Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 16:04:52 (5678)

1997-04-23 16:04:52# 121. lþ. 111.1 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[16:04]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þingflokkur Alþb. og óháðra greiðir atkvæði gegn þessari grein til að undirstrika gagnrýni sína á málið, málsmeðferð og aðdraganda málsins sem ég gerði reyndar grein fyrir í atkvæðaskýringu áðan. Við teljum að þetta mál verði að fara í gegn eingöngu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og hennar einnar. Við teljum hins vegar óhjákvæmilegt að undirstrika núna að málið verður að ræða mikið nánar, m.a. í efh.- og viðskn. og þar mun hafa verið samþykkt að málið komi til frekari meðferðar milli 2. og 3. umr. nú þegar. Það bendir til þess að víðtæk samstaða sé um að málið þurfi alveg sérstaka skoðun. Auk þess er óhjákvæmilegt, herra forseti, við 3. umr. málsins að ræða málið alveg sérstaklega við hæstv. forsrh. því að það er ótrúlegt að skoða umsagnalistann og sjá að verulegur hluti þess hóps manna sem hann hefur helst stuðst sig við að því er varðar efnahagsráðgjöf er á móti þessu máli af því að það er svo vitlaust.