Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:00:01 (5696)

1997-04-23 18:00:01# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:00]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Stjórnmál snúast oft og tíðum um mismunandi leiðir að markmiðum. Stundum eru menn sammála um markmiðin, stundum ekki. Hér getum við hæstv. viðskrh. verið sammála um það markmið að hlutur okkar á alþjóðamarkaði og samkeppnisstöðu þyrfti að vera betri. Okkur greinir hins vegar á um leiðirnar.

Þegar hann vitnar hér til þeirra aðila sem voru jákvæðir gagnvart Fjárfestingarbankanum, þá vil ég að það komi alveg skýrt fram að það voru fyrst og fremst þeir aðilar sem fá að tilnefna menn í stjórn og nátengdir þeim sem voru ánægðir með þetta fyrirkomulag og lái þeim hver sem vill. Aðrir sem komu að þessu máli og gátu litið á það úr nokkru meiri fjarlægð voru flestir andvígir. Sömuleiðis eru mjög margir andvígir þessari aðferðafræði við Nýsköpunarsjóðinn.

Ríkisvaldið verður áfram stærsti aðilinn í viðskiptabankaumhverfinu, fjárfestingarsjóðaumhverfinu og er núna orðinn langstærsti ráðandi aðilinn í tryggingaumhverfinu. Það var ekki gerð nein breyting á þessu. Ég hefði kosið að það hefði verið gert. Það er ekki gert. Þetta mál snýst um pólitíska hagsmuni flokka. Þetta snýst um þær stöður sem losna núna í kjölfar samþykktar þessara frumvarpa, bankastjórastöðurnar í Fjárfestingarbankanum, Nýsköpunarsjóðnum og í ríkisviðskiptabönkunum sem núna eru orðnir hlutafélög. Það vita allir sem koma að málinu að samræður eru milli stjórnarflokkanna hver skipi hvaða embætti. Sú umræða og sú hugmyndafræði á ekki eftir að bæta samkeppnisstöðu Íslands á erlendum vettvangi.