Réttarstaða flóttamanna

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:32:08 (5665)

1997-04-23 15:32:08# 121. lþ. 110.4 fundur 577. mál: #A réttarstaða flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:32]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Í fréttatilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International frá 19. mars sl. kemur fram að í dag eru um 15 milljónir karla, kvenna og barna flóttamenn í heiminum. Þar að auki eru 20 milljónir á flótta innan eigin landamæra. Þetta eru skelfilegar tölur. Ein aðalástæða þess að fólk tekur sig upp frá heimilum sínum og flýr eru mannréttindabrot.

Við Íslendingar erum aðilar að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951 og viljum uppfylla skilyrði hans sem miðar að vernd flóttamanna sem leita hér griðlands. Fullgilding alþjóðasamnings hefur þó ekki sjálfkrafa í för með sér að hann verði hluti af landslögum og því ganga landslög framar ákvæðum hans ef þau eru ósamræmanleg. Það skiptir því miklu að löggjöf hvers ríkis sé vönduð og í samræmi við þá samninga sem fullgiltir hafa verið.

Fyrir um það bil ári kom fram í fréttum að rúmensk stúlka sem leitaði hér hælis hafi gert tilraun til þess að kveikja í sér þegar henni var synjað um landvist hér og ákveðið að vísa henni til Englands. Stúlkan mun hafa verið sígauni en sígaunar í Rúmeníu hafa lengi sætt fordómum og ofsóknum þar í landi. Dæmi eru um að þeir sæti ofbeldi og kveikt sé í húsum þeirra og að lögreglu viðstaddri án þess að hún aðhafist nokkuð.

Þessi frétt er ekki rifjuð upp hér til þess að leggja sérstakt mat á einstaka þætti þessa máls heldur vakti hún spurningar í hugum margra um hvaða reglur gilda almennt hér á landi þegar útlendingar leita hér griðlands. Lögin um eftirlit með útlendingum eru orðin gömul og uppfylla í mörgum tilvikum ekki skilyrði flóttamannasamnings frá 1951 t.d., um hvenær meina beri útlendingi landgöngu, hvenær heimilt sé að vísa útlendingi úr landi, og í lögunum er ekki að finna neina skilgreiningu á pólitískum flóttamanni.

Í lögum segir að heimilt sé að meina útlendingi landgöngu ef nauðsynlegt er talið af öðrum ástæðum en þeim sem taldar eru upp í 1. mgr. 10. gr. laganna. Þetta ákvæði er mjög víðtækt. Hér er ekki um neinar leiðbeiningarreglur að ræða. Meina má útlendingi landgöngu ef ætla má að hann sé kominn hingað til starfa eða athafna sem eru ólöglegar, ósæmilegar eða hættulegar hagsmunum ríkis eða almennings. Og hver ætlar að meta ósæmilegar athafnir? Þetta er mjög víðtæk brottvísunarheimild.

Aðeins á einum stað í lögunum er vísað til réttarstöðu flóttamanns en þar er aðeins fjallað um pólitískan flóttamann. Hér vaknar því óneitanlega spurning um hvort ákvæðið taki eingöngu til slíkra flóttamanna þannig að þeir flóttamenn sem t.d. hafa þurft að flýtja land sitt vegna kynþáttar, trúar eða þjóðernis njóti ekki verndar þess.

Virðulegi forseti. Í fyrirspurn minni er komið inn á spurninguna um formlega endurskoðun á lögunum, hvort í þeirri endurskoðun sé tryggð réttarvernd þeirra sem leita hér hælis, hvort tryggt sé að þeir flóttamenn fái ráðgjöf, túlk og réttaraðstoð, hvort tryggt verði að bann við brottvísun og endursendingu verði í takt við það sem er í flóttamannasamningum. Og, virðulegi forseti, af því að mér gefst ekki ráðrúm til þess að lesa alla fyrirspurnina vil ég leggja áherslu á síðasta hluta hennar:

Hversu margir útlendingar komu að landamærum Íslands og báðu um hæli sem flóttamenn á árunum 1990--96? Hve mörgum var synjað um hæli og þeim vísað brott eða þeir sendir til þess lands sem þeir komu frá? Voru þær ákvarðanir teknar skriflega eða munnlega?