Vandi lesblindra

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:15:48 (5660)

1997-04-23 15:15:48# 121. lþ. 110.2 fundur 575. mál: #A vandi lesblindra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:15]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. finnst mér rétt að taka það fram að menntmrn. hefur nú gefið út hlutverkaskipti á milli skóla á höfuðborgarsvæðinu varðandi námsbrautir í framhaldsskólum vegna fornáms og í sérdeildum skóla. Það er sérstakt mál sem lýtur að fornámi og í því námi er hópur manna sem m.a. á við lesblindu að stríða. Ég kynnti það í gær á fundi með skólameisturum og fór yfir það og lýsti því hvernig við teljum að þessum málum verði best sinnt hér á höfuðborgarsvæðinu og tel ég að það leysi úr brýnum almennum vanda sem menn hafa glímt við á þessu sviði.

Að því er varðar lesblindu sérstaklega þá er það svo að það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. að tekist er á við þann vanda, ekki endilega í fornámi og ekki endilega í sérdeildum, því að þetta kemur upp með mismunandi hætti hjá nemendum. M.a. hefur af hálfu Alþingis verið aukin fjárveiting til Blindrabókasafnsins til þess að unnt sé að lesa meira námsefni inn á spólur og nemendur geti þannig fengið aðgang að lesnu námsefni í ríkari mæli heldur en verið hefur.

Að því er varðar aðgerðir innan einstakra skóla, þá mun ráðuneytið núna á næstu vikum ræða við alla framhaldsskóla í landinu um fjárveitingar til skólanna, innra starf þeirra og námsframboð. Þar munu þessir hlutir skýrast og eftir að þær viðræður hafa farið fram mun liggja betur fyrir hvar þessi þörf er sérgreind og hvað þarf sérstaklega að gera í hverjum skóla. Á þeirri forsendu munum við síðan taka ákvarðanir um þessi mál og einnig velta því fyrir okkur hvort beina beri nemendum með lesblindu inn í einhvern ákveðinn skóla og aukna sérhæfingu að því leyti. En almennt séð tel ég að þetta eigi að vera liður í starfi hvers einstaks skóla og ef af því er aukinn kostnaður þá verða menn að greina það og þá verður að bera það undir fjárveitingavaldið að lokum hvernig eigi að taka á fjárveitingum til skóla til þess að geta veitt þessa þjónustu.