Réttarstaða flóttamanna

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:29:54 (5664)

1997-04-23 15:29:54# 121. lþ. 110.3 fundur 576. mál: #A réttarstaða flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. mun hafa forgöngu um mótun reglna um móttöku flóttamanna sem hingað koma en félmrn. mun að sjálfsögðu leggja sitt lið og það veit ég að flóttamannaráð mun einnig gera og að um það muni verða góð samvinna.

Ég tel hins vegar að við höfum staðið okkur eftir atvikum ágætlega við móttöku þessa hóps sem við buðum hingað. Það er alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að Ísfirðingar hafa staðið að því verki með miklum sóma og það er enginn veikur hlekkur í þeim undirbúningi eða framkvæmd verkefnisins af hendi Ísafjarðarbæjar sem mér er kunnugt um og það er ánægjulegt til þess að vita að nú er þetta fólk farið að kaupa sér sínar eigin íbúðir og ákveðið í að setjast þarna að til frambúðar. Ég tel að þó að við höfum ekki enn þá sett niður einhverjar fastar reglur til að fara eftir þá höfum við unnið að þessu verkefni í anda þeirra reglna sem flóttamannaráð lagði til. Við erum að móta þessa stefnu smám saman. Ég vænti þess að framhald verði á móttöku flóttamanna og vonast eftir því að í framtíðinni takist okkur eins vel og okkur hefur tekist í þetta skipti með flóttamenn frá fyrrum Júgóslavíu.