Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 17:02:47 (5689)

1997-04-23 17:02:47# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. 1. minni hluta PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[17:02]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem er á þskj. 985, frá 1. minni hluta efh.- og viðskn. sem ég skipa.

Fyrsti minni hluti getur ekki staðið að þeirri afgreiðslu málsins sem meiri hluti nefndarinnar leggur til í áliti sínu og breytingartillögum með því. Leggur 1. minni hluti til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari úrvinnslu.

Helstu agnúar á frv. eru þessir:

Ég tel að opinberir starfsmenn og opinberar stofnanir séu ekki best til þess fallin að fjármagna nýsköpun eða fjárfesta í frumkvæði þar sem það fólk veljist helst til starfa hjá ríkinu sem kjósi öryggi og traust. Nýsköpun og frumkvæði eru aftur á móti bundin mikilli áhættu. Þess vegna er ég ekki sannfærður um að hið opinbera og starfsmenn þess geti stundað áhættufjármögnun slíkra verkefna með góðum árangri.

Þeir sem stunda áhættusama fjármögnun verða að hafa af því mikla persónulega hagsmuni að fjárfestingin gangi upp. Það að fjárfesta fyrir annarra manna fé, svo ekki sé talað um opinbert fé, getur leitt til þess að menn séu ekki nægilega vakandi yfir hugsanlegri áhættu sem fylgir fjárfestingunni og verði of glannalegir.

Eins og hefur komið fram í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar er áhættufjármögnun yfirleitt skipt í þrjá þætti. Frv. er ætlað að leggja áherslu á síðasta þáttinn þar sem síst skyldi. Þar hafa mörg fyrirtæki nú þegar haslað sér völl og á því sviði er þó nokkuð mikil gróska og samkeppni þannig að það er algjörlega óþarfi að bæta við það. En eins og kom fram í máli hv. þm. leggur meiri hlutinn áherslu á að þessum áherslum verði breytt og áhersla verði lögð á að fjármagna verkefni af fyrstu tveim stigunum og get ég vel tekið undir það.

Herra forseti. Reynsla af ráðstöfun opinbers fjár sem ætlað var til fjárfestingar er til staðar. Því miður er hún yfirleitt slæm. Það er frekar regla en undantekning að slíkt fé hafi farið til vonlausra fjárfestinga og glatast að eilífu, þjóðinni til skaða. Undanfarna áratugi hefur fjöldi opinberra sjóða verið stofnaður til að örva fjárfestingu í atvinnulífinu með ýmis markmið að leiðarljósi, byggðasjónarmið, atvinnusköpun, útflutning o.s.frv. Flest hefur mistekist vegna þess að ekki var farið eftir eðlilegum markmiðum um arð heldur voru önnur sjónarmið látin ráða og oft og tíðum pólitísk.

Herra forseti. Skipun stjórnar Nýsköpunarsjóðsins sýnir líka að höfundar frv. eru enn fastir í viðjum gamallar atvinnugreinaskiptingar. Samtök iðnaðar og sjávarútvegs eiga þarna fulltrúa en þjónustugreinarnar fá engan fulltrúa, hvorki verslun né flutningar né það sem kannski er mest um vert, tækni og vísindi, hugbúnaðargerð og því um líkt. Þeir eiga engan aðgang að stjórn sjóðsins. Og það eru akkúrat þær greinar sem ég tel að þyrftu mest á þessu fé að halda og þyrftu á mestum skilningi í stjórn sjóðsins að halda.

Það er skoðun mín að mikilvægara sé að skapa fyrirtækjum, uppfinningamönnum, fjárfestum og frumkvöðlum almenn skilyrði til nýsköpunar en ekki að stofna enn einn opinberan sjóð. T.d. mætti hætta að skattleggja nýsköpun en sú skattlagning gefur ríkissjóði 50 millj. kr. á ári og er ég þá að tala um kostnað við að stofna hlutafélög. Það kostar 75 þús. kr. að stofna einkahlutafélag og 150 þús. kr. að stofna hlutafélag. Þetta er náttúrlega ekkert annað en skattur á nýsköpun því að fyrirtæki eru einmitt stofnuð utan um nýjan rekstur.

Síðan er opinbera eftirlitskerfið kapítuli út af fyrir sig og er mjög mikið kvartað undan því, sérstaklega af smáfyrirtækjum og nýjum fyrirtækjum sem finnst eftirlitsiðnaðurinn nánast fjandsamlegur atvinnulífinu. Þá má benda á að íslensk fyrirtæki fá lítinn sem engan stuðning vegna kostnaðar við þróun og rannsóknir. Og það sem kannski mest á ríður, þ.e. menntun þjóðarinnar, sem atvinnulífið og nýsköpun alveg sérstaklega nýtur, er frekar slök, sérstaklega verkmenntunin. Það mætti verja þeim peningum sem hér er ætlað til þess að setja í opinberan sjóð til þess að laga þessa þætti, sérstaklega menntunina.

Nokkuð hefur verið gert á undanförnum árum, og vil ég þá sérstaklega nefna fjármagnstekjuskattinn sem breytti mjög miklu fyrir nýsköpun þó að áhrifin séu kannski ekki enn þá komin í ljós. Áður fyrr var það hreinasta firra að fjárfesta í nýsköpun sem var áhætta vegna þess að ef vel gekk, þá var það skattað með 42--47%, en ef það gekk illa, þá kom ríkinu það bara ekkert við. Menn gátu ekki dregið frá tap á móti hagnaði. Og í áhættusömum rekstri eins og nýsköpun ævinlega er var það alger firra að fara út í nýsköpun við þær aðstæður sem þá voru. Nú hefur þessu verið breytt með fjármagnstekjuskattinum og ég á von á því að hann muni innan tíðar verka hvetjandi á nýsköpun, sérstaklega hjá þeim fjölda íslenskra uppfinningamanna sem eru að berjast við að koma framleiðslu sinni á þróunarstig og njóta til þess aðstoðar ættingja og vina oft og tíðum. Þeir ættingjar og vinir geta núna lagt fram hlutafé en gátu það ekki áður með góðu móti þannig að það er ýmislegt í gangi. Og það er ekki rétt að ekki séu til hugmyndir. Það er til fjöldinn allur af hugmyndum en það vantar fjármagn til að meta þær. Það vantar fjármagn sem sér hag í því að meta þessar hugmyndir. Ég hef ekki trú á því að opinber sjóður treysti sér til þess.

Þessi nýsköpunarsjóður verður í samkeppni við mörg fyrirtæki og þetta er opinber sjóður. Hann er í samkeppni við einkaaðila sem eru að vinna á sama sviði og er fyrst að nefna sviðið sem honum er ætlað að starfa á, þ.e. nýsköpun á seinni stigum. Síðan er líka tryggingadeild sem tryggir útflutning, hún er líka í samkeppni við fyrirtæki sem starfa á því sviði. Hér er sem sé verið að stofna opinbert fyrirtæki til að fara í samkeppni við einkaaðila.

Herra forseti. Í frv. er gert ráð fyrir því að ekki megi verja hærri fjárhæð til nýsköpunar en svo að afskriftir vegna verkefnanna rúmist innan ramma rekstraráætlunar og ekki sé gengið á eigið fé sjóðsins. Þetta á bankaeftirlit Seðlabankans að tryggja. Út úr þessu má lesa það að meginstofn og eign sjóðsins mun verða fjárfest í tryggum bréfum, jafnvel í spariskírteinum ríkissjóðs að kröfu bankaeftirlitsins. Það verður því eingöngu hægt að fjárfesta vexti af þeim sömu peningum sem þá verða eitthvað í kringum 200--300 millj. á ári og til þess er ríkið að binda 4.000 millj. í þessum sjóð. Það væri betra að nota þá fjármuni til þess að lækka erlendar skuldir og hafa þá bara fjárveitingar á hverju ári sem fara í nýsköpun.

Svo gátu menn að sjálfsögðu ekki látið vera í þessu nýja opinbera fyrirtæki að veita því skattfrelsi. Menn eru svo vanir því að opinber fyrirtæki skuli alltaf njóta skattfrelsis. Þetta fyrirtæki á hvorki að borga stimpilgjöld né tekju- og eignarskatt og er það þó í samkeppni við einkarekstur á þessu sama sviði.

Herra forseti. Fram hefur komið hugmynd hjá meiri hluta efh.- og viðskn. um að bjóða út fé til nýsköpunar og nota til þess 1.000 millj. af fé Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem menn komust að niðurstöðu í efh.- og viðskn. að væri offjármagnaður og það væri hagkvæmt að taka einn milljarð út. Ég er í sjálfu sér alveg sáttur við það. Ég er sérstaklega sáttur við þá hugmynd sem kemur fram að þetta fjármagn verði boðið út til tveggja eða fleiri aðila sem þá keppa um að ná af því arði og ef hugmyndin er rétt skilin hjá mér, þá gengur hún út á það að þeir fái þóknun eða umbun fyrir starf sitt í hlutfalli við hvernig til tekst og verður þá endanlega gert upp eftir 7--8 ár. Þessi hugmynd er mjög góð og ég er alveg sáttur við hana ef tekst að tryggja framkvæmdina en það er það sem ég set stórt ef við vegna þess að ég hef einfaldlega vantrú á opinberum aðilum á þessu sviði. En það má vel vera að þetta gangi upp og auðvitað eiga menn ekki fyrir fram að afskrifa svona hugmynd. Það má vel vera að þessi hugmynd gangi.

Það er reyndar við tilvísun, að þessar fjárfestingar skuli fara ,,með áherslu á landsbyggðina``, sem ég set spurningarmerki. Það er strax ákveðin takmörkun. Auðvitað munu menn fara fram hjá því með léttu móti eins og alltaf auk þess sem það er ekki bannað að fjárfesta í atvinnurekstri á höfuðborgarsvæðinu en það virðist ekki mega eða vera einhvern veginn vont og ljótt að hafa nýsköpun á höfuðborgarsvæðinu.

Ef frv. verður vísað til ríkisstjórnarinnar, sem hér er gerð tillaga um, þarf jafnframt að huga að því að breyta frv. til laga um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þannig að þessar 4.000 millj. af eigin fé hans renni í ríkissjóð til lækkunar á erlendum skuldum ríkissjóðs eða lækkunar á skuldum ríkissjóðs almennt, en ríkissjóður borgar eins og kunnugt er geysilega fjármuni í vexti af skuldum sínum.

Til viðbótar vil ég nefna nokkrar röksemdir sem komu fram í umsögnum sem bárust til nefndarinnar. Í umsögn Eignarhaldsfélagsins Hofs kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

,,Í grundvallaratriðum teljum við að ríkisvaldið eigi ekki að hafa önnur afskipti af atvinnulífinu en að skapa því skilyrði til að starfa við markaðsbúskap. Nýsköpun og þróun eru af skornum skammti, og útflutningstekjur sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa staðið í stað síðasta aldarfjórðung. Ástæðuna má þó fyrst og fremst rekja til þess umhverfis sem atvinnulífið hefur búið við.`` --- Ég vil endurtaka: Ástæðan er umhverfið sem atvinnulífið hefur búið við. --- ,,Á síðustu árum hafa skilyrði til atvinnurekstrar batnað talsvert, en hæpið er að frumkvöðlar í uppbyggingu atvinnugreina eða fyrirtækja eigi eða þurfi að hlíta ráðgjöf ríkisvaldsins.`` --- Eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu.

[17:15]

Enn fremur stendur: ,,Til þess að greiða götu nýsköpunar og útflutnings ætti frekar að setja almennar leikreglur sem auðvelda fyrirtækjum að stunda viðskipti. Með þeim hætti lendir það vandasama hlutverk að velja milli fyrirtækja og hugmynda á markaðnum, en ekki á fámennri ,,dómnefnd``.`` --- Það er þó opinber dómnefnd.``

Enn fremur stendur, með leyfi forseta: ,,Skoðun okkar er því sú að tilkoma þessa sjóðs sé ekki til þess fallin að tryggja stoðir íslensks atvinnulífs. Þá er okkur ekki ljós tilgangur þess að skipta sjóðnum upp í nýsköpunarsjóð annars vegar og fjárfestingarbanka hins vegar. Við sjáum ekkert sem mælir gegn því að innan Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. sé starfrækt sérstakt áhættufjármögnunarsvið, þyki þörf á slíku.``

,,Skipun stjórnar miðast við tvær atvinnugreinar, sjávarútveg og iðnað. Það er stefna stjórnvalda að öll fyrirtæki eigi jafnan aðgang að fjármagni úr sjóðakerfi atvinnuveganna, óháð atvinnugrein. Í athugasemdum við frumvarpið segir að afnema eigi þá atvinnugreinaskiptingu sem verið hefur í sjóðakerfinu. Til þess að svo megi vera, þarf hins vegar meira en nafnbreytingu á sjóðum. Sú tilhögun við stjórnarkjör sem nefnd er í 4. gr. festir í sessi þá atvinnugreinaskiptingu sem þó er ætlunin að afnema.``

,,Varðandi starfshætti sjóðsins er vert að vekja athygli á því að mestum erfiðleikum er bundið fyrir frumkvöðla að útvega fjármagn á fyrstu stigum verkefnisins. Eftir að byrjunarkostnaður er að baki og komið er að því að fjármagna útvíkkun og frekari vöxt er talsvert auðveldara að útvega fjármagn, t.d. hjá Fjárfestingarbankanum, öðrum bönkum eða sparisjóðum, frá fyrirtækjum eða hlutabréfamarkaðnum. Í mörgum tilfellum mun Nýsköpunarsjóðurinn því fara í keppni við aðra lánveitindur (einkaaðila) um að lána til áframhaldandi verkefna, í stað þess að lána til frumkvöðla sem eru að brjótast af stað með nýjan rekstur.``

Í umsögn Verslunarráðs Íslands kemur m.a. fram, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í upphafi vill Verslunarráð Íslands láta í ljós efasemdir um að nauðsyn sé á stofnun sjóðs sem þessa, þar sem af greinargerð má ætla að sjóðurinn muni sinna svipuðu hlutverki og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. og ýmsar aðrar fjármálastofnanir. Er þar einkum átt við orð greinargerðar um starfshætti sjóðsins á bls. 7 í frumvarpi þar sem segir að hlutverk hans muni aðallega felast í fjármögnun vaxtar, þ.e. fjármögnun til að útvíkka starfsemi að aflokinni þróun og öflun markaða.``

Í umsögn Íslandsbanka kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

,,Styrktar- og áhættufé, eins og það sem Nýsköpunarsjóður mun hafa til ráðstöfunar, er ætíð vandmeðfarið. Það hefur reynslan m.a. sýnt hér á landi. Sérstaklega er mikilvægt að ákvarðanir um notkun fjárins byggist ekki á pólitískum sjónarmiðum. Einnig er þýðingarmikið að Nýsköpunarsjóður lendi ekki í samkeppni við einkaaðila eða markaðinn á þessu sviði. Erlendis hefur þessa einmitt orðið vart og því hafa slíkir sjóðir á seinni árum sætt vaxandi gagnrýni.

Í umsögn Sambands ísl. sparisjóða kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

,,Af reynslu erlendis frá er talið óvarlegt að reikna með því að mikið meira en 50% af fjármunum þeim sem lagðir eru til nýsköpunarverkefna skili sér til baka. Auk þess sem styrkir hljóta að verða umtalsverðir. Því verður að telja að stofnfé sjóðsins og geta hans til fjármögnunar sé allt of lítil eigi ekki að skerða höfuðstól og hann frá upphafi því dæmdur til þess að styðja nánast eingöngu það sem öruggt má teljast. Við slíkar aðstæður mun hann ekki gagnast ætlunarhlutverki sínu heldur líklega verða rekinn með svipuðum hætti og önnur félög sem sett hafa verið á stofn hér á landi til að vinna að þróun og nýfjárfestingu og því næsta gagnslaus sem slíkur ...``

Enn fremur stendur í umsögn Sambands íslenskra sparisjóða:

,,Nýsköpun í íslensku atvinnulífi snýr sem betur fer ekki að einstökum völdum starfsgreinum. Því verður að telja óheppilegt að leggja upp með tengingu við tvær greinar atvinnulífsins sem með því virðast fá sérstöðu gagnvart öðrum hvort heldur er til áhrifa eða stýringar á fjármunum sjóðsins. Eðilegast er að allir þegnar búi við jafnræði þegar um mat á hugmyndum og úthlutun þeirra vegna af opinberu fé er að ræða.``

Herra forseti. Ég hef farið í gegnum nokkur rök sem komu fram í umsögnum aðila sem bárust til hv. efh.- og viðskn. Ég hef enn fremur getið um nokkra agnúa sem eru á þessu frv. og endurtek að ég legg til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari úrvinnslu.