Réttarstaða flóttamanna

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:40:59 (5668)

1997-04-23 15:40:59# 121. lþ. 110.4 fundur 577. mál: #A réttarstaða flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:40]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör og tek undir þær spurningar sem hv. 15. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, bar fram. Þetta eru mjög merkilegar upplýsingar og það er líka merkilegt að málskot til ráðherra hafi verið slík undantekning miðað við að það er frekar nýlegt að krafa sé um skriflegar aðfinnslur á þessum málum.

Það er mjðg mikilvægt að tekið verði upp í lögum að góður rökstuðningur sé varðandi afgreiðslu á þessum málum hvað varðar landgöngu, brottvísun eða endursendingu og það hlýtur að verða eitt af því sem brýnast er að festa í lög hér.

Ég fagna því að endurskoðun laganna standi yfir og vona að ráðherra geri gangskör að því að þessi mál komi inn í þingið í haust því að mér finnst að í svarinu felist að flóttamönnum sé alls ekki veitt sú réttarvernd sem þeim er ætluð samkvæmt flóttamannasamningum. Það er líka mikilvægt að tekið sé tillit til Dublin-ákvæðanna og Schengen sem ég hef ekki vísað til hér.

Ég vil að það komi fram til viðbótar þeim upplýsingum sem hér hafa verið veittar að í svari dómsmrh. við fyrirspurn í þinginu árið 1991 kom fram að frá 1987 til ársins 1991 hafi 150 aðilum verið vísað frá Íslandi á landamærunum. Ef við hugsum til Norðurlandasamstarfsins og hversu mjög við höfum reynt að vera eins og Norðurlöndin í mannréttindamálum og afgreiðslum okkar, þá nær það auðvitað engri átt að ekki skuli vera hægt að upplýsa á skýran hátt hvernig fór þegar 20 var vísað frá á landamærunum. Og hvernig er með þá tíu sem fengu afgreidda dvalarumsókn?

Hinn 19. mars sl. hrinti Amnesty Intnernational af stað alþjóðlegu átaki til varnar réttindum flóttafólks og ég hvet Alþingi Íslendinga til að leggja mikla áherslu á að það verði fundið fyrir því átaki hér, bæði í lagasetningu og með því að alþingismenn fylgist með hvernig þessu fólki reiðir af sem hingað kemur.