Réttarstaða flóttamanna

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:27:27 (5663)

1997-04-23 15:27:27# 121. lþ. 110.3 fundur 576. mál: #A réttarstaða flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka félmrh. svör hans og ef ég vík fyrst að tveimur seinni spurningunum, þá kemur fram að flóttamannaráði hefur ekki verið falin endurskoðun á lögum þannig að síðari hluti þeirrar spurningar fellur um sjálfan sig og að félmrh. telur að endurskoðun á lögunum sé hluti af heildarstefnu í málefnum flóttamanna. Það er jafnframt spurning sem ég mun bera fram síðar á fundinum við dómsmrh. en ég vek athygli á því að samþykkt ríkisstjórnarinnar samkvæmt fréttatilkynningu á sínum tíma var um að stjórnvöld kæmu á heildarstefnu og skipulagi á málefnum er varðar flóttamenn, m.a. með samvinnu ráðuneyta, flóttamannaráði er byggjast á samstarfi við Rauða kross Íslands og ákveðið verði að Ísland taki virkari þátt en verið hefur í móttöku flóttamanna eftir atvikum með árlegum flóttamannakvóta innan norræns samstarfs og í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Nú kemur það fram í svari ráðherrans að þegar hann telur upp þau atriði í átta liðum sem lúta að móttöku flóttamanna og störfum og stefnu flóttamannaráðs, þá snúa þeir liðir sem upp voru lesnir fyrst og fremst að móttöku fólks eftir að það kemur hingað, eftir að búið er að taka ákvörðun um að taka á móti hópi flóttamanna og fólkið er komið hingað til lands. Og þessir átta liðir varða eiginlega verkaskiptingu Rauða kross og ríkisvalds í þessum málefnum.

Ég tek undir það að væntanlega hefur verið mikilvæg og góð reynsla af búsetu þeirra 30 einstaklinga sem fóru til Ísafjarðar og ég þykist líka vita að þeim hafi verið tekið á besta hátt í þeim ágæta bæ. En það er dálítið undarlegt þegar litið er til þess að það átti að taka alveg á nýjan hátt á málum varðandi flóttamenn að ég heyri það á máli ráðherrans að það hefur ekki verið mótuð nein sérstök stefna önnur en sú handahófsstefna, sem ég vil orða svo, að ákveða hverju sinni hve mörgum verði tekið á móti og með hvaða hætti.