Helgidagafriður

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 16:34:42 (5685)

1997-04-23 16:34:42# 121. lþ. 111.13 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[16:34]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að vísa á bug þessari röksemdafærslu því að hún felur það í sér að hv. þm. er að segja að það fólk sem hefur búið á þeim svæðum þar sem þessar hefðir hafa ríkt hafi ekki borið nægilega virðingu fyrir föstudeginum langa. Ég mótmæli þessu algerlega og held einmitt að fólk þar ekkert síður en annars staðar í landinu beri fulla virðingu fyrir og vilji sýna föstudeginum langa fullan sóma þó að hér sé verið að leggja til að helgidagafriðurinn standi þá 24 tíma í þessum sólarhring sem við köllum föstudaginn langa. Það er enginn að hrófla við því. Það er enginn að leggja það til að helgidagafriður verði rofinn á föstudaginn langa heldur einungis að hann standi þessa 24 tíma. Út á það gengur þessi tillaga og ekkert annað. Með sömu röksemdafærslu væri vitaskuld hægt að halda því fram, ef hv. þm. vildi fylgja því eftir, að jóladegi og hvítasunnudegi væri ekki sýnd nægjanleg virðing vegna þess að helgidagafriðurinn stæði ekki fram yfir miðnættið.