Breytingartillaga við 407. mál

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:48:47 (5671)

1997-04-23 15:48:47# 121. lþ. 111.91 fundur 300#B breytingartillaga við 407. mál# (aths. um störf þingsins), SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[15:48]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs um störf þingsins vegna 18. dagskrármálsins á þessum fundi, frv. um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem er til 2. umr. Í greinargerð meiri hluta efh.- og viðskn. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Lagt er til að stofnfé sjóðsins verði hækkað um 1 milljarð kr. og því fé verði haldið aðgreindu frá öðru fé sjóðsins og það nýtt til að stuðla að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, einkum á sviði upplýsinga- og hátækni.``

Frv. er því verulega breytt frá því sem það var þegar það var kynnt okkur hér. Þá var rætt almennt um stuðning við nýsköpun. Nú er rætt um sértækar aðgerðir á afmörkuðu sviði undir hatti byggðastefnu.

Það vill svo til að ég fékk nýlega í hendurnar skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir árið 1996. Þar er sérstök umfjöllun um svæðiskort af Íslandi vegna sérstakrar byggðaaðstoðar. Þar er því lýst yfir að Eftirlitsstofnunin hafi ákveðið að viðurkenna kort yfir svæði sem séu til þess bær að þiggja sérstaka byggðaaðstoð á Íslandi. Þar er einnig skýrt frá upphafi málsins, sem sé að ríkisstjórnin hafi gert Eftirlitsstofnun grein fyrir áformum sínum um ný stuðningssvæði til grundvallar samræmdri byggðastefnu þar sem gert sé ráð fyrir því að stuðningur geti numið allt að 17% af fjárfestingarkostnaði eftir skatta og 27% af fjárfestingarkostnaði ef um er að ræða minni eða meðalstór fyrirtæki.

Þessar upplýsingar hafa aldrei komið fram á Alþingi Íslendinga, þ.e. að ríkisstjórn Íslands hafi markað slíka nýja stefnu og því spyr ég, virðulegi forseti: Hefur efh.- og viðskn. fjallað um þetta mál í tengslum við það frv. sem hér á að ræða síðar á fundinum? Er þetta hluti af þeirri nýju stefnumörkun sem hæstv. ríkisstjórn hefur fengið samþykkt frá Eftirlitsstofnun EFTA eða hefur hv. efh.- og viðskn. ekkert um mál þetta fengið að vita?