Vandi lesblindra

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:07:59 (5658)

1997-04-23 15:07:59# 121. lþ. 110.2 fundur 575. mál: #A vandi lesblindra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:07]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurningarnar frá hv. þm. eru þrjár. Fyrstu tvær spurningarnar fjalla um álit menntmrh. á því hverjar skyldur menntmrn. séu við greiningu lesblindu og úrræði vegna hennar. Þriðja spurningin er um aðgerðir á vegum menntmrn. í þágu þessa hóps.

Fyrstu tveimur spurningunum verður svarað sem ein væri. Skyldur menntmrn. við nemendur með lesblindu á þeim skólastigum sem fyrirspyrjandi nefnir eru þær að framfylgja þeim lögum sem sett hafa verið af Alþingi og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til ráðuneytisins í þeim. Helstu skyldur menntmrn. við greiningu og aðgerðir til að koma til móts við nemendur með lesblindu eru þær að hafa frumkvæði og vera vakandi fyrir því að á hverjum tíma sé í vinnu ráðuneytisins gert ráð fyrir að tekið sé tillit til sérþarfa lesblindra. Menntmrn. hefur ótvíræðar skyldur í leik-, grunn- og framhaldsskólum að fylgjast með því að farið sé að þeim fyrirmælum sem lög og reglur gera ráð fyrir. Rekstraraðilar skólanna bera ábyrgð á því að greining og úrræði sem henta lesblindum séu til staðar samkvæmt lögum og reglugerðum sem um að gilda. Á grunnskólastigi eru það sveitarfélögin, í framhaldsskólanum er það menntmrn.

Á háskólastigi eru ekki lagafyrirmæli um að séð skuli til þess að nemendur með lesblindu eigi völ á greiningu erfiðleika né að komið sé til móts við þá erfiðleika. Hins vegar hefur námsráðgjöf Háskóla Íslands tekið mjög myndarlega á málinu og er í Háskóla Íslands að finna fyrirkomulag við greiningu og aðstoð við nemendur með lesblindu sem er til fyrirmyndar. Einstaklingar með lesblindu falla ekki undir þann hóp sem telst fatlaður og á rétt á þjónustu samkvæmt lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra.

Þriðja spurningin er á þennan veg: ,,Hefur menntmrn. einhverjar aðgerðir í undirbúningu vegna greiningar lesblindu og skyldum námsörðugleikum og hyggst ráðuneytið beita sér fyrir einhverjum almennum aðgerðum í þágu lesblindra?``

Á vegum menntmrn. starfar nú vinnuhópur sem hefur það hlutverk að skilgreina viðmið við mat á lestrarerfiðleikum, þar með talinni lesblindu. Matsviðmið skulu þannig úr garði gerð að skólar geti unnið eftir þeim án utanaðkomandi hjálpar. Hlutverk vinnuhópsins er m.a. að koma með tillögur um gögn til notkunar við fyrrnefnt mat og gera tillögur um hvernig best sé komið til móts við þarfir nemenda með lestrarerfiðleika. Vinnuhópurinn mun einnig gera tillögur um hvernig haga skuli próftöku hjá hlutaðeigandi nemendum og gera tillögur um hugsanlegar undanþágur frá námskrám og prófum. Við vinnu sína skal hópurinn gera ráð fyrir að einungis í alvarlegustu tilvikum þurfi að vísa til sérfræðinga. Miðað er við að tillögur hópsins skuli bera þess merki að þær megi koma að gagni á öllum skólastigum sem nefnd eru í fyrirspurninni, sérstaklega þó á grunn- og framhaldsskólastigi. Hópurinn mun einnig nefna dæmi um fyrirbyggjandi aðgerðir vegna lestrarerfiðleika. Hópurinn hraðar störfum sínum en eins og kunnugt er er þetta mál mjög flókið.

Í vinnuhópnum eiga sæti Grétar Marinósson dósent, formaður stjórnar lestrarmiðstöðvar Kennaraháskóla Íslands og er hann formaður hópsins, Fjölnir Ásbjörnsson, sérkennari við Iðnskólann í Reykjavík, Jónas Halldórsson, sálfræðingur á Greiningar- og ráðgjafarstöð Íslands, og Þóra Kristinsdóttir, dósent við Kennaraháskóla Íslands.

Menntmrn. átti á sínum tíma aðild að stofnun lestrarmiðstöðvar Kennaraháskóla Íslands. Stofnunin annast greiningu lestrarerfiðleika ásamt fræðslu um lestur. Lestrarmiðstöð þjónar aðallega nemendum og kennurum á grunn- og framhaldsskólastigi. Fullorðnir einstaklingar með lesblindu hafa þó fengið þar greiningu og námskeið.

Á vegum menntmrn. stendur yfir umfangsmikil vinna við gerð nýrra aðalnámskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla. Í þeirri vinnu verður tekið tillit til þeirra nemenda sem eiga við lesblindu að stríða. Fyrir dyrum stendur einnig endurskoðun á uppeldisáætlun fyrir leikskóla þar sem gera má ráð fyrir að mikil áhersla verði lögð á málörvun og fyrirbyggjandi starf.

Herra forseti. Ég vil bæta því við þetta svar að til mín hafa komið foreldrar og nemendur raunar sem eru með lesblindu og það er ljóst að þessi vangeta hefur verið að skýrast betur og er núna skilgreind með öðrum hætti heldur en gert var áður. Ég tel mjög mikilvægt að koma málum þannig fyrir að þessi vandi sé sem fyrst skilgreindur því að þá er hægt að laga sig strax að honum og haga úrræðum í samræmi við það, en það hefur m.a. komið fram hjá nemendum sem við mig hafa talað að þessi vandi hefur ekki verið rétt skilgreindur í íslenska skólakerfinu og m.a. nemendur sem hafa síðan farið í sumarnám erlendis hafa aðeins dvalist þar í nokkra daga þegar kennarar þar hafa komið og sagt við þá: Það sem háir þér er lesblinda. Það eru þannig til greinargóðar og auðveldar aðferðir til þess að greina þennan vanda og þær aðferðir þurfum við að tileinka okkur því að þá getum við brugðist rétt við.