Vandi lesblindra

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:13:22 (5659)

1997-04-23 15:13:22# 121. lþ. 110.2 fundur 575. mál: #A vandi lesblindra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:13]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Það er alveg rétt hjá honum, eins og reyndar kom fram í upphafsræðu minni, að það er ótrúlega stutt síðan farið var að greina lesblindu með þeim hætti sem nú er gert. Það mun fyrst hafa verið 1992 sem um það náðist samkomulag hvernig ætti að nálgast þá greiningu af sérfræðingum í landinu. Þangað til var lesblinda eða birtingarform hennar greint þannig að hér væri um vandamál að ræða sem í mörgum tilvikum stafaði af greindarskorti. Veruleikinn er hins vegar annar samkvæmt þeirri greiningu sem nú er notuð og það er alveg rétt hjá hæstv. menntmrh. að það er mikilvægt í málinu að skilgreina viðmiðin til þess að hægt verði að taka eðlilega á málinu. Mér finnst það mikilvægt sem fram kom hjá honum að ætlunin er að þessi starfshópur vinni rösklega og ég heyrði á kynningu hæstv. ráðherra að hann er vel mannaður.

Það er hópur af sérfræðingum í landinu sem þekkir til þessara mála og ég vil þar nefna sérstaklega Rannveigu Lund sem fjallaði um þessi mál í mastersritgerð sinni sem er aðgengileg öllum almenningi og segir margt fróðlegt um þessi mál. Ég vil líka vísa til rannsókna sem lestrarmiðstöðin gerði á 14 ára nemendum árin 1994, 1996 og 1997 þar sem kom í ljós að ótrúlega stór fjöldi nemendanna átti við erfiðleika að stríða. Hvort þar er beinlínis um lesblindu að ræða eða eitthvað annað er svo annar handleggur.

Ég tel hins vegar nauðsynlegt í þessu sambandi að ítreka og taka undir það með hæstv. ráðherra að ríkið hefur sérstakar skyldur að því er varðar framhaldsskólana. Mér er kunnugt um að í einstökum framhaldsskólum hefur því verið borið við við nemendur sem eiga við þennan vanda að stríða að skólinn hafi ekki fjármuni til að sinna þeim eða gera sérstakar ráðstafanir til að koma til móts við þá. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh.: Hvað gerir ráðuneytið til að tryggja það að skólarnir framkvæmi þessa skyldu við nemendur sína en víki sér ekki undan á fjárhagslegum forsendum, sem ég hygg að sé hæpið í þessu tilviki?