Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 17:25:06 (5691)

1997-04-23 17:25:06# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[17:25]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og fram kom mæli ég fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efh.- og viðskn. í fjarveru hv. 4. þm. Norðurl. e. sem hefur gefið út sjálfstætt nefndarálit um þetta mál og þar sem afstaða okkar til málsins er skilmerkilega rakin. Í áliti hv. þm. segir svo, með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins tengist frumvörpum um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög. Frumvarpið byggist á því að tekið verði nokkuð af eigin fé fjárfestingarlánasjóðanna sem sameina á í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og því fé, samtals 3 þús. millj. kr., ásamt 1 milljarði kr. sem fást á við sölu hlutafjár í eigu ríkissjóðs í fjárfestingarbankanum verði varið til að stofna Nýsköpunarsjóðinn.`` --- Verð ég nú að játa það að textinn er kannski ekki mjög lipur.

,,Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert að auka það fjármagn sem til reiðu er til nýsköpunar í atvinnulífinu. Þingflokkur Alþýðubandalagsins og óháðra hefur talað fyrir því máli um langt skeið og hefur á yfirstandandi þingi`` --- og reyndar síðasta þingi líka --- ,,flutt frumvarp til laga um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð (19. mál). Vísast í efni þess frumvarps og greinargerð sem því fylgir um afstöðu þingflokks Alþýðubandalagsins og óháðra til þessara mála.

Því miður eru ýmsir ágallar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem að frumvarpinu óbreyttu valda því að það er minna fagnaðarefni en ella að slíkur sjóður komist á laggirnar. Snýr það að ýmsum efnisatriðum frumvarpsins, svo sem að tilnefna á stjórn sjóðsins með gamaldags hætti af helstu hagsmunaaðilum og höfuðatvinnugreinum í stað þess að leita faglegra leiða og gera kröfur um sérþekkingu eða reynslu sem skilyrði fyrir stjórnarsetu. Annar minni hluti nefndarinnar mun því flytja breytingartillögu við efni frumvarpsins hvað þetta varðar.

Ýmsar áherslur í frumvarpinu valda vonbrigðum, sérstaklega hvað varðar hlutverk sjóðsins og það hvernig fjármunum hans skuli ráðstafað. Í greinargerð með frumvarpinu er talað um þrískiptingu verkefna í þróunarfjármagn eða hugmyndafé, í byrjunarfjármagn eða upphafsfé og loks í fjármagn til vaxtar eða veltuaukningar. Komist er að þeirri furðulegu niðurstöðu að meginhlutverk Nýsköpunarsjóðsins eigi að falla að þriðja flokknum, þ.e. að fjármagna vöxt fyrirtækja sem þegar hafa hafið rekstur. Að dómi flestra sem til þekkja er þörfin þvert á móti mest hvað varðar þróunarfjármagn, áhættufé til þróunarverkefna og könnunar á hugmyndum og síðan til að hefja starfsemi eða í byrjunar- eða upphafsfé. Þessi atriði eru að vísu ekki í sjálfum frumvarpstextanum en ef ætlun ríkisstjórnarinnar er að halda sig við þá stefnumótun sem í greinargerðinni er boðuð hlýtur það að valda miklum vonbrigðum.

Annar minni hluti mun eins og áður sagði flytja breytingartillögur við frumvarpið til að leitast við að gera á því úrbætur og taka þær fyrst og fremst mið af frumvarpi þingflokks Alþýðubandalags og óháðra um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð sem tekur efni stjórnarfrumvarpsins fram að ýmsu leyti. Eftir sem áður er jákvætt og betra en ekki að fjármunum sé í auknum mæli ráðstafað til verkefna sem þessu tengjast. Er þingflokkurinn því hlynntur megintilgangi frumvarpsins að veita meira fé til nýsköpunar í atvinnulífinu og mun styðja það með fyrirvara um nokkur einstök efnisatriði sem í frumvarpinu felast til viðbótar því sem þegar hefur verið gerð grein fyrir.``

Þetta var nefndarálit 2. minni hluta um það frv. sem hér er til umræðu og sem fskj. með nál. er birt frv. þingflokks Alþb. og óháðra um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð sem ég tel að sé gott mál og byggir á okkar stefnu og tillögugerð í atvinnu- og efnahagsmálum á undanförnum árum og missirum. Að sjálfsögðu fékkst ríkisstjórnin ekki til þess að láta fjalla um þingmál frá stjórnarandstöðuflokkum. Það er ekki til siðs hér, svo þróað er lýðræðið ekki í þessari stofnun, því miður, sérstaklega ekki í núverandi ríkisstjórn sem er verri en sú síðasta í þessum efnum og er þá langt til jafnað. En út af fyrir sig ætlum við ekki að agnúast neitt sérstaklega út í það. Það er náttúrlega dálítið umhugsunarefni fyrir þingræðið að aldrei skuli vera hægt að samþykkja nein mál frá þingmönnum heldur verði þau öll að koma frá ríkisstjórninni en látum það nú vera.

Í samræmi við álit okkar og tillögur flytur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tvær breytingartillögur við frv. Í fyrsta lagi stendur hér að yfirumsjón með sjóðnum sé í höndum viðskrh. Við leggjum til að það verði fellt niður. Við teljum að forræði þessa máls eigi að vera á höndum forsrh. Við bendum á að upphaf Byggðastofnunar, upphaf Þróunarfélagsins var í raun og veru í höndum forsrn. og það er óeðlilegt að okkar mati að hafa þetta mál á forræði viðskrh. eins og hér er gerð tillaga um og við leggjum þess vegna til að hluti af 1. mgr. 1. gr. verði felldur niður.

Í annan stað flytjum við um það brtt. að stjórnin verði tilnefnd allt öðruvísi en ríkisstjórnin gerir tillögu um. Okkar tillaga er svona, með leyfi forseta:

,,Sjóðurinn er undir stjórn fimm manna sem eru tilnefndir sem hér segir: Einn er tilnefndur af samtökum launafólks sameiginlega,`` --- þ.e. ASÍ, BSRB og öðrum slíkum samtökum --- ,,annar af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sá þriðji af samtökum atvinnurekenda sameiginlega, en forsætisráðherra skipar tvo án tilnefningar og er annar þeirra formaður stjórnarinnar. Varamenn eru tilnefndir og skipaðir á sama hátt.

Við skipan stjórnarinnar skal þess gætt að valdir séu menn sem hafa sérstaka þekkingu og/eða reynslu af nýsköpun í atvinnulífi.

Forsætisráðherra skipar stjórnina og heyrir starfsemi sjóðsins undir forsætisráðuneytið.``

Við teljum að þetta sé miklu eðlilegri skipan stjórnarinnar heldur en að fela hinum gömlu hagsmunaaðilum sem ráða yfir svokölluðum höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar að ráða stjórn yfir Nýsköpunarsjóði. Það er í raun og veru algerlega úrelt nálgun og ótrúlegt að menn skuli enn þá, svo seint á 20. öld, vera að gera tillögur af því tagi sem hefði kannski þótt góð latína fyrir 60--70 árum en ekki lengur í dag.

Þá vil ég aðeins, herra forseti, víkja lauslega að öðrum brtt. sem liggja hérna fyrir og segja að út af fyrir sig finnst mér að brtt. meiri hluta efh.- og viðskn., sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mælti fyrir áðan, séu margar til bóta. Ég tel að fyrsta brtt. sé til bóta, að í starfsemi sinni sé sjóðnum heimilt að leita samstarfs við aðra aðila á sviði áhættufjármögnunar og ég tel að það sé að sjálfsögðu til bóta að styrkja þennan sjóð fjárhagslega eins og gerð er tillaga um í tölul. 2.a í brtt. meiri hlutans. Í brtt. meiri hlutans er þessi tillaga síðan útfærð nánar með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

,,Höfuðstól samkvæmt þessari málsgrein skal halda aðgreindum frá bókhaldi og reikningum sjóðsins og verja til hlutabréfakaupa í því skyni að stuðla að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina, einkum á sviði upplýsinga- og hátækni.``

Ég tók eftir því, herra forseti, og hef tekið eftir því í málflutningi að menn eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson hafa verið að gera mikið úr því að þessi milljarður, nákvæmlega þessi milljaður, muni skipta sköpum fyrir atvinnuþróun á landsbyggðinni. Ég tel að hann muni ekki gera það. Ég tel að það muni ekki vera þannig. Og ég harma það þegar þingmenn eru aftur og aftur að reyna að blekkja landsbyggðina með þeim hætti að telja fólki trú um að það séu töfrasprotar sem felast í tillögum af þessu tagi. Ég tel hins vegar ekkert að því, þó að ég sé þm. Reykv., að áhersla sé á landsbyggðina að því er varðar sjóð af þessu tagi, ég tel ekkert að því. Og ég tel það fyrst og fremst vera hugsað út frá því að hér er markaðurinn, hér er fjöldinn og hér eru aðstæður þess vegna auðveldari og það er ekkert á móti því að reyna að vinna upp með sérstökum fjárhagslegum aðgerðum það óhagræði sem í raun og veru felst í dreifbýlinu og þeir sem þar búa þurfa að takast á við. Í þessu sambandi gæti ég út af fyrir sig minnt á það skjal sem hv. 4. þm. Vestf. vitnaði til í upphafi þessa fundar varðandi það að aðstaða fyrirtækja til að koma sér af stað og starfa á landsbyggðinni er mismunandi miðað við það sem hér er hjá okkur. Ég hef þannig ekkert við það að athuga að sérstaklega sé haft auga á landsbyggðinni í þessu sambandi. En ég vara við því að menn séu að gera tilraunir til að láta það líta út eins og í því sé fólgin endanleg lausn á vandamálum landsbyggðarinnar.

Herra forseti. Eins og ég hef hér rakið er margt í þessu frv. eins og í okkar frv. og af þeim ástæðum er það auðvitað m.a. svo að við teljum að full ástæða sé til þess að veita málinu brautargengi. Ég veit um einstaka þingmenn í okkar liði og í stjórnarandstöðunni sem munu kannski sitja hjá við meðferð málsins en ég hygg að mörg okkar muni styðja málið og jafnvel eitthvað af þeim breytingum sem meiri hluti efh.- og viðskn. gerir tillögur um. Við væntum þess að málið geti orðið lyftistöng atvinnulífi, verðmætasköpun og þar með lífskjörum hér í landinu þegar lengri tími líður.