Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 17:35:48 (5692)

1997-04-23 17:35:48# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[17:35]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 3. minni hluta efh.- og viðskn. en auk mín stendur að álitinu hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson.

Það er mjög mikilvægt, herra forseti, að það sé búin góð umgjörð um nýsköpun og ekki hvað síst í atvinnulífi okkar. Og þetta frv. á það fallega nafn, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

Það er hins vegar svo að hægt er að nálgast framfarir í nýsköpun á margvíslegan máta. Það er hægt að gera það með því að setja á stofn lánasjóð en það er líka hægt að gera það með aðgerðum af opinberri hálfu í menntamálum, styðja sérstaklega við rannsóknir og þróun, styðja við frumkvöðla og minni fyrirtæki, veita upplýsingar og aðgang að sérhæfðum aðilum á sviði markaðsmála og vöruþróun. Öll þessi atriði munu líklega stuðla að meiri nýsköpun en sú eina aðgerð að setja á stofn lánasjóð þótt það geti vitaskuld verið mikilvægur þáttur í nýsköpun.

Þrátt fyrir gott nafn nær þetta frv. ekki því markmiði að stuðla nógu markvisst að nýsköpun vegna þess að of þröngar skorður eru settar og málið ekki skoðað í víðara samhengi út frá fleiri aðgerðum eins og ég nefndi áðan.

Verkefni á sviði nýsköpunar markast fyrst og fremst af því að nýjar hugmyndir, nýjar vörur og ný þjónusta eru alltaf í samkeppni við það sem fyrir er á markaðnum og þessi samkeppni er í auknum mæli erlendis frá. Það gildir um flest nágrannalöndin og reyndar mjög mörg lönd í t.d. Austur-Asíu, að sífellt stærri hluti verðmætasköpunar er vegna viðskipta milli landa. Utanríkisverslun hefur aukist mun meira en nemur framleiðsluaukningu hjá flestum þjóðum undanfarin ár þó að Ísland sé reyndar ekki í þeim hópi. Almennt er talið að uppspretta hagvaxtar síðustu 10 ár hafi fyrst og fremst komið vegna utanríkisviðskipta. Þessi þróun hefur að nokkru eða öllu leyti farið fram hjá okkur Íslendingum og það er m.a. vegna þess að við höfum ekki staðið nógu vel að nýsköpun, t.d. hvað varðar menntamál og grunnrannsóknir innan fyrirtækja.

Staða okkar er enn þá lakari ef við berum hana saman við aðrar þjóðir. Það eru til úttektir yfir samkeppnisstöðu landa þar sem Ísland kemur satt best að segja alls ekki vel út. Tvær slíkar alþjóðlegar úttektir eru aðgengilegar og í annarri þeirra er Ísland í 25. sæti af 46 ríkjum og í hinu í 27. sæti af 49. Þarna erum við um miðjan hóp en staða okkar er í reynd mun alvarlegri vegna þess að ef við berum okkur saman við 26 OECD-ríki þá erum við í 19. sæti. Það eru einungis nokkur ríki innan OECD sem hafa lakari samkeppnisstöðu en við Íslendingar. Þetta alþjóðlega mat sem gefur vitaskuld vísbendingar er byggt á nákvæmri úttekt á fjölmörgum þáttum sem of langt mál er að fara yfir hér, en er athyglisvert og er vikið að nokkru að í nefndaráliti okkar tvímenninganna.

Það kemur t.d. í ljós varðandi þessar úttektir að við erum mjög aftarlega í alþjóðavæðingu með þátttöku í alþjóðaviðskiptum. Fjármálakerfi okkar er talið mjög ábótavant á alþjóðlegan mælikvarða, stjórnun, þar á meðal stjórnun fyrirtækja þykir slök hérlendis og tækni og vísindum er lítið sinnt miðað við aðrar þjóðir. Þessi samanburður segir okkur að það er nauðsynlegt að gera allt til að efla nýsköpun í landinu.

Þess vegna hefðum við fagnað góðu frv. um þennan málaflokk og stutt ríkisstjórnina eindregið ef komið hefði fram frv. sem hefði tekið á þessum málum með heilsteyptum hætti. Svo er ekki. Hér er settur á stofn viðbótarlánasjóður sem beinlínis er tekið fram í greinargerð með frv. að eigi ekki að þróa eða fóstra hugmyndir. Sagt er í greinargerð frv. að hann eigi fyrst og fremst að vera sem viðbótarlánasjóður þegar vaxin eru upp ný fyrirtæki. Þetta er hefðbundin starfsemi nokkuð margra aðila hér á landi. Hins vegar getur meiri hluti efh.- og viðskn. þess að ekki eigi að líta á verkefni sjóðsins út frá þessu sjónarhorni eingöngu heldur skoða einmitt upphafsfasa í þróun og nýsköpun, sem er að fóstra hugmyndir, ráðgjöf gagnvart frumkvöðlum, gerð frumáætlana og forkönnun markaða. Það er fyrst og fremst á þessu sviði sem okkur vantar átak og það má benda á að oft eru það ekki peningar sem koma þarna að mestu gagni heldur fyrst og fremst ráðgjöf því að þau sannindi hafa farið fram hjá mörgum frumkvöðlinum að einfalt er að búa til vöru, einfalt er að fá hugmynd, nokkru erfiðara er að þróa hugmyndina eða hrinda henni í framkvæmd, en það er langerfiðast að hagnast á hugmyndinni. Það er þessi atburðarás og staðreyndir sem hafa farið fram hjá mörgum manninum sem ætlaði að sigra heiminn með nýjum hugmyndum í atvinnulífinu.

Við sjáum þess hins vegar ekki merki í þessum sjóði að tekið sé á þessu nógu markvisst. Það er fyrst og fremst kveðið skilmerkilega á um í þessu frv. hvernig aðild að stjórninni sé háttað. Hér er hefðbundið fyrirkomulag á ferðinni sem við þekkjum frá fyrri frumvörpum þessarar ríkisstjórnar. Helmingaskiptaregla þessara tveggja stjórnarflokka er þar alls ráðandi en það er nú svo merkilegt með þennan sjóð sem á að vera með nokkra milljarða umleikis af opinberu fé að það eru ekki opinberir aðilar sem fara með stjórn sjóðsins. Af fimm manns í stjórn sjóðsins er einn tilnefndur af samtökum úr sjávarútvegi, einn af samtökum í iðnaði og einn tilnefndur af Alþýðusambandinu. Þetta er hefðbundin uppsetning á lífeyrissjóðum. Menn geta velt vöngum yfir því til hvers þurfi að setja á stofn viðbótarlánasjóð vegna þess að þessir aðilar reka nú þegar tvö fyrirtæki á þessu sviði, þ.e. Eignarhaldsfélagið Alþýðubankann hf. og Þróunarfélag Íslands hf. Þau eru rekin af sömu aðilum og eiga að fara með ferðina í þessum nýja Nýsköpunarsjóði. Og þá spyr maður sig vitaskuld: Til hvers er verið að gera hér raunverulega alveg svipaða hluti í uppsetningu og þekkjast annars staðar?

Það er galli á uppbyggingu þessa sjóðs að þarna skuli á hefðbundinn hátt vera einungis kallaðir til forsvarsmenn hinna eldri atvinnugreina ef svo má að orði komast. Þarna hefðu vitaskuld þurft að koma aðilar sem eru ,,fulltrúar framtíðarinnar`` vegna þess að ég tel að það sé mikil framtíð fólgin bæði í sjávarútvegi og iðnaði en í svona nýsköpunarsjóði hefði ekki hvað síst þurft að kalla til aðila sem hafa sérþekkingu í tölvumálum, tækniþróun, menntamálum, líftækni og ferðamálum svo að nokkrir þættir séu nefndir sem hafa vaxið mjög mikið undanfarin ár.

Hér er því farin sú leið að byggja upp viðbótarlánasjóð sem hefur ekki nægjanlega mikið með nýsköpun að gera. Það var samdóma álit flestra þeirra aðila sem við leituðum til að leggjast gegn þessari útfærslu. Mönnum fannst þessi aðferðafræði ekki mjög skynsamleg og úr því að teknir eru þó þetta margir milljarðar til hliðar til að gera þessa hluti, þá hefði vafalítið mátt ráðstafa þeim á betri máta til að efla nýsköpun hér á landi.

Meiri hluti efh.- og viðskn. ákvað hins vegar að taka einn milljarð í viðbót úr Fjárfestingarbankanum og setja í Nýsköpunarsjóð, eyrnamerkja hann til sérstakra verkefna á landsbyggðinni. Það fylgja þessu ekki mjög nákvæm fyrirmæli í nefndaráliti eða brtt. meiri hlutans. Þetta er nokkuð merkileg aðferðafræði og það má segja eiginlega að hér sé settur á stofn lítill Byggðasjóður til hliðar við hinn sanna Byggðasjóð. Þessi hugmyndafræði dugði til að landsbyggðarþingmenn stjórnarliðsins studdu þetta mál af meiri krafti en áður en þessi hugmynd varð til.

[17:45]

Það er athyglisvert að stjórnarmeirihlutinn sá ekki ástæðu til, fyrst hann vildi efla sérstaklega lánveitingar til landsbyggðarinnar, að láta það renna í gegnum Byggðastofnun og Byggðasjóð sem er hinn hefðbundni farvegur og sá farvegur sem þessir tveir stjórnarflokkar hafa nýtt hvað mest á liðnum árum. Í stað þess er búinn til nýr farvegur en ekki kveðið neitt á um útlánareglur eða meginstefnur varðandi þann þátt, heldur einungis sagt að útlánareglur skulu vera settar af hálfu viðskrh. Hér er mjög margt skilið eftir og ýmsum spurningum ósvarað varðandi það efni.

Það er hins vegar eitt nýmæli varðandi þennan milljarð og það er að varsla hans og umsjón er boðin út. Einstakir aðilar í meiri hluta efh.- og viðskn. hafa rætt um einkavædda byggðastefnu í því sambandi. Þetta er að mínu mati fráleit orðanotkun. Hér er einungis verið að ræða um að fela tilteknum aðilum umsjón með þessum milljarði. Það er vafalítið spennandi að reyna þessa aðferð. Við höfum ekkert á móti því í 3. minni hluta að það sé gert en að ræða um að hér sé um eitthvert sérstakt nýmæli að ræða eða einkavædda byggðastefnu eins og það hljómar er fráleit orðanotkun að okkar mati. Meginatriðið í þessu er að bætt er við sérstökum útlánum eyrnamerktum landbyggðinni án þess að stefnumótun fylgi.

Við í 3. minni hluta viljum aukin lán til landsbyggðarinnar, en þá þarf að gera það að loknu endurmati á byggðamálum sem þarf að gera í víðara samhengi og móta þarf stefnu sem tryggir byggð í dreifbýli með virkum hætti vegna þess, herra forseti, að það hefur sýnt sig að lánveitingar eingöngu hafa dugað skammt til þess að stöðva fólksflótta frá landsbyggðinni. Hér þarf að koma til stefnumarkandi uppbygging á þjónustukjörnum, sameining sveitarfélaga, stuðningur við annan atvinnuveg en sjávarútveg og margt fleira sem ríkisstjórnin beinir ekki sjónum sínum að. Það er þetta sem við gagnrýnum varðandi milljarðinn sem tengist landsbyggðinni. Það er ekki að það sé gert myndarlegt átak gagnvart landsbyggðinni, það er brýnt og nauðsynlegt, heldur að það skuli þá ekki vera gert myndarlega og með samræmdum hætti þannig að af því náist meiri árangur en hefur náðst með fyrri lánveitingum og fyrri lánasjóðum. Það er það sem okkur finnst miður varðandi þetta mál.

Við hefðum hins vegar talið rétt að vinna út frá þessu frv. og ákveðnum hugmyndum og góðri meiningu bæði af hálfu stjórnarliða og annarra í tengslum við nýsköpun og ekki hvað síst landsbyggðina og við hefðum verið reiðubúin til þess að setjast niður með ríkisstjórnarflokkunum og vinna betra frv. og þess vegna eyrnamerkja meiri fjárhæðir í tiltekin verkefni. Það er ekki aðalatriðið í þessu efni því aðalatriðið er að það fjármagn sem varið er til þessara mála nýtist vel.

Við hefðum talið raunhæfara að verja auknu fjármagni til eflingar menntunar, m.a. tæknimenntunar og æðri menntunar, veita skattalegar undanþágur vegna nýsköpunar og þróunar, leggja áherslu á aðstoð við markaðssetningu erlendis, vanda undirbúning af hálfu stjórnvalda við kortlagningu nýrra sviða og stöðu á alþjóðlegum markaði og bætta ráðgjöf við einstaklinga og frumkvöðla. Það hefði verið mun skynsamlegri leið að flétta þetta inn í þá hugmyndafræði sem hér er lagt upp með. Í stað þess kemur hér fram frv. um viðbótarlánasjóð sem því miður mun líklega ekki ná öllum þeim háleitu markmiðum sem menn geta sameinast um.

Þess vegna teljum við rétt að málið verði unnið betur, fleiri aðilar kallaðir til við undirbúning þess og breiðari hópur. Það er þess vegna sem við leggjum til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar og við hefðum verið reiðubúnir til að leggja okkar af mörkum við þá vinnu.

Ég vil geta þess sérstaklega út af þeirri umræðu sem fór fram í upphafi þingfundar um þær upplýsingar sem hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, kom fram með í umræðunni, að til væri einhvers konar stefnumótun ríkisstjórnarinnar í sambandi við byggðamál sem menn eru að frétta erlendis frá og virðist ekki hafa verið rætt hér á hinu háa Alþingi. Það er e.t.v. enn þá brýnna að skoða þessi mál í samhengi við þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin virðist hafa gert á erlendum vettvangi sem verður vitaskuld kallað eftir e.t.v. síðar við þessa eða aðra umræðu. Það kemur vel til álita, herra forseti, að aflokinni þessari umræðu, vegna þess að það gefst nokkurt ráðrúm að skoða málið milli umræðna, að 3. minni hluti leggi fram brtt., en 3. minni hluti er að íhuga það hvort ekki væri rétt að koma fram með brtt. við málið við 3. umr. ef svo fer að tillaga okkar um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar verður felld. Við erum að vísu ekki þeir einu sem gerum slíka tillögu því að eins og kom hér fram áðan hefur hv. þm. Pétur Blöndal einnig lagt til sömu málsmeðferð og einnig með þeim rökum að málið þurfi að vinna betur. Það kemur hins vegar vel til álita að reyna að skerpa og betrumbæta þetta frv., e.t.v. með tillögugerð við 3. umr. Við áskiljum okkur rétt til að skoða það yfir þann tíma sem líður á milli umræðna, en meginatriðið í okkar málflutningi er að við styðjum heils hugar nýsköpun. Við lítum á að hægt hefði verið að ná markmiðum með öðrum hætti heldur en hér er lagt til. Það er hægt að stuðla að því máli með fjármagni og lánveitingum en þá hefði þurft að byggja sjóðinn og útfærslu hans á markvissari hátt en hér er gert og okkar ósk er sú ein að sest væri betur yfir það mál. Það hefði ekki staðið á okkur í stjórnarandstöðunni eða okkur sem myndum 3. minni hluta að vinna að því máli af fullum heilindum.