Réttarstaða flóttamanna

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:44:53 (5670)

1997-04-23 15:44:53# 121. lþ. 110.4 fundur 577. mál: #A réttarstaða flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:44]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fyrst vegna fyrirspurnar hv. 15. þm. Reykv. Það er rétt skilið hjá honum að það voru ekki fleiri en þrír sem kærðu úrskurð til ráðuneytisins og í einu tilviki breytti ráðuneytið úrskurði og veitti leyfi sem áður hafði verið synjað um.

Ég geri ráð fyrir því, án þess að ég hafi undir höndum upplýsingar um það, að ástæðan fyrir því að engum var veitt hér pólitíst hæli hafi verið sú að skilyrði hafi ekki þótt vera til þess, en af mannúðarástæðum hins vegar hafi verið talið rétt að veita hér dvalarleyfi. Í sjálfu sér er mjög óglöggur munur á þessu að því er réttarstöðu varðar. Ég hygg að þar sé í raun ekki mikill munur á.

Það er ugglaust svo, eins og hér hefur komið fram hjá hv. 14. þm. Reykv., án þess að ég sé með þær upplýsingar við höndina þá geri ég ráð fyrir því, að ein aðalástæðan fyrir því að fólki hafi verið vísað til baka sé sú að Ísland hafi verið annað land sem fólkið hefur komið til og samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem við erum aðilar að á fyrsta land að bera ábyrgð á viðkomandi aðilum.

Með lagabreytingunni frá 1993 var gerð veruleg bragarbót í því að upplýsa þá sem hingað koma um rétt þeirra og mér er ekki kunnugt um annað en að það sé gert á fullnægjandi hátt. Lögin frá 1993 bættu nokkuð úr, en það er alveg augljóst eigi að síður að mikil þörf er á að ljúka endurskoðuninni og samræma hana eins og hér hefur komið fram, bæði alþjóðlegum samningum sem við höfum þegar gert og eins væntanlegum samningum eins og málsmeðferðarreglum sem tengjast Schengen og Dublin-samþykktinni.