nemenda í háskóla, því að nokkur þeirra eru þegar í háskólum, og það snertir einnig vanda fullorðinna lesblindra sem eru utan skóla og hafa ekki fengið sín vandamál greind með eðlilegum hætti. Af þeim ástæðum hef ég borið fram þessa fyrirspurn, herra forseti.